Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford
Liverpool mætti Brentford á Gtech Community vellinum í London í dag.
Arne Slot gerði eina breytingu á liðinu frá Nottingham Forest leiknum á þriðjudag, Kostas Tsimikas kom inn fyrir Andy Robertson.
Liðið: Alisson, Alexandre-Arnold, Konaté, Van Dijk, Tsimikas, Gravenberch, Mac Allister, Szoboszlai, Diaz, Salah, Gapko
Varamenn: Kelleher, Endo, Robertson, Chiesa, Bradley, Nunez, Jones, Elliot
Fyrri hálfleikur: Fyrsta korterið var tíðindalítið, Brentford menn voru sprækir en lítið merkilegt gerðist. Á 15. mínútu kom fyrsta markverða færi Liverpool þegar Luis Diaz fékk sendingu inn fyrir frá Konaté. Diaz virtist ekkert vita hvort hann var að koma eða fara og endaði á því að banka boltann framhjá með herðablaðinu.
Á 18. mínútu átti Gravenberch ágætt skot sem landi hans Flecken varði í horn. Næstu mínútur fékk Liverpool slatta af hálffærum og ótal hornspyrnur en á 35 mínútu átti Szoboszlai frábært skot fyrir utan sem small í vinklinum og fór aftur fyrir. Hefði verið gaman að sjá boltann í netinu þar.
Fyrri hálfleikur í hnotskurn, Liverpool tekur eina af 9 hornspyrnum sínum sem ekkert kom út úr
Síðasta korterið í fyrri hálfleik var Liverpool miklu betra liðið á vellinum, en eina alvöru færið fékk Cody Gapko á 39. mínútu eftir góða skyndisókn. Laflaust og lélegt skot Hollendingsins fór fram hjá markinu. Illa farið með afbragðs færi.
Niðurstaða: Liverpool fór varlega af stað en vann sig smátt og smátt inn í leikinn. Síðasta korterið var hrein eign Liverpool. Liverpool átti 9 hornspyrnur í fyrri hálfleik og 18 marktilraunir, þar af 5 á markið.
Seinni hálfleikur: Liverpool byrjaði á stórsókn þar sem Luis Diaz hefði að ósekju mátt gera betur. Á 50. mínútu hélt hornspyrnu veislan áfram, þá fékk Liverpool hornspyrnur nr. 10 og 11 í leiknum, en sem fyrr kom ekkert út úr þeim.
Á 63. mínútu átti Diaz skot á markið úr teignum sem Flecken varði með naumindum. Diaz reyndi í kjölfarið að fiska víti á Flecken en Andy Madley féll ekki í þá gildru, þrátt fyrir að vera örugglega einn allra slakasti dómarinn í deildinni.
Á 65. mínútu komu Robertson og Nunez inn fyrir Tsimikas og Diaz. Tveimur mínútum síðar komu varamennirnir við sögu, Robertson átti þá góða fyrirgjöf á Nunez sem skallaði langt framhjá úr upplögðu færi.
Á 80. mínútu komu Elliot og Jones inná fyrir Mac Allister og Szoboszlai og 7 mínútum síðar kom Chiesa inná fyrir Gapko.
Á 89. mínútu átti Salah ágætt skot framhjá, líklega það besta sem kom frá Egyptanum í dag.
Í uppbótartíma var komið að þætti ólíkindatólsins frá Uruguay, eins og Hörður Magnússon kallar hann! Nunez skoraði á 91. mínútu eftir stoðsendingu frá Alexander-Arnold og tveimur mínútum síðar skoraði hann ennþá betra mark eftir sendingu frá Harvey Elliot.
Mörk Liverpool: Nunez á 91. og 93. mínútu
Gul spjöld: Tsimikas, Szoboszlai.
Maður leiksins: Darwin Nunez
Framhaldið: Þetta var ótrúlega mikilvægur sigur, fyrsti sigur Liverpool á árinu eftir örlítið hikst. Erfiður leikur og ekkert virtist ganga upp hjá okkar mönnum fyrr en í uppbótartíma. Frábært að Nunez skyldi skora tvö. Annað jákvætt í leiknum var frammistaða Konaté, Alexander-Arnold og Gravenberch, en áhyggjuefni hvað Salah virkar andlaus frammi. Eins var gríðarlega jákvætt að Alisson skyldi halda hreinu, það er orðið aðeins of langt síðan. Chiesa kom sterkur inn og Elliot sömuleiðis. Áfram gakk!
Fróðleikur:
Þetta var 23. viðureign félaganna og 15. sigurleikur Liverpool. Brentford hefur unnið fjóra leiki og fjórir hafa endað með jafntefli.
Leikurinn í dag var 6000. leikur Liverpool frá því að félagið var stofnað árið 1892. Sigurinn í dag var sigur nr. 3015 frá árinu 1892.
YNWA!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald! -
| Sf. Gutt
Jarell Quansah ekki meiddur