| Sf. Gutt

Af samningamálum Virgil van Dijk

Samningamál Virgil van Dijk hafa verið mikið til umræðu síðustu vikur og mánuði. Samningur hans rennur út á sumri komandi. Þar með getur hann farið að ræða við önnur félög núna eftir áramótin. 

Allt frá því lokað var fyrir félagaskipti í lok ágúst hafa fjölmiðlar fjallað um samningamál Virgil og reyndar Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah líka. Samningamál Trent og Mohamed eru á sama stað í tíma og Virgil.

Líkt og Trent og Mohamed þá hefur Virgil tjáð sig lítið um samningamál. Hollendingurinn gerði síðast samning við Liverpool sumarið 2021 og hann rennur út, eins og áður kemur fram, næsta sumar. Hann sagði reyndar þetta í byrjun nóvember. ,,Ég er sallarólegur. Við skulum bara sjá til þegar líður að lokum keppnistímabilsins. Ég nýt þess að spila knattspyrnu og er í fínasta standi bæði líkamlega og andlega. Liðið og ég erum að spila fallega knattspyrnu. Það er því ekki nein ástæða til annars en að njóta þess að spila."

Þegar Virgil samdi síðast við Liverpool 2021 var Hollendingurinn nýbúinn að ná sér eftir alvarleg hnémeiðsli sem hann varð fyrir haustið 2020. Síðan þá hefur hann náð sér vel og verið eins og klettur í vörn Liverpool. Hann var gerður að fyrirliða Liverpool í kjölfar þess að Jordan Hendeson fór í fyrrasumar.

Virgil sagði þetta í byrjun leiktíðar. ,,Ég get lofað hverju einu og einasta ykkar að við munum leggja allt í sölurnar til að liðið eigi fengsælt keppnistímabil og þið getið verið stolt af liðinu." Þessum oðrum beindi hann til stuðningsmanna Liverpool. Fyrirliðinn hefur sannarlega lagt sitt af mörkum í þessu efni. 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan