Af hverju kom Michael Owen ekki aftur heim?
Af hverju kom Michael ekki aftur heim? Svar við þessari spurningu brennur á vörum margra stuðningsmanna Liverpool nú í dag þegar fullljóst er orðið að Heilagur Mikjáll valdi að fara norður í land og spila með Skjórunum frá Newcastle. Persónulega þá fannst mér ekki mjög gaman að sjá myndir af undirskrift Michael í morgun. En þessari staðreynd, verður ekki hnikað.
Síðustu vikuna eða svo hefur verið ljóst að Real Madrid var reiðubúið að selja Michael Owen. Forráðamenn Liverpool sögðu fátt þegar Michael lýsti áhuga sínum á því að snúa aftur heim á Anfield Road. Líklega hafa Rick Parry og félagar reiknað dæmið þannig að best væri að bíða þar til liði að því að félagaskiptatímabilinu lyki. En þá kom útspil frá Newcastle United. Forráðamenn Liverpool sáu þetta útspil ekki fyrir og þegar upp var staðið þá réði það líklega úrslitum í málinu. Útspil Newcastle fólst í því að félagið bauð Real Madrid seytján milljónir sterlingspunda fyrir Michael Owen. Lánssamingur var útilokaður. Forráðamenn Real voru skiljanlega í skýjunum eftir að þetta boð barst þeim! Á einu ári hafði Michael Owen, sem var ekki fastamður í liði þeirra, tvöfaldað verðmæti sitt. Real borgaði jú átta milljónir punda fyrir hann í ágúst á liðnu ári. Að sjálfsögðu samþykktu forráðamenn Real þetta tilboð Newcastle á stundinni. Hverjir hefðu ekki gert það í þeirra sporum?
Þetta tilboð og samþykki Real á því setti Liverpool í mjög erfiða stöðu. Hvernig gátu forráðamenn félagsins réttlætt það að borga helmingi hærri upphæð fyrir leikmann en það seldi hann á fyrir aðeins einu ári? Úr herbúðum Liverpool spurðist að það kæmi ekki til greina að borga svo háa upphæð fyrir Michael. Forráðamenn Real biðu átekta. Þeim lá ekkert á. Þeir voru búnir að ákveða að selja Michael og samþykkja frábært tilboð í hann. Síðustu daga settu forráðamenn Liverpool sig ákveðið í samband við Michael. Liverpool vildi fá hann. En þeir ætluðu ekki í neitt verðstríð um hann. Vilji Newcastle lá fyrir. Nú átti Michael Owen völina og kvölina. Hann gat einfaldlega hafnað því að ganga til liðs við Newcastle. En hann gerði það ekki!
Hvers vegna tók hann boði Newcastle frekar en að snúa heim til Liverpool? Vissulega var það kannski spennandi að ganga til liðs við Alan Shearer og verða hetja á einu augabragði. Það tóku jú tuttugu þúsund áhorfendur á móti honum á St. James Park í dag! Kannski er samt enska landsliðið lykilatriði í málinu. Michael Owen hefur alltaf verið mjög umhugað um feril sinn hjá landsliðinu. Hjá Newcastle er hann öruggur um að spila hvern einasta leik og vera þannig í sviðsljósinu fram að úrslitakeppni HM í Þýskalandi næsta sumar. Hjá Liverpool hefði hann ekki spilað alla leiki frekar en hjá Real Madrid. Ekki það að hann sé ekki nógu góður. Rafael Benítez breytir liði sínu einfaldlega reglulega eftir því sem honum finnst henta. Bæði Michael og þjálfari enska landsliðsins hafa að undanförnu talað um hversu miklu það skipti að Michael sé fastamaður í sínu félagsliði. Nú er hann orðinn fastamaður.
Því miður, segi ég persónulega, þá kom Michael ekki aftur í þetta skiptið. Um leið skorar Liverpool líklega tíu til fimmtán mörkum færra en það hefði annars gert á leiktíðinni. Málið er einfalt. Michael er markaskorari og fáir hans líkir eru á markaðnum. Í fyrra, þegar Michael fór til Madrídar, þá spáði ég því að hann myndi koma aftur til Liverpool. Það munaði litlu að sú spá rættist. Kannski á hún þó eftir að rætast. Sögusagnir herma að ákvæði í samningnum kveði á um að Michael geti yfirgefið Newcastle á einhverjum vissum tímapunktum fyrir ákveðna upphæð. Michael á því ef til vill eftir að söðla aftur um. Kannski kemur hann aftur til Liverpool áður en yfir lýkur? En næst þegar hann kemur til Liverpool þá verður hann ekki í rauðum búningi.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!