Í hnotskurn
Fyrsta deildartapið og það munaði aldeilis um það. Versta tap Liverpool á Anfield Road frá því í desember 1969. Þetta er leikur Liverpool og Chelsea í hnotskurn.
- Fyrir leikinn voru þessi lið þau einu sem ekki höfðu tapað deildarleik á leiktíðinni.
- Þetta var fyrsta deildartap Liverpool á leiktíðinni.
- Fyrir þennan leik hafði Liverpool ekki fengið á sig mark á heimavelli í deildinni á leiktíðinni.
- Chelsea vann þarna deildarsigur á Anfield Road þriðju leiktíðina í röð. Það hefur liðið aldrei áður afrekað í sögunni.
- Fyrir þessa þrjá sigra hafði Chelsea aðeins unnið fimm deildarsigra á Anfield Road.
- Þetta var aðeins sjötta tap Liverpool á heimavelli fyrir Lundúnaliði í 69 leikjum. Chelsea ber ábyrgð á helmingnum.
- Boudewijn Zenden lék um tíma með Chelsea. Hann fékk ekki tækifæri á að leika gegn sínu gamla liði. Reyndar var hann ekki einu sinni á varamannabekknum.
- Djibril Cissé lék sinn fertugasta leik með Liverpool. Hann hefur skorað tólf mörk í þeim leikjum.
- Steven Gerrard skoraði sitt fyrsta deildarmark á leiktíðinni. Þetta var áttunda markið hans en sjö þau fyrstu komu í Evrópukeppninni.
- Steven Gerrard var í liði helgarinnar á vefsíðu BBC.
- Chelsea vann enska meistaratitilinn á síðustu leiktíð með 95 stigum. Það er stigamet. Þegar liðið vann fyrri meistaratitil sinn leiktíðina 1954/55 fékk liðið 52 stig. Það er líka met. Aldrei hefur enski meistaratitillinn unnist á færri stigum.
- Liverpool hefur tryggt tvo af átján meistaratitlum sínum gegn Chelsea. Það gerðist leiktíðirnar 1965/66 og 1985/86.
- Þetta var versta tap Liverpool á Anfield Road frá því í desember 1969. Liverpool tapaði þá 1:4 fyrir Manchester United. Ekki var það betra!
- Þrátt fyrir hroðalega stöðu þá sungu stuðningsmenn Liverpool You´ll Never Walk Alone þegar leið að leikslokum. Stuðningsmenn hvaða annars liðs hefðu sýnt sínu liði svoleiðis stuðnings í sömu stöðu?
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia (Pongolle 71. mín.), Traore (Cisse 81. mín.), Hamann (Sissoko 68. mín.), Garcia, Gerrard, Alonso, Riise og Crouch. Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.
Markið: Steven Gerrard (36. mín.).
Gult spjald: Jamie Carragher.
Chelsea: Cech, Carvalho, Terry, Gallas, Del Horno (Huth 83. mín.), Makelele, Joe Cole (Robben 67. mín.), Lampard, Essien, Duff (Geremi 76. mín.) og Drogba. Ónotaðir varamenn: Cudicini og Crespo.
Mörkin: Frank Lampard, víti, (27. mín.), Damien Duff (43. mín.), Joe Cole (63. mín.) og Geremi (82. mín).
Gul spjöld: Joe Cole, Frank Lampard og Didier Drogba.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.235.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Steven Gerrard. Hann barðist mjög vel og gerði sitt besta. Steven jafnaði leikinn með frábæru marki sem var áttunda mark hans á leiktíðinni. Hann verður ekki sakaður um hvernig fór.
Jákvætt :-) Það undarlega var að Liverpool lék lengi vel ekki sem verst. Liðið sýndi dug eftir að hafa lent undir og jafnaði metin. Stuðningsmenn Liverpool sýndu að þeir eru engum líkir. Hópur þeirra saung You´ll Never Walk Alone skömmu fyrir leikslok þegar staðan var vægast sagt slæm. Þetta hefðu fáir ef nokkrir aðrir gert.
Neikvætt :-( Það er gersamlega óþolandi að tapa á heimavelli. Hvað þá 1:4. Af hverju var Sami Hyypia látinn leika fyrst hann var búinn að vera veikur? Hver ber ábyrgð á því? Af hverju var Djibril Cissé ekki settur fyrr inn á völlinn. Hann er næst markahæsti maður liðsins og Liverpool var 3:1 undir á heimavelli. Samt liðu næstum tuttugu mínútur, eftir þriðja mark Chelsea, áður en Frakkinn kom loksins til leiks þegar níu mínútu voru eftir.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Leikmenn voru varkárir lengi framan af leik. Ef eitthvað var þá var Liverpool sterkari aðilinn en marktækifæri voru vart til að tala um. En á 27. mínútu náði Chelsea forystunni upp úr þurru. Djimi Traore missti þá Didier Drogba inn fyrir sig og braut svo klaufalega á honum inni í teig. Frank Lampard skoraði úr vítaspyrnunni en Jose Reina var mjög nærri því að verja spyrnuna. Liverpool gaf ekkert eftir og níu mínútum seinna náði Steven Gerrard að jafna metin. John Arne Rise tók hornspyrnu. Jamie Carragher skallaði boltann lengra fyrir þar sem Steven tók hann viðstöðulaust og hamraði hann í markið. Þá leit allt vel út og jafnvel var útlit á að Liverpool næði yfirhöndinni. En slæm mistök tveimur mínútum fyrir leikhlé settu strik í þann reikning. Didier Drogba lék þá á Sami Hyypia og kom boltanum á Damien Duff sem skoraði úr þröngri stöðu. Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti en sem fyrr gekk lítið að opna vörn gestanna. Róðurinn varð verulega þungur þegar gestirnir komust í 1:3 á 63. mínútu. Enn var Didier Drogba til vandræða. Hann komst upp að markinu og kom boltanum fyrir markið þar sem Joe Cole skoraði af öryggi fyrir opnu marki. Þeir John Arne Riise og Peter Crouch komust næst því að skora en góð skot þeirra fóru rétt yfir. Á 82. mínútu var leikurinn endanlega tapaður þegar enn ein skyndisóknin endaði með því að Geremi skoraði óvaldaður á fjærstöng.
-
| Sf. Gutt
Vopnahlésdagurinn -
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu