Í hnotskurn
Þá komu mörkin í röðum. En þau voru misjafnlega vel þegin. Nýtt félagsmet leit dagsins ljós. Þetta er leikur Liverpool og Birmingham City í hnotskurn.
- Fyrir þennan leik hafði Birmingham City tapað öllum deildarleikjum sínum á St Andrews. Því miður bættist fjórði tapleikurinn ekki við.
- Luis Garcia skoraði fyrsta deildarmark Liverpool frá því landi hans Xabi Alonso skoraði sigurmarkið 1:0 gegn Sunderland þann 20. ágúst.
- Það munu 314 mínútur, ef ég hef reiknað rétt, hafa liðið á milli marka þeirra samlanda.
- Djibril Cissé skoraði sitt sjöunda mark á leiktíðinni. Hann er nú búinn að skora jafn mörg mörk og Steven Gerrard.
- Af þremur deildarmörkum Liverpool hafa tvö verið skoruð úr svokölluðum föstum leikatriðum. Xabi skoraði beint úr aukaspyrnu gegn Sunderland og Djibril skoraði úr vítaspyrnu í þessum leik.
- Neil Kilkenny mun örugglega seint gleyma sínum fyrsta leik með Birmingham. Hann var rekinn út af.
- Neil er þriðji leikmaðurinn sem er rekinn út af gegn Liverpool í deildarleik á leiktíðinni. Bæði Middlesbrough og Sunderland hafa lokið leikjum sínum gegn Liverpool manni færri.
- Liverpool setti félagsmet með því að halda markinu hreinu í fyrstu fjórum deildarleikjum leiktíðarinnar. Reyndar gerði Jose Reina gott betur því hann bætti 68 mínútum við fyrstu fjóra leikina. Þar með var Spánverjinn, hafi ég reiknað rétt, búinn að halda markinu hreinu í 432 mínútur. Það munu vera rúmar sjö klukkustundir. Jose er það með kominn á spjöld sögunar hjá Liverpool.
- Jose fékk ekki á sig mark fyrstu 432 mínúturnar á leiktíðinni. Að auki bættust við 23 mínútur úr síðasta deildarleiknum á síðustu leiktíð. Gareth Barry skoraði þá fyrir Aston Villa þegar Liverpool vann 2:1. Scott Carson stóð í marki Liverpool í þeim leik. Það liðu 455 mínútur milli þess að Liverpool fékk á sig mark í deildinni. Útreikningar eru með fyrirvara!
- Það var leiðinlegt að fyrsta markið sem Jose Reina fékk á sig skyldi vera frá einum samverkamanni hans. Steven Warnock var sá sem í hlut átti.
- Festum þykir Peter Crouch vera nógu hávaxinn. En Steven Gerrard grínaðist með það eftir leikinn að hann væri ekki nógu stór og átti þá við að Peter hefði þurft að vera aðeins hærri til að ná að skalla í mark undir lokin!
- John Arne Riise lék síðustu ellefu mínútur leiksins. Hann átti 25 ára afmæli í gær.
- Emile Heskey lék í þriðja sinn gegn sínum gömlu félögum. Hann hefur enn ekki verið í tapliði.
- Steve Finnan fékk þó ekki að leika gegn sínu gamla liði. Hann hóf ferilinn með Birmingham en sat á bekknum allan leikinn.
- Þeir Steven Gerrard og Luis Garcia voru í liði vikunnar á vefsíðu BBC.
- Þrátt fyrir tapleysið þá gengur hægt að vinna útileiki. Að minnsta kosti í deildinni. Liverpool hefur nú aðeins unnið einn útisigur í níu síðustu deildarleikjum.
- Frá því Liverpool lagði Birmingham City að velli í úrslitaleik Deildarbikarsins 2001 hefur liðið aðeins unnið tvo af sjö deildarleikjum sínum við þá Bláu. Reyndar hefur Liverpool unnið einn leik gegn Birmingham í F.A. bikarnum frá því liðið vann Deildarbikarinn 2001.
- Liverpool er enn ósigrað í deildinni. Liðið er samt í neðri hluta deildarinnar.
Birmingham: Maik Taylor, Melchiot, Cunningham, Upson, Clapham, Pennant, Johnson, Kilkenny, Gray, Forssell (Pandiani 73. mín.), Heskey (Tebily 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Vaesen, Martin Taylor og Lazaridis.
Mörkin: Stephen Warnock, sm. (72. mín.) og Walter Pandiani (75. mín.).
Rautt spjald: Neil Kilkenny (84. mín.).
Gul spjöld: Jamie Clapham og Kenny Cunningham.
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Warnock, Sinama Pongolle (Garcia 60. mín.), Alonso, Hamann (Riise 79. mín.), Gerrard, Zenden (Cisse 68. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Carson og Finnan.
Mörkin: Luis Garcia (68. mín.) og Djibril Cisse, víti (85. mín.)
Gul spjöld: Florent Sinama Pongolle, Luis Garcia og Stephen Warnock.
Áhorfendur á St Andrews: 27.733.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard var bestur í liðinu sínu. Hann átti nokkrar frábærar rispur og var óheppinn að skora ekki. Fyrst skaut hann í stöng í fyrri hálfleik og svo var hann tvívegis nærri búinn að skora eftir leikhlé. Annað þeirra færa hefði, ef orðið hefði að marki, orðið eitt fallegasta mark hans á ferlinum. Hann braust þá í gegn um vörnina og skildi varnarmenn heimamanna hvern á fætur öðrum eftir. Steven lagði svo upp markið sem Luis Garcia skoraði.
Jákvætt :-) Liverpool hefur enn ekki tapað leik í deildinni. Liverpool setti félagsmet með því að spila rúmlega fjóra deildarleiki í upphafi leiktíðar án þess að fá á sig mark. Leikmenn Liverpool gáfust ekki upp þrátt fyrir að lenda marki undir. Liðið lék mjög vel á lokakaflanum og hefði átt að tryggja sér sigur. Þeir Luis Garcia og Djibril Cissé skoruðu báðir eftir að hafa komið inn sem varamenn. Það er alltaf gott þegar varamenn koma sterkir til leiks. Vörnin var góð fyrir utan atvikin sem gáfu heimmönnum mörkin.
Neikvætt :-( Leikmenn Liverpool gerðu enn jafntefli. Þau eru dýrkeypt því í hverju jafntefli tapast tvö stig. Þar kom að því að Jose Reina fékk á sig mark. Reyndar fékk hann á sig tvö og það sem verst var að þau voru bæði mjög ódýr. Það er ekki fyrir minn smekk að spila með einn sóknarmann. Sérstaklega ekki gegn liðum sem Liverpool á að vinna með ákveðnum sóknarleik. Liverpool átti einfaldlega að vinna þennan leik. Fjögur jafntefli í fyrstu fimm leikjunum er of mikið af slíku. Það þarf að breyta jafnteflunum í sigra.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Um miðjan hálfleikinn varði Jose Reina þó vel frá Emile Heskey sem komst einn gegn honum. Liverpool svaraði með glæsiskoti fyrirliðans sem hafnaði í stönginni. Boudewijn Zenden átti svo skot rétt framhjá. Liverpool var sterkari aðilinn í hálfleiknum en sóknarleikurinn gekk ekki of vel fyrir sig og Peter Crouch fékk úr litlu að moða einn frammi. Það færðist mikið fjör í leikinn eftir leikhlé. Heimamenn léku betur en í fyrri hálfleik en sem fyrr var Liverpool sterkari aðilinn. Steven Gerrard skaut yfir eftir frábæra rispu og svo varði Norður írski landsliðsmarkvörðurinn Maik Taylor skot frá Stephen Warnock eftir góða rispu bakvarðarins. Rafael skipti Luis Garcia inn eftir klukkustundar leik. Spánverjinn launaði fyrir sig með marki átta mínútum síðar. Hann skoraði þá örugglega úr teignum eftir góða sendingu frá Steven Gerrard. Þessu langþráða deildarmarki fagnað innilega innan vallar sem utan. Miðað við gang leiksins hefði mátt álíta að Liverpool hefði nú leikinn í sínum höndum því heimamenn höfðu varla ógnað marki Liverpool. En tvö slæm varnarmistök á þremur mínútum sneri leiknum við. Fyrst varð Stephen Warnock fyrir því óláni að skora sjálfsmark með því að reka höfuðið í boltann eftir fyrirgjöf frá Julian Gray á 72. mínútu. Þremur mínútum seinna varði Jose Reina skalla en missti boltann frá sér. Varamaðurinn Water Pandiani náði frákastinu og kom boltanum í markið af stuttu færi. Reyndar var Steven Gerrard nærri búinn að skora áður en heimamenn komust yfir. En eftir að Birmingham skoraði hóf Liverpool linnulausa sókn að marki Birmingham. Eitthvað hlaut undan að láta. Á 84. mínútu átti Jamie Carragher skalla sem fór í þverslána niður. Þaðan fór boltinn í fótinn á markverði Birmingham og stefndi í kjölfarið í markið. Neil Kilkenny sló þá boltann frá á marklínunni og var rekinn út af fyrir bragðið. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna sem dæmd var og skoraði af öryggi sitt sjöunda mark á leiktíðinni. Heimamenn voru svo í nauðvörn þar til dómarinn flautaði af. Peter Crouch hefði getað tryggt verðskuldaðan sigur. Fyrst skallaði hann yfir og svo var skalla hans bjargað á marklínu.
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur