Endurkoma númer tvö!!!!!
Endurkoma númer tvö!!! Liverpool tryggði sér Stórbikar Evrópu í kvöld með því að leggja CSKA frá Moskvu 3:1 eftir framlengingu í Mónakó. Rússneska liðið leiddi leikinn lengi vel en lærisveinar Rafael Benítez gáfust ekki upp frekar en í Miklagarði í vor og náðu að snúa leiknum sér í hag. Djibril Cisse kom inn sem varamaður og skoraði tvö mörk áður en Luis Garcia gulltryggði magnaðan sigur í framlengingu. Í þriðja sinn í sögu félagsins tryggði Liverpool sér Stórbikar Evrópu. Áður vannst þessi bikar árin 1977 og 2001. Enn bætist við afrekaskrá félagsins.
Sagan frá Miklagarði endurtók sig í furstadæminu Mónakó í kvöld. Óneitanlega var margt líkt með leiknum í kvöld og úrslitaleiknum í vor. Töpuðum leik var snúið í sigur og varamenn komu mikið við sögu í endurkomunni. Sjö af Evrópumeisturunum frá því í vor hófu leikinn. Besti leikmaður Meistaradeildarinnar, Steven Gerrard, var úrskurðaður óleikfær og Jamie Carragher leiddi liðið til leiks inn á Leikvang Loðvíks annars sem fyrirliði. Liverpool byrjaði leikinn vel en gegn gangi leiksins, á 24. mínútu, komust Rússarnir yfir. Brasilíumaðurinn Daniel Carvalho skoraði þá eftir vel útfærða skyndisókn. Fjöldi stuðningsmann CSKA Sofia fagnaði af miklum móð. Liverpool hélt áfram að sækja en leikmönnum liðsins gekk brösuglega að skapa sér opin marktækifæri. Luis Garcia var manna duglegastur í sókninni en færi hans fóru forgörðum.
Stuðningsmenn Liverpool fóru eins að í leikhléiinu í Monte Carlo og í Miklagarði í vor. Þeir sungu You´ll Never Walk Alone og sýndu hetjunum sínum að enn var von. Það sama var uppi á teningnum eftir leikhlé. Liverpool sótti en rússneska liðið lék varnarleik sinn frábærlega. Það hjálpaði þeim að vísu að leikmenn Liverpool voru heldur hugmyndasnauðir í sóknaraðgerðurm sínum. Rafael Benítez setti varamenn sína inn hvern af öðrum. Fyrst kom Florent Sinama Pongolle til leiks. Næstur kom Mohamed Sissoko. Þá loks fór að ganga betur. Mohamed var mjög sterkur á miðjunni og færði aukinn kraft í leik Liverpool. En samt virtist það ekki eiga fyrir Liverpool að liggja að ná að jafna leikinn. En það færðist fjör í leikinn ellefu mínútum fyrir leikslok þegar Djibril Cisse kom loksins inn á. Litlu áður höfðu stuðningsmenn Liverpool ákallað Michael Owen í söngvum sínum! Þremur mínútum seinna, á 82. mínútu, var Djibril búinn að jafna leikinn. Langt útspark Jose Reine olli usla í vörn rússneska liðsins. Luis Garcia fleytti boltanum áfram með brjóstkassanum. Varnarmaður sparkaði boltanum í hönd Djibril Cisse. Boltinn hrökk yfir markvörðinn og Djibril komst einn í gegn og skoraði af marklínunni. Ekki var við Djibril að sakast þótt boltinn færi í hönd hans og markið var gott og gilt. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega enda Liverpool komið aftur inn í leikinn. Eftir þetta áttu Rússarnir sér ekki viðreisnar von. Djibril var nærri búinn að tryggja sigurinn á lokaandartökum framlengingarinnar en skaut rétt framhjá. Líkt og í Miklagarði þurfti framlengingu.
Evrópumeistararnir voru miklu sterkari í framlengingunni. Djibril Cisse olli miklum usla í vörn CSKA með hraða sínum. Það endaði líka með því að hann kom Liverpool yfir á 102. mínútu. Vörn CSKA lenti í vandræðum með langa sendingu frá Dietmar Hamann. Frakkinn komst í gott færi. Markvörðurinn varði frá honum en hélt ekki boltanum. Djibril var vel vakandi, hirti frákastið og skoraði af stuttu færi. Allt ætlaði af göflunum að ganga hjá stuðningsmönnum Liverpool. Rússarnir reyndu að jafna og Wagner Love fékk færi en Jose varði. Í seinni hluta framlengingarinnar réði Liverpool lögum og lofum. Á 109. mínútu gulltryggði Liverpool sigurinn. Enn var Djibril Cisse á ferðinni. Hann tók glæsilegan sprett upp hægri kantinn og gaf hárnákvæma sendingu fyrir á Luis Garcia sem skallaði af öryggi í markið úr opnu færi. Nú var sigurinn svo gott sem tryggður. Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu og hófu að syngja sigursöngva. Annar Evróputitilinn árins 2005 var tryggður eftir endurkomu númer tvö!
Fögnuðurinn var mikill innan vallar sem utan þegar flautað var til leiksloka. Líklega fagnaði Djibril Cisse þó manna mest. Inn koma hans lagði grunninn að endurkomu Liverpool og hann var valinn Maður leiksins. Jamie Carragher tók svo við Stórbikarnum og gleðin magnaðist enn.
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Riise (Cisse 79. mín.), Finnan (Sinama Pongolle 55. mín.), Garcia, Alonso (Sissoko 71. mín.), Hamann, Zenden og Morientes, Ónotaðir varamenn: Carson og Warnock.
Gul spjöld: Zenden, Garcia, Hyypia og Sinama Pongolle.
Mörkin: Djibril Cisse (82. og 102. mín.) og Luis Garcia (109. mín).
CSKA Moskva: Akinfeev, Ignashevich, Alexei Berezutsky, Vasili Berezutsky, Ordia (Gusev 90. mín.), Daniel Carvalho, Vagner Love, Krasic (Dudu 85. mín.), Zhirkov (Semberas 66. mín.), Aldonin, Rahimic. Ónotaðir varamenn: Mandrykin og Samodin.
Gult spjald: Rahimic.
Markið: Daniel Carvalho (28. mín).
Þetta var ellefti Evróputitill Liverpool og sá fjórði á síðustu fjórum árum. Listinn hljóðar nú upp á fimm Evrópubikara 1977, 1978, 1981, 1984 og 2005. Þrjá Evrópumeistaratitla félagsliða 1973, 1976 og 2001 og nú þrjá Stórbikara Evrópu 1977, 2001 og 2005. En lengist afrekaskrá þessa sigursæasta knattspyrnufélags á Englandi!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!