| Sf. Gutt

Sigur í kveðjuleik Jürgen Norbert Klopp!

Liverpool endaði keppnistímabilið með 2:0 sigri á Wolverhampton Wanderes á Anfield Road. Sigur Liverpool féll næstum því í skuggann í sólskininu fyrir kveðjustund Jürgen Norbert Klopp!

Jürgen Klopp var innilega fagnað þegar hann gekk til sætis á varamannabekk Liverpool fyrir leikinn. Þjóðsöngurinn var sunginn með hæsta móti! Allt snerist um Jürgen og kveðjustundina! Það var magnað að sjá myndverk í stúkunum með nafni Þjóðverjans og þökkum upp á móðurmáli hans. Tilfinningaþrungin stund svo ekki sé meira sagt. Jürgen var greinilega hrærður og skyldi engan undra.  

Liverpool tók strax öll völd á vellinum. Leikmenn liðsins voru greinilega staðráðnir í að kveðja Jürgen með sigri. Annað væri það nú! Á 28. mínútu braut Nélson Semedo illa á Alexis Mac Allister og var rekinn af velli. Liverpool var ekki lengi að færa sér liðsmuninn í nyt og sex mínútum seinna kom mark. Harvey Elliott fékk boltann við hægra vítateigshornið og sendi inn í vítateiginn á Alexis sem skallaði boltann út í vinstra hornið.

Sex mínútur liðu og Liverpool bætti við öðru marki. Eftir fyrirgjöf frá hægri skallaði Cody Gakpo aftur fyrir sig á Mohamed Salah. Hann skaut að marki en hitti boltann ekki vel. Boltinn fór þó fyrir markið og þar náði Jarell Quansah að þjösna boltanum inn fyrir marklínuna af örstuttu færi. Ekki á hverjum degi sem miðvörður skorar í tveimur leikjum í röð! Örugg forysta Liverpool í hálfleik.

Liverpool hélt áfram að sækja eftir hlé. Á 49. mínútu kom Mohamed sér í skotstöðu hægra megin en Jose Sa varði. Mínútu seinna elti Cody boltann fram að endamörkum og varð fyrstur að honum. Hann gaf þvert fyrir og hitti beint á Luis Díaz sem skaut í þverslána og niður af stuttu færi. Luis hefði átt að skora því markið var gersamlega óvarið!

Wolves náði góðri sókn á 67. mínútu. Sóknin endaði með að Hee-Chan Hwang fékk boltann í vítateignum en Virgil van Dijk komst fyrir skot hans. Tveimur mínútum seinna átti Mohamed bogaskot úr miðjum vítateig sem Jose sló með tilþrifum í horn. Liverpool hafði mikla yfirburði, enda manni yfir, en mörkin urðu ekki fleiri.

Þegar dró að leikslokum drukknaði allt í söngvum stuðningsmanna Liverpool Jürgen til heiðurs. Andrúmsloftið var kyngimagnað. Sennilega voru margir í tilfinningalegu uppnámi þegar flautað var til leiksloka. Liverpool vann en um leið var ferill Jürgen á enda.

Hin eiginlega kveðjustund var býsna löng. Leikmenn og starfsfólk komu út á völlinn til að ganga hefðbundinn heiðurshring. En að þessu sinni snerist allt um Jürgen Klopp. Hann ávarpaði áhorfendur með eftirminnilegri ræðu. Hann þakkaði fyrir en hvatti um leið stuðningsmenn Liverpool til að halda áfram að standa við bakið á liðinu, leikmönnunum og arftaka sínum. Jürgen var glaður og reifur. Á hinn bóginn voru sumir leikmenn hans daprir að sjá. Það var undarlegt að sjá þennan ótrúlega Þjóðverja ganga út af vellinum í síðasta sinn í starfi sínu sem framkvæmdastjóri Liverpool. Ógleymanlegur ferill hans hjá Liverpool var á enda!

Liverpool: Becker, Robertson, van Dijk, Quansah, Alexander-Arnold (Bradley 70. mín.), Mac Allister (Gravenberch 70. mín.), Endo, Elliott (Jones 81. mín.), Díaz (Núnez 71. mín.), Gakpo (Szoboszlai 81. mín.) og Salah. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Gomez, Konaté og Jota.

Mörk Liverpool: Alexis Mac Allister (34. mín.) og Jarell Quansah (40. mín.).

Gult spjald: Wataru Endo.

Wolverhampton Wanderes: Sa, T. Gomes, Kilman, Bueno (Doyle 84. mín.), Aït-Nouri (Bueno 78. mín.), J. Gomes, Lemina, Bellegarde (Traoré 63. mín.), Semedo, Cunha (Neto 78. mín.) og Hwang Hee-Chan (Doherty 62. mín.). Ónotaðir varamenn: Bentley, Chirewa, Fraser og González.

Gult spjald: Toti Gomes.

Rautt spjald: Nélson Semedo.

Áhorfendur á Anfield Road: 60.059.

Maður leiksins: Jürgen Norbert Klopp!

Jürgen Norbert Klopp: ,,Við ákveðum sjálf hvort við erum áhyggjufull eða spennt fyrir framtíðinni. Við ákveðum sjálf hvort við höfum tiltrú eða ekki. Við ákveðum sjálf hvort við búum yfir trausti eða ekki. Frá og með deginum í dag verð ég einn af ykkur og ég held áfram, eins og ég hef gert, að hafa tiltrú á ykkur. Ég hef hundrað prósent trú á ykkur eins og verið hefur."

Fróðleikur

- Jürgen Norbert Klopp stýrði Liverpool í siðasta skipti.

- Þjóðverjinn stjórnaði Liverpool í 491 leik. 

- Liverpool vann 305 af leikjunum, jafnteflin voru 99 og 87 leikir töpuðust. 

- Liverpool skoraði 1.035 mörk og fékk á sig 503.

- Alexis Mac Allister skoraði sjöunda mark sitt á leiktíðinni. 

- Jarell Quansah skoraði í þriðja sinn á sparktíðinni.

- Miðvörðurinn ungi skoraði þar með annan leikinn í röð. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan