| Sf. Gutt

Jafnglími í höfuðstaðnum

Liverpool gerði í dag 2:2 jafntefli við Arsenal í London. Liverpool lenti tvívegis undir en gafst ekki upp. Líklega gátu liðin vel við unað eftir hörkuleik.   

Liverpool var heldur sterkari aðilinn í byrjun en það var Arsenal sem komst yfir í sinni fyrstu sókn sem eitthvað kvað að. Á 9. mínútu fékk Bukayo Saka langa sendingu inn í vítateig Liverpool. Hann lék á Andrew Robertson hægra megin og þrumaði boltanum svo upp í þaknetið framhjá Caoimhin Kelleher sem átti ekki möguleika á að verja. 

Liverpool fékk gott færi á að jafna á 14. mínútu. Mohamed Salah komst þá inn í þversendingu fyrir utan vítateig Arsenal. Hann skaut strax að marki en náði ekki að hitta markið. Fjórum mínútum seinna jafnaði Liverpool. Trent Alexander-Arnold tók horn frá vinstri. Luis Díaz skallaði boltann aftur fyrir sig og hitti beint á Virgil van Dijk sem stýrði boltanum í markið með höfðinu af stuttu færi. Vel útfært hjá Liverpool!

Þrátt fyrir að Liverpool hefði náð að jafna gekk liðinu ekki vel fram að hálfleik. Liverpool gekk illa að halda boltanum og Arsenal átti góðar sóknir. Þetta skilaði sér þegar tvær mínútur voru til hálfleiks. Arsenal fékk aukaspyrnu á vallarhelmingi Liverpool. Declan Rice sendi fyrir markið. Fyrir miðju marki skaut Mikel Merino sér fram og skallaði í mark. Arsenal með sanngjarna forystu og sú var staðan í hálfleik. 

Liverpool kom sér í gang og spilaði mun betur eftir hlé. Lítið var um færi en eitt kom þó þegar níu mínútur voru eftir. Trent sendi góða sendingu fram yfir vörnina. Hann hitti beint á Darwin Núnez sem leit upp og sendi þvert fyrir markið á Mohamed sem smellti boltanum í markið úr vítateignum af miklu öryggi. Enn einu sinni skorar Egyptinn. Darwin hafði lítið komist áleiðis í leiknum en sendingin hans var fullkomin beint á Mohamed. Ekki var meira skorað það sem lifði leiks og jafnglími niðurstaðan. 

Liverpool spilaði ekki vel í fyrri hálfleik og Arsenal leiddi sanngjarnt í hálfleik. En í síðari hálfleik sótti Rauði herinn í sig veðrið og jafnaði verðskuldað. Úrslit leiksins voru sanngjörn þegar upp var staðið. 

Mörk Arsenal: Bukayo Saka (9. mín.) og Mikel Merino (43. mín.).

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (18. mín.) og Mohamed Salah 81. mín.). 

Maður leiksins: Ibrahima Konaté. Frakkinn var eins og klettur í vörninni hjá Liverpool. Hann er búinn að vera mjög góður það sem af er leiktíðar. 

Arne Slot: ,,Ég var mjög ánægður með að við vorum sterkara liðið í síðari hálfleik. Við ætluðum okkur að vinna en kannski getum við vel við unað sérstaklega eftir hvernig við spiluðum í fyrri hálfleik."

Fróðleikur

- Virgil van Dijk skoraði annað mark sitt á keppnistímabilinu.

- Virgil var fyrirliði Liverpool í 100. skipti. 

- Mohamed Salah er nú kominn með átta mörk á leiktíðinni. 

- Mohamed er búinn að skora síðustu átta leiktíðir á móti Arsenal. 

- Ryan Gravenberch spilaði 50. leik sinn fyrir Liverpool. Hann er búinn að skora fjögur mörk og leggja upp tvö.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan