Stál í stál
Það mættust stálin stinn á Anfield Road á hádegi að staðartíma í Liverpool. Risarnir gengu af hólmi án þess að mark væri skorað í fyrsta skipti frá árinu 1991. Varnir beggja liða voru gríðarlega sterkar. Evrópumeistararnir voru nær sigri en ekkert af þeim fáu færum sem sköpuðust varð að marki.
Það var ekkert gefið eftir frá fyrstu mínútu. Leikmenn Liverpool voru heldur sókndjarfari og varnarmenn gestanna voru oft í vandræðum með Peter Crouch. Fyrsta hættulega færi leiksins kom þegar Steven Gerrard sendi aukaspyrnu fyrir markið. Boltinn fór yfir alla og rétt framhjá markinu. Ruud van Nistelrooy komst svo í gott færi stuttu fyrir hálfleik. Hann lyfti boltanum yfir Jose Reina sem kom út á móti honum en boltinn fór líka yfir markið. Fleiri færi sem eitthvað kvað að sköpuðust ekki.
Leikmenn Liverpool færðu sig upp á skaftið eftir því sem leið á síðari hálfleikinn. Gestirnir lögðu nú mesta áherslu á að verjast en leikmenn Liverpool komust í fá færi. Steven Gerrard átti tvö bestu færin. Fyrst skallaði hann rétt yfir og svo varði Edwin Van der Saar fast langskot hans. Leikmenn Liverpool voru mjög ákvaðnir á lokakafla leiksins. Luis Garcia skaut rétt framhjá og svo skallaði Spánverjinn yfir úr all góðu færi. Gestirnir vörðu mark sitt með kjafti og klóm og niðurstaða rimmunnar varð markalaust jafntefli. Í heild verður að telja það sanngjarna niðurstöðu þrátt fyrir að Evrópumeistararnir hafi verið nær sigri.
En þó lið tapi ekki með því að fá ekki á sig mark þá vinnast leikir ekki nema leikmenn skori mörk. Liverpool er enn taplaust eftir fjóra deildarleiki og enn hefur Jose Reina ekki fengið á sig mark. En gallinn er sá að Liverpool hefur aðeins skorað eitt deildarmark og sóknarmenn liðsins hafa ekki komist á blað. Þessar staðreyndir bæði gleðja og vekja áhyggjur í senn.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock (Traore 84. mín.), Garcia, Gerrard, Alonso, Riise, Crouch (Cisse 79. mín.) og Pongolle (Sissoko 71. mín.). Ónotaðir varamenn Carson og Josemi.
Gul Spjöld: Jamie Carragher og Djimi Traore.
Man Utd: Van der Sar, O´Shea, Ferdinand, Silvestre, Richardson, Smith, Scholes, Keane (Giggs 88. mín.), Ronaldo (Park 90. mín.), Rooney (Fletcher 88. mín.) og van Nistelrooy. Ónotaðir varamenn: Howard og Bardsley.
Gul spjöld: Paul Scholes og Roy Keane.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.917.
Rafael Benítez vildi horfa til þess jákvæða í leik Liverpool. ,,Þetta er gott stig. Manchester United er með sterkt lið og góða vörn. Þess vegna var leikurinn erfiður. Ég held að liðin séu áþekk að styrkleika. Þó skapast alltaf tækifæri til að að vinna svona leiki. En ef lið skorar ekki þá vinnur það ekki leiki. Það er samt betra að halda hreinu. Við getum bætt okkur en við erum farnir að stjórna leikjum og sækja."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!