Mark spáir í spilin
Manni finnst eins og Liverpool hafi ekki leikið í marga mánuði. Það er líka all langt um liðið frá því Evrópumeistararnir spiluðu. Sá leikur gaf af sér annan Evróputitilinn á leiktíðinni. Fyrir þá sem ekki muna þá spilaði Liverpool síðast gegn CSKA frá Moskvu í Mónakó þann 26. ágúst! Það er því hálfur mánuður í dag frá því leikmenn Liverpool hömpuðu Stórbikar Evrópu eftir 3:1 sigur á CSKA Moskvu.
Það hefur töluvert vatn runnið til sjávar frá því Liverpool vann Stórbikarinn. Það kvöld leit flest út fyrir að Michael Owen væri á heimleið. Hann kom vissulega heim til Englands en hann vildi heldur ganga til liðs við Newcastle United. Allt frá því Djibril Cissé sneri Stórbikarleiknum Liverpool í hag hefur hann verið að kvarta yfir því að félagið hafi ekki sýnt honum næga hollustu. Nafn hans hefur því of mikið verið í fyrirsögnum dagblaða á Englandi. Fernando Morientes er nú frá vegna meiðsla og Milan Baros er kominn á launaskrá hjá Aston Villa. Það er því margt búið að vera í gangi þennan hálfa mánuð sem liðinn er frá því leikmenn Liverpool fögnuðu í Mónakó.
Það má segja að velgengni Liverpool í Evrópumótum þýði að liðið sé dálítið á eftir í deildinni. Liðið á nú þegar tvo frestaða leiki til góða. Heimaleikir gegn Charlton og Arsenal voru settir í salt vegna þess að Liverpool þurfti að leika í forkeppni Meistaradeildarinnar og svo í leiknum um Stórbikar Evrópu. Liverpool hefur því aðeins leikið tvo deildarleiki fram að þessu. Samt hófst leiktíðin hjá Liverpool um miðjan júlí!
Nú má segja að Liverpool sé á nokkurs konar byrjunarreit því það var einmitt á White Hart Lane sem Rafael Benítez stjórnaði Liverpool í sínum fyrsta deildarleik. Þeim leik lauk með 1:1 jafntefli. Þá skoraði Djibril Cissé í sínum fyrsta deildarleik. Vonandi fer hann nú að ráðum Ian Rush og lætur mörkin tala. Liverpool hefur aðeins skorað eitt mark í fyrstu tveimur deildarleikjunum. Vonandi bætist eitthvað við þá tölu á morgun. Líkt og Djibril fyrir ári þá er líklegt að Peter Crouch spili sinn fyrsta deildarleik sinn með Liverpool á White Hart Lane þar sem hann hóf feril sinn. Hér er komið að spá Mark Lawrenson.
Tottenham v Liverpool
Fleiri ótíðindi bárust úr herbúðum Liverpool þegar spurðist af meiðslum Fernando Morientes og því að Djibril Cissé ætti erfitt uppdráttar. Tottenham hefur góðan byr í seglin um þessar mundir. Það er mikið af mjög góðum leikmönnum í þeirra röðum en það á eftir að koma í ljós hvernig stöðugleiki liðsins verður. Leikur við Liverpool verður góður prófsteinn fyrir liðið því gestirnir munu leika aftarlega á vellinum og láta á það reyna hvort Tottenham getur brotið skörð í vörn þeirra.
Úrskurður: 1-1.
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur