Fyrsta skrefið á langri leiktíð að baki
Steven Gerrard fór fyrir Evrópumeisturunum á Anfield Road í kvöld þegar Liverpool tók fyrsta skrefið á leiktíð, sem verður löng og ströng, með 3:0 sigri á Total Network Solutions. Steven Gerrard skoraði öll mörk Liverpool og átti stórleik. Evrópumeistarnir unnu öruggan sigur en hinir tvöföldu meistarar frá Wales stóðu fyrir sínu. T.N.S. varð fyrsta liðið frá Wales til að mæta Liverpool í Evrópuleik.
Áhorfendur, sem troðfylltu Anfield Road í kvöld, voru í hátíðarskapi og kyrjuðu af og til "Evrópumeistarar" til upprifjunnar um afrek vorsins. Ekki það að afrekið þarfnaðist þess! Fyrir leikinn hylltu þeir hetjurnar sínar innilega. Enginn fékk þó meiri hyllingu en Steven Gerrard. Mikill fögnuður braust út þegar nafn hans var lesið upp þegar liðin voru kynnt fyrir leikinn. Fyrir viku skipti hann um skoðun og ákvað að vera um kyrrt hjá Liverpool eftir að hafa ákvaðið brottför. Viðtökur áhorfenda hafa án efa yljað honum um hjartaræturnar. Fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til miningar um fórnarlömb sprenjuárásanna í Lundúnum í síðustu viku.
Eins og venjulega kom Rafael Benítez nokkuð á óvart með vali sínu á liðinu. Það kom ef til vill ekki á óvart að Jose "Pepe" Reina skyldi spila sinn fyrsta leik í markinu. Fannst reyndar sumum stuðningsmönnum Liverpool að Jerzy Dudek hefði átt að standa í markinu eftir hetjudáðir hans í Istanbúl í vor. En tveir ungliðar, Darren Potter og Anthoy Le Tallec, fengu nokkuð óvænt tækifæri í byrjunarliðinu.
Liverpool byrjaði af krafti og yfirburðir liðsins voru algerir frá upphafi til enda. Steven Gerrard kom Liverpool yfir eftir átta mínútur. Hann skoraði þá með hnitmiðuðu skoti úr teignum eftir góðan samleik og snjalla sendingu frá Fernando Morientes. Steven bætti öðru marki við á 21. mínútu. Hann komst þá einn í gegnum vörn velsku meistaranna og lyfti boltanum snyrtilega yfir markvörð þeirra. Allt stefndi í stórsigur Liverpool en markvörður velsku meistaranna fór á kostum og varði vel frá þeim Steven Gerrard, Fernando Morientes, Steve Finnan og Anthony Le Tallec fyrir leikhlé. Jose Reina þurfi að verja eitt skot og var það eina marktilraun velska liðsins í leiknum.
Leikmenn Liverpool tóku lífinu með ró í síðari hálfleik og Veilsverjarnir efldust. Vissulega átti Liverpool færi til að skora fleiri mörk en Fernando Morientes gekk illa upp við markið. Hollendingurinn Boudewijn Zenden kom inn í sínum fyrsta leik með Liverpool og lék á vinstri kantinum. En það var ekki fyrr en Frakkinn Djibril Cisse kom inn á að líf færðist í leik Liverpool á nýjan leik. Hann olli miklum usla í vörn T.N.S. Steven Gerrard fullkomnaði svo fyrstu þrennu sína mínútu fyrir leikslok. Hann skoraði þá með föstu langskoti neðst í bláhornið fyrir framan The Kop. Sigurinn var gulltryggður með þessu marki en hann var ekki eins stór og flestir áttu von á. Hann ætti þó að duga til frekara áframhalds á leiðinni til Parísar!
Það var allmikill handagangur í öskjunni í leikslok þegar leikmenn velska liðsins hópuðust að leikmönnum Liverpool til að fá að skipta á peysum við þá sem sumir eru hetjur þeirra. Að minnsta kosti einn leikmaður T.N.S. fór til Istanbúl til að hvetja sína menn til sigurs! Sá mun hafa húðflúr á hendlegg sínum með félagsmerki Liverpool!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Zenden 64. mín.), Potter (Cisse 76. mín.), Alonso, Gerrard, Riise, Morientes og Le Tallec. Ónotaðir varamenn: Carson, Baros, Hamann, Josemi og Whitbread.
Mörkin: Steven Gerrard (8., 21. og 89. mín.)
Áhorfendur á Anfield Road: 44.760.
Rafael Benítes var nokkuð sáttur eftir leikinn. "Ég held að við höfum skilað góðu dagsverki og 3:0 sigur er góð úrslit. Mér fannst við spila miklu betur í fyrri hálfleik. Þá sendum við boltann vel og áttum góðar fyrirgjafir. Við bættum okkur í síðari hálfleik þegar Djibril Cisse kom inn á og veitti okkur aukna möguleika á hægri kantinum. Mér fannst T.N.S. spila mjög vel og þeir geta verið stoltir af framgöngu sinni. Þeir lögðu mjög hart að sér, voru grimmir og vörðust vel."
Af hugsanlegum mótherjum í næstu umferð er það að frétta að Kaunas frá Litháen vann 4:2 sigur í á H.B. í Þórshöfn í kvöld. Því er ferðalag til Færeyja í næstu umferð ákaflega ólíklegt. Því miður fyrir Íslendinga!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!