Í hnotskurn
Fyrsti deildarsigurinn. Þetta er leikur Liverpool og Sunderland í hnotskurn.
- Fyrsti deildarleikur á heimavelli á leiktíðinni.
- Leikurinn hófst stundarfjórðungi síðar en hefði átt að vera. Ástæðan var sú að ársmiðahafar Liverpool fóru í fyrsta sinn í gegnum nýtt kerfi. Í því kerfi er lesið vélrænt af sérstökum aðgangskortum. Eitthvað tók það lengri tíma en reiknað hafði verið með. Byrjun leiks var því færð aftur um fimmtán mínútur.
- Áhorfendur voru með allra flesta móti eftir að eingöngu var farið að selja í sæti á Anfield Road.
- Opinberlega þá tekur leikvangurinn 45.362 áhorfendur.
- Stephen Wright fyrrum leikmaður Liverpool missti því miður af tækifæri til að spila á fyrrum heimavelli sínum. Hann meiddist illa nokkrum dögum fyrir leikinn.
- John, pabbi hans, vinnur sem nuddari hjá Liverpool. Stephen hefur að minnsta kosti getað heimsótt fólkið sitt í Liverpool.
- Anthony Le Tallec mátti ekki leika gegn Liverpool þar sem lánsmönnum er ekki heimilt á leika gegn liðunum sínum.
- Sunderland hefur ekki unnið leik í efstu deild frá því í desember árið 2002. Þá vann liðið Liverpool á Leikvangi ljósanna 2:1. Það breyttist ekkert á laugardaginn.
- Tapið gegn Liverpool var seytjánda tap Sunderland í röð í efstu deild.
- Xabi Alonso skoraði fyrsta deildarmark Liverpool á leiktíðinni.
- Luis Garcia lék sinn fimmtugasta leik með Liverpool. Hann hefur skorað þrettán mörk í þeim leikjum.
- Sunderland hafði fyrir þennan leik sótt þrjú jafntefli á Anfield Road í síðustu fjórum heimsóknum.
- Síðasta leik liðanna á Anfield Road lauk með markalausu jafntefli. Þá átti Liverpool tuttugu og eina marktilraun gegn engri! Núna átti Sunderland þó tvö markskot. Hvorugt þeirra náði að hitta á markrammann. Það var þó bæting hjá Svörtu köttunum!
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock, Sissoko, Alonso, Gerrard (Garcia 55. mín.), Zenden (Riise 63. mín.), Morientes og Cisse (Baros 75. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.
Gul spjöld: Steven Gerrard og Mohamed Sissoko.
Markið: Xabi Alonso (24. mín.).
Sunderland: Davis, Nosworthy, Breen, Stubbs, Arca, Lawrence (Elliott 66. mín.), Miller, Whitehead, Robinson (Woods 81. mín.), Welsh og Gray (Brown 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Caldwell og Joe Murphy.
Rautt spjald: Andy Welsh (74).
Gul spjöld: Breen, Robinson og Nosworthy.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.913.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Mohamed Sissoko. Malímaðurinn var mjög öflugur á miðjunni. Hann sýndi mikla yfirferð og gerði góða hluti. Hann bætti líka í eftir að Steven Gerrard fór af leikvelli. Það er ljóst að þarna er á ferðinni efnilegur leikmaður.
Jákvætt :-) Liverpool nældi í þrjú stig. Mohamed Sissoko spilaði mjög vel. Vörnin var örugg. Reyndar höfðu menn lítið að gera þar.
Neikvætt :-( Sóknarleikur Liverpool var langt frá því sannfærandi og sóknarmennirnir sköpuðu sér fá færi. Liðið hefur nú einungis skorað eitt mark í tveimur fyrstu deildarleikjunum og það þrátt fyrir að hafa haft töluverða yfirburði í báðum leikjunum. Af hverju spilar Liverpool ekki með tvo sóknarmenn í fremmstu víglínu á heimavelli? Djibril var vissulega inn á en hann lék mest úti á kanti fram eftir leiknum. Eins fannst með óþarfi að spila með þrjá menn inn á miðri miðjunni.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool tók leikinn strax í sínar hendur og sóknin að marki Svörtu kattanna var linnulítil. Steven Gerrard átti fyrirgjöf sem hafnaði í stönginni og þeir Fernando Morientes og Djibril Cisse fengu góð færi að koma Liverpool yfir en þeim tókst ekki að skora. Xabi Alonso kom Liverpool loks yfir á 24. mínútu þegar hann skoraði með fallegu skoti beint úr aukaspyrnu af löngu færi. Boltinn hafnaði alveg út við stöng. Líklega áttu flestir stuðningsmenn Liverpool von á að þetta yrði fyrsta markið af mörgum. En svo varð ekki. Yfirburðir Liverpool héldu áfram eftir leikhlé. Eina áhyggjuefni Liverpool var að Steven Gerrard varð að yfirgefa leikvöllinn vegna meiðsla eftir tíu mínútur í síðari hálfleik. Þrátt fyrir stöðuga sókn gekk leikmönnum Liverpool illa að skapa sér opin marktækifæri til að gera út um leikinn. Markvörður gestanna hafði í raun lítið að gera. Liverpool gekk ekkert betur að opna vörn Sunderland eftir að Andy Welsh var rekinn út af stundarfjórðungi fyrir leikslok. Eitt mark er alltaf lítil forysta og þótt leikmenn Sunderland ógnuðu marki Liverpool ekki þá var sigurinn ekki öruggur fyrr en flautað var til leiksloka. Þrjú stig í höfn og fyrsti deildarsigur leiktíðarinnar staðreynd.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!