Michael rataði ekki alveg heim
Michael Owen er kominn heim en þó ekki á réttan stað frá sjónarhóli stuðningsmanna Liverpool! Heilagur Mikjáll er vissulega kominn heim til Englands en á morgun mun hann, ef hann verður ekki meiddur, spila sinn fyrsta leik fyrir Skjórana á St James Park í Newcastle. Stuðningsmenn Liverpool höfðu vonast eftir því að hann kæmi til með að leika sinn fyrsta leik eftir heimkomuna í rauðum búningi á White Hart Lane á morgun. Svo verður þó því miður ekki! Hann hafði þetta að segja um heimkomu sína frá Madríd. Sem fyrr hagar Michael orðum sínum vel.
,,Ég held að Liverpool þurfi ekki á huggun að halda þó svo ég hafi gengið til liðs við Newcastle. Þeir eru Evrópumeistarar og þeim hefur gengið mjög vel undir stjórn nýs framkvæmdastjóra. Ég var lengi hjá Liverpool og ég á enn marga vini þar. Liverpool verður alltaf hluti af lífi mínu vegna þess hversu lengi ég lék þar.
Ég vil vinna titla og leika fyrir framan ákafa stuðningsmenn. Ég nýt þess að leika knattspyrnu. Newcasle er spennandi félag. Þegar Newcastle vinnur eitthvað þá verður það eins og þegar landsliðið vinnur Heimsmeistarakeppnina. Ég get ekki beðið eftir að það gerist.
Auðvitað hlaut annað hvort stuðningsmannahópur Liverpool eða Newcastle að verða fyrir vonbrigðum. Ég talaði við forráðamenn Liverpool en því miður varð ekkert af því að ég færi þangað. Svona er lífið. Stundum takst samningar og stundum ekki. Núna verð ég að horfa til framtíðar hjá Newcastle og reyna að standa mig vel í svörtu og hvítu peysunni. Svona er knattspyrnan og svona verður hún alltaf."
Michael Owen lék með Liverpool frá 1997 til 2004. Þau 158 mörk sem hann skoraði í 297 leikjum fyrir félagið segja sína sögu um hversu mikill markaskorari Michael er. Hann vann fimm titla hjá Liverpool. Hann vann F.A. bikarinn, Evrópukeppni félagsliða, Góðgerðarskjöldinn og Stórbikar Evrópu árið 2001. Árið 2003 bætti hann svo Deildarbikarnum í safnið. Michael bætti ekki í verðlaunasafnið hjá Real Madrid en 16 mörk bættust á markalistann. Þegar þetta er skrifað hefur hann skorað 32 mörk fyrir enska landsliðið í 72 leikjum. Allar þessar staðreyndir bera vott um hversu mikill afreksmaður Michael Owen er. Hann á örugglega eftir að skora mörg mörk fyrir Newcastle og ég spái því að hann hefji markaskorun fyrir félagið strax á morgun. Gott ef hann skorar ekki fleiri en eitt mark í sínum fyrsta leik. En ég er ekki viss um að hann eigi eftir að bæta mikið í verðlaunasafn sitt á meðan hann verður í herbúðum Skjóranna. Ef sú spá rætist þá gæti hún verið lykillinn að endanlegri heimkomu Michael Owen þótt síðar verði!
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur