Í hnotskurn
Sannfærandi sigur í Sofíu. Þetta er leikur Liverpool og CSKA Sofia í hnotskurn.
- Þetta var þriðja heimsókn Liverpool til Sofiu til að spila við CSKA.
- Liverpool mætti CSKA Sofia tvær leiktíðir í röð. Fyrst 1980/81. Þá vann Liverpool báða leikina. Fyrst 5:1 á Anfield Road og svo 1:0 á útivelli. Graeme Souness skoraði eftirminnilega þrennu í fyrri leiknum og þeir Terry McDermott og Sammy Lee eitt mark hvor. David Johnson skoraði sigurmarkið í seinni leiknum. Ray Clemence gulltryggði sigurinn með því að verja vítaspyrnu. Leiktíðina eftir mættust liðin aftur. Liverpool vann þá 1:0 á heimavelli með marki frá Ronnie Whelan. Seinni leikurinn tapaðist 2:0 eftir framlengingu.
- Leiktíðina 1980/81 fór Liverpool í úrslit eftir að hafa unnið CSKA og vann Evrópubikarinn með 1:0 sigri á Real Madrid. Úrslitaleikurinn fór fram í París. Í vor verður líka leikið til úrslita í París!
- Liverpool lék gegn nágrönnum CSKA, Levski Sofia, í Evrópukeppni félagsliða leiktíðina 2003/04. Bæði lið nota Vassil Levski leikvanginn sem heimavöll. Liverpool vann Levski 4:2 í útileiknum eftir 2:0 sigur heima. Þetta var því annar sigur Liverpool í Sofíu á þremur leiktíðum.
- Það vakti nokkra athygli að Rafael Benítez hafði aðeins sex varamenn til taks en ekki sjö eins og leyfi er fyrir.
- Milan Baros var á bekknum þrátt fyrir að talið sé að hann sé á förum.
- Þeir Jerzy Dudek, Boudewijn Zenden, Peter Crouch, Josemi og Djimi Traore voru allir heima vegna meiðsla.
- Djibril Cisse skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni. Hann er nú búinn að skora í fjórum leikjum í röð.
- Fernando Morientes skoraði fyrstu mörk sín á leiktíðinni. Um leið voru þetta fyrstu Evrópumörk hans fyrir Liverpool. Hann gat ekki leikið Evrópuleiki með Liverpool á síðustu leiktíð þar sem hann var búinn að spila með Real Madrid í forkeppni Meistaradeildarinnar fyrir ári.
- Fernando fór til móts við Milan Baros þegar hann fagnaði seinna marki sínu í leiknum og fagnaði því með Tékkanum.
- Ekki mátti miklu muna að Steven Gerrard bættist á meiðslalistann þegar Fernado fagnaði seinna marki sínu. Spánverjinn stökk í fang fyrirliðans sem fékk hnykk á bakið og virtist kveinka sér. En sem betur fer þá var hnykkurinn ekki alvarlegur! Fernando fór þá og fagnaði með Milan Baros.
- Antonio Barragan lék sinn fyrsta leik með Liverpool þegar hann spilaði síðustu ellefu mínútur leiksins eftir að hafa skipt við landa sinn Fernando Morientes. Hann mun vera yngstur útlendinga til að spila fyrir hönd Liverpool. Antonio er aðeins seytján ára.
- Stuðningsmenn CSKA Sofia komu illa fram við Djibril Cisse með því að framkalla apahljóð þegar hann var með boltann. En Frakkinn lét ekki setja sig út af laginu og svaraði vel fyrir sig með marki!
- Auglýsing til stuðnings Michael Shields stuðningsmanns Liverpool, sem situr saklaus í búlgörsku fanglesi, var á áberandi stað við völlinn. Stuðningsmenn Liverpool báru líka spjöld þar sem Michael var sýndur stuðningur.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock; Garcia, Alonso (Hamann 64. mín.), Gerrard (Sissoko 69. mín.), Riise; Morientes (Barragan 78. mín.) og Cisse. Ónotaðir varamenn: Carson, Baros og Whitbread.
Mörkin: Liverpool, Djibril Cisse (25. mín.) og Fernando Morientes (31. og 58. mín.). CSKA Sofia, Velizar Dimitrov (45. mín.).
Gul spjöld: Luis Garcia og Stephen Warnock.
Áhorfendur áVassil Levski leikvanginum: 16.512.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Enn fer Steven Gerrard fyrir sínum mönnum. Hann skoraði að vísu ekki í þetta skiptið. En hann gerði gott betur og lagði upp öll þrjú mörk Liverpool og átti stórleik.
Jákvætt :-) Liverpool vann öruggan og sannfærandi sigur. Steven Gerrard hélt áfram hinu magnaða sumarformi sínu. Hann skoraði að vísu ekki en lagði upp öll þrjú mörkin. Djibril Cisse skoraði í fjórða leik sínum í röð og var mjög sprækur. Loksins náði Fernando Morientes að láta að sér kveða og skoraði tvívegis.
Neikvætt :-( Kynþáttafordómar stuðningsmanna heimaliðsins, í garð Djibril Cisse, settu ljótan blett á leikinn. Hann svaraði samt vel fyrir sig inni á vellinum. Það hefði verið betra að halda hreinu en þetta á allt að vera í lagi fyrir seinni leikinn.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Heimamenn sem voru vel studdir af aðdáendum sínum byrjuðu af miklum krafti og ógnuðu nokkuð með hröðum og kraftmiklum sóknum. En Evrópumiestararnir slógu leikmenn CSKA út af laginu með því að skora fyrsta markið. Djibril Cisse komst þá einn í gegn eftir sendingu frá Steven Gerrard og skoraði utarlega úr teignum. Frakkinn fagnaði þar með marki fjórða leikinn í röð. Eftir þetta réði Liverpool gangi mála. Sex mínútum síðar opnaði Fernando Morientes markareikning sinn á leiktíðinni þegar hann skoraði með góðum skalla eftir glæsilega fyrirgjöf Steven Gerrard úr aukaspyrnu. Leikmenn Liverpool sofnuðu augnablik á verðinum í lok fyrri hálfleiks og Velizar Dimitrov minnkaði muninn með því að skalla óárettur í mark eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti.
Heimamenn byrjuðu síðari hálfleik, líkt og þann fyrri, af krafti. Liðið náði þó ekki að skapa sér hættuleg færi. Liverpool fékk á hinn bóginn góð færi og Fernando Morientes átti dauðafæri til að auka muninn en skaut í utanverða stöngina. Hann bætti þó úr skák litlu síðar þegar hann skoraði rétt utan markteigs eftir að hafa snúið varnarmann af sér. Aftur var Steven Gerrard hönnuðurinn að markinu. Sigurinn var aldrei í hættu eftir þetta. Jose Reina gulltryggði svo 3:1 sigur Liverpool þegar hann varði vel á lokamínútunni. Sannfærandi sigur sem færir Evrópumeistarana skrefi nær riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Sæti þar er svo gott sem formsatriði eftir vel heppnaða ferð til Búlgaríu.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!