| HI

Úr leik í Evrópudeildinni

Þátttöku Liverpool í Evrópudeildinni er lokið, fyrr en vonir stóðu til. Þriggja marka forskot sem Atalanta fékk í fyrri leiknum á Anfield reyndist of stórt bil til að brúa og aðeins náðist að vinna leikinn 1-0.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð líflegur og færin mörg á báða bóga, þó heldur meiri Liverpoolleikinn. Liverpool fékk þó óskabyrjun þegar Matteo Ruggeri tók fyrirgjöf Trents Alexander-Arnold niður með hendinni. Dómarinn var ekki lengi að dæma vítaspyrnu en VAR vildi einhverra hluta vegna skoða það frekar. Sú skoðun staðfesti vítaspyrnuna og Mo Salah skoraði af öryggi úr henni.

Í hönd fóru líflegar mínútur. Diaz komst í góða stöðu en markvörðurinn bjargaði með úthlaupi, Szoboszlai átti ágætt skot sem fór beint á markvörðinn og Alisson rétt náði að koma í veg fyrir sjálfsmark, sem reyndar hefði ekki staðið vegna rangstöðu. En vendipunktur leiksins varð líklega fimm mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks þegar Salah fékk frábæra sendingu frá Gakpo og var með markvörðinn í einskismannslandi en vippa hans fór langt framhjá markinu. Svona færi hefði þurft að nýta. En fyrri hálfleikurinn var í raun þokkalegur og gaf vonir um að hægt væri að ná upp forskotinu.

Það er hins vegar afskaplega lítið um seinni hálfleikinn að segja. Atalanta léku nánast maður á mann og voru fljótir að loka okkar menn af þegar þeir fengu boltann. Hreyfingarleysi okkar leikmanna varð til þess að boltinn fór iðulega aftur á Alisson, sem átti vel yfir 90 sendingar í leiknum - sturluð tölfræði. Breytingar sem Klopp reyndi að gera breyttu engu í þeim efnum og Liverpool virtist aldrei líklegt til að jafna þetta einvígi. Atalanta sigldi þessu nokkuð örugglega heim og Evrópuþátttöku Liverpool er þar með lokið.

Atalanta: Musso, Djimsiti, Hien, Kolasinac, Zappacosta, De Roon, Ederson (Pasalic 75.), Ruggeri, Koopmeiners, Miranchuk (Lookman 79.), Scamacca (De Ketelaere 75.).

Liverpool: Alisson, Van Dijk, Konate, Diaz (Jota, 66), Szoboszlai (Elliott, 66), Mac Allister, Salah (Nunez, 66), Jones, Gakpo, Robertson (Danns, 80), Alexander-Arnold (Gomez, 72).

Mark Liverpool: Mo Salap (7. mín., v)

Gul spjöld: Hien, Koopmeiners og Zappacosta hjá Atalanta.

Áhorfendur: Ekki vitað.

Maður leiksins: Cody Gakpo. Var líflegur í fyrri hálfleik og skapaði oft usla í fyrri hálfleik. Var hins vegar á sama dapra plani og allir aðrir í seinni hálfleik.

Jürgen Klopp: „Ég er vonsvikinn að við fórum ekki áfram en ekki pirraður, reiður eða neitt slíkt. Nú getur við einbeitt okkur að deildinni og það munum við gera.“
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan