| HI

Joaquin vill spila með Liverpool

Joaquin, hægri kantmaður Real Betis, sem sterklega var orðaður við Liverpool í sumar, segist gjarnan vilja spila með félaginu, en Liverpool sækir Real Betis heim í meistaradeildinni á þriðjudag.

„Ég veit að Liverpool er að leita að hægri kantmanni og ég myndi gjarnan vilja spila þar ef þeir vilja fá mig. Liverpool er stór klúbbur og Benitez veit hvað hann vill. En ef hann sækist eftir mér verður hann að semja við forseta Betis.“

Þrátt fyrir þetta er Joaquin staðráðinn í að senda Evrópumeistarana tómhenta heim frá Spáni, en reyndar er ekki öruggt að hann spili leikinn vegna meiðsla sem hann varð fyrir um helgina.

„Ég ætla að gera Riise erfitt fyrir á þriðjudaginn. Við munum valda Liverpool og Chelsea miklum vandræðum í G-riðli - ég er viss um að við munum sigra bæði þessi lið. Enskir knattspyrnuáhugamenn hafa ekki séð mikið af mér. En þeir munu sjá hluti sem fá kjálkana til að síga. Það sem ég mun njóta mest er að láta Liverpool finna fyrir því og senda þá heim sigraða.“

Joaquin meiddist á hné í leik gegn Osasuna í gær og fer hann í myndatöku á morgun til að fá úr því skorið hvort hann geti leikið gegn Liverpool. Tveir aðrir leikmenn Betis eru hins vegar örugglega úr leik. Vinstri bakvörðurinn Luiz Fernandes reif vöðva í fæti gegn Osasuna og brasilíski sóknarmaðurinn Edu mun heldur ekki leika með vegna hnémeiðsla.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan