Í hnotskurn
Mögnuð byrjun Evrópumeistaranna í nýju Evrópumeistarabúningunum. Eitt sneggsta mark í Evrópusögu Liverpool leit dagsins ljós. Þetta er leikur Liverpool og Real Betis í hnotskurn.
- Eftir undankeppni sem hófst þann 13. júlí þegar Liverpool spilaði við T.N.S. á Anfield Road var loksins komið að fyrsta leik Evrópumeistaranna í riðlakeppni.
- Real Betis lék sinn fyrsta leik í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.
- Real Betis er frá Sevilla og er annað liða frá þeirri borg. Hitt liðið ber nafn borgarinnar. Real Betis vann spænsku bikarkeppnina á síðustu leiktíð.
- Á meðan leikmenn hituðu upp voru sýndir valdir kaflar úr úrslitaleiknum í Istanbúl á stórum skermi á leikvanginum. Stuðningsmenn Liverpool hafa örugglega kunnað vel að meta þau skemmtiatriði!
- Rafael Benítez tefldi fram sex leikmönnum í byrjunarliðinu sem höfðu áður leikið í spænsku deildinni. Þetta voru þeir Jose Reina, Josemi, Xabi Alonso, Luis Garcia, Boudewijn Zenden og Mohamed Sissoko.
- Þetta gafst vel því eftir aðeins 85 sekúndur lá boltinn í marki heimamanna eftir skot Florent Sinama Pongolle.
- Þetta er eitt af sneggstu mörkum í Evrópusögu Liverpool. Þetta mun vera þriðja markið sem Liverpool skorar á annarri mínútu. Tvívegis hafa leikmenn Liverpool skorað á fyrstu mínútu Evrópuleiks.
- Florent Sinama Pongolle var í fyrsta skipti í byrjunarliði Liverpool á þessu ári og um leið þá skoraði hann fyrsta mark sitt á árinu.
- Markið hafi þau áhrif að stuðningsmenn heimamanna sigu niður í sæti sín og höfðu hægt um sig allan fyrri hálfleikinn. Þeir voru búnir að vera í miklum vígamóð fyrir leikinn og þar til Frakkinn skoraði.
- Þögnin sem varð á meðal stuðningsmanna Real Betis var merki um að Liverpool hefði náð yfirhöndinni innan vallar sem utan. Þeir Bill Shankly, Bob Paisley og Joe Fagan hefðu verið hrifnir af þessari byrjun. Þeir lögðu alltaf mikla áherslu á að þagga fljótt niður í stuðningsmönnum andstæðinganna í útileikjum í Evrópuleikjum
- Luis Garcia skoraði sitt fimmtánda mark fyrir Liverpool. Sjö af mörkunum hafa verið skoruð í Evrópuleikjum.
- Djimi Traore var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool frá því í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í Istanbúl í vor.
Real Betis: Doblas, Melli, Juanito (Xisco 45. mín.), Rivas, Oscar Lopez, Arzu (Capi 72. mín.), Fernando (Dani 35. mín.), Assuncao, Joaquin, Varela og Oliveira. Ónotaðir varamenn: Contreras, Miguel Angel, Nano og Castellini. .
Markið: Arturo Arzu (51. mín.)
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore, Garcia, Sissoko, Alonso, Zenden (Riise 66. mín.), Pongolle (Gerrard 74. mín.) og Crouch (Cisse 58. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Finnan, Hamann og Warnock.
Mörkin: Florent Sinama Pongolle (2. mín.) og Luis Garcia (14. mín.).
Gul spjöld: Jamie Carragher og Jose Reina.
Áhorfendur á Manuel Ruiz de Lopera leikvanginum: 29.575.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Fyrirliðinn Jamie Carragher stóð vaktina vel í hjarta varnarinnar. Hann gaf aldrei tommu eftir og braut margar sóknir heimamanna á bak aftur. Að auki átti hann stoðsendinguna sem gaf fyrsta mark leiksins af sér.
Jákvætt :-) Það var frábært að byrja keppnina í riðlinum með því að vinna útisigur á Real Betis. Liðið tapar ekki mjög oft á heimavelli. Það var gott að fá Florent Sinama Pongolle á markalistann. Leikaðferð Rafael Benítez var frábærlega útfærð og gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik. Enn skorar Luis Garcia mikilvægt Evrópumark. Jose Reina var frábær í markinu. Hann hefur ekki haft meira að gera í leik með Liverpool og sýndi hvað í honum býr. Vörn Liverpool var lengst af sterk. Enn spilaði Mohamed Sissoko vel á miðjunni. Peter Crouch lék mjög vel í fyrri hálfleik og varnarmönnum Real Betis gekk illa að fást við hann. Liverpool hrakti, með sigrinum, tapspár margara sparkspekinga.
Neikvætt :-( Leikmenn Liverpool bökkuðu óþarflega mikið eftir leikhlé. Það bauð heimamönnum uppá óþarflega góð sóknarfæri.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool náði forystu strax á annarri mínútu. Jamie Carragher sendi langa sendingu fram. Varnarmenn Real voru úti á þekju og markvörðurinn kom langt út úr markinu. Florent Sinama Pongolle náði boltanum og lyfti honum snyrtilega í autt markið. Þögn sló á áhorfendaskrarann sem hafði haft mjög hátt í upphafi leiksins. Aðeins stuðningsmenn Liverpool fögnuðu. Enn batnaði staðan eftir fjórtán mínútur. Peter Crouch hélt þá boltanum vel fyrir utan vítateiginn áður en hann sendi góða sendingu á Boudewijn Zenden. Hollendingurinn lék upp að endamörkum og sendi góða sendingu fyrir markið sem Luis Garcia afgreiddi viðstöðulaust í mark. Liverpool lék frábærlega í fyrri hálfleik og varnarmenn heimamanna voru mjög óöruggir. Sérstaklega áttu þeir í vandræðum með Peter Crouch. Real fékk samt þrjú góð færi en Jose Reina var vel á verði í markinu. Heimamenn komu mjög ákvaðnir til leiks eftir leikhlé. Þeir náðu að minnka muninn á eftir sex mínútna leik þegar Arturo Arzu slapp í gegnum vörn Liverpool og skoraði af öryggi. Real Betis sótti án afláts lengst af hálfleiksins en náðu ekki að opna vörn Liverpool að neinu marki eftir þetta. Besta færið kom þegar einn leikmanna Real skaut í hliðarnetið. Djibril Cisse fékk eina færi Liverpool. Hann og Luis Garcia sluppu upp völlinn en misskilningur þeirra varð til þess að ekkert varð úr þegar komið var upp að vítateignum. Undir lokin náði Liverpool að draga tennurnar úr heimamönnum og góður sigur náðist.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!