Draumabyrjun í nýju búningunum
Evrópumeistaranir byrjuðu vel í nýju búningunum á Spáni og unnu góðan sigur 2:1 gegn Real Betis í kvöld. Liverpool er efst eftir fyrstu umferðina í riðlinum. Baráttan í þessum erfiða riðli er rétt að byrja en byrjunin gat ekkki verið betri. Rafael Benítez breytti liðinu mikið frá leiknum við Tottenham um helgina. Mesta athygli vakti að Steven Gerrard hóf leikinn á varamannabekknum. Eins kom mjög á óvart að Florent Sinama Pongolle var í byrjunarliðinu. Það mátti þó sjá á byrjunarliðinu að Liverpool var að leika á Spáni. Rafael stillti upp sex leikmönnum sem hafa leikið í spænsku deildarkeppninni.
Spænska uppstillingin gafst vel því Liverpool náði forystu strax á annarri mínútu. Jamie Carragher sendi langa sendingu fram. Varnarmenn Real voru úti á þekju og markvörðurinn kom langt út úr markinu. Florent Sinama Pongolle náði boltanum og lyfti honum snyrtilega í markið. Þögn sló á áhorfendaskrarann sem hafði haft mjög hátt í upphafi leiksins. Aðeins stuðningsmenn Liverpool fögnuðu. Enn batnaði staðan eftir fjórtán mínútur. Peter Crouch hélt þá boltanum vel fyrir utan vítateiginn áður en hann sendi góða sendingu á Boudewijn Zenden. Hollendingurinn lék upp að endamörkum og sendi góða sendingu fyrir markið sem Luis Garcia afgreiddi viðstöðulaust í mark. Liverpool lék frábærlega í fyrri hálfleik og varnarmenn heimamanna voru mjög óöruggir. Sérstaklega áttu þeir í vandræðum með Peter Crouch. Real fékk samt þrjú góð færi en Jose Reina var vel á verði í markinu.
Heimamenn komu, eins og vitað var, mjög ákvaðnir til leiks eftir leikhlé. Þeir náðu að minnka muninn á eftir sex mínútna leik þegar Arturo Arzu slapp í gegnum vörn Liverpool og skoraði af öryggi. Real Betis sótti án afláts lengst af hálfleiksins en náðu ekki að opna vörn Liverpool að neinu marki eftir þetta. Besta færið kom þegar einn leikmanna Real skaut í hliðarnetið. Djibril Cisse fékk eina færi Liverpool. Hann og Luis Garcia sluppu upp völlinn en misskilningur þeirra varð til þess að ekkert varð úr þegar komið var upp að vítateignum. Undir lokin náði Liverpool að draga tennurnar úr heimamönnum og góður sigur náðist.
Þegar upp var staðið þá er ekki annað hægt að segja en sigurinn væri sanngjarn. Liverpool lék mjög vel og allir leikmenn liðsins lögðu sig fram. Fyrirfram þá var þessi leikur talinn einn sá erfiðasti í riðlinum. Það er því gríðarlega góð byrjun að hafa náð sigri á útivelli gegn Real Betis. Það má því ljóst vera að Evrópubikarinn verður ekki látinn af hendi baráttulaust!
Real Betis: Doblas, Melli, Juanito (Xisco 45. mín.), Rivas, Oscar Lopez, Arzu (Capi 72. mín.), Fernando (Dani 35. mín.), Assuncao, Joaquin, Varela og Oliveira. Ónotaðir varamenn: Contreras, Miguel Angel, Nano og Castellini. .
Markið: Arturo Arzu (51. mín.)
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore, Luis Garcia, Sissoko, Alonso, Zenden (Riise 66. mín.), Sinama Pongolle (Gerrard 74. mín.) og Crouch (Cisse 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Finnan, Hamann og Warnock.
Mörkin: Florent Sinama Pongolle (2. mín.) og Luis Garcia (14. mín.).
Gul spjöld: Jamie Carragher og Jose Reina.
Áhorfendur á Manuel Ruiz de Lopera leikvanginum: 29.575.
Rafael Benítez var auðvitað ánægður með að fara með þrjú stig frá heimalandi sínu. ,,Ég held að við höfum unnið gott verk í kvöld og við gerðum vel í að vinna leikinn. Betis er með gott lið og við vissum að þetta yrði erfiður leikur. En við höfðum skýra hugmynd um hvað við vildum gera og við stóðum okkur vel. Sérstaklega í fyrri hálfleik. Við réðum gangi mála fyrir leikhlé og skoruðum tvö mörk. Við áttum í meiri vanda eftir leikhlé vegna þess að Betis skoraði svo snemma. Ég myndi segja að við hefðum ráðið lögum og lofum í fyrri hálfleik en þeir stjórnuðu gangi mála í þeim seinni. En í knattspyrnu verða menn að skora mörk til að vinna leiki og við náðum að skora einu meira en þeir."
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur