Sigur hafðist
Það hafðist að landa sigri gegn Blackburn Rovers á Anfield Road í dag. Sigurinn var í minnsta lagi en kærkominn var hann. Liverpool hafði yfirburði í leiknum en sem fyrr gekk illa að koma boltanum í markið. Frakkinn Djibril Cissé skoraði eina mark leiksins. Eins og venjulega gerði Rafael Benítez nokkrar breytingar frá liði sínu frá síðasta leik. Mesta athygli vakti líklega að Sami Hyypia sat uppi í stúku.
Gestirnir voru grimmari í byrjun leiksins og leikmenn Liverpool virtust óöruggir. Liverpool náði þó smá saman betri tökum á leiknum. Yfirburðir Evrópumeistaranna urðu svo algerir þegar Georgíumaðurinn Zura Khizanishvili var rekinn af leikvelli á 33. mínútu fyrir að fella Djibril Cissé sem var við að sleppa einn í gegn. Dómarinn ráðfærði sig tvívegis við línuvörðinn áður en hann tók þessa ákvörðun. Gestunum fannst að Zura hefði ekki átt að vera rekinn út af. Aukaspyrnan sem fylgdi brotinu var tekin af Boudewijn Zenden og hann skaut í þverslá úr henni. Liverpool hóf nú linnulitla sókn að marki Blackburn en sem fyrr gekk illa að binda endahnút á þær. Besta færið fékk Djibril Cissé en hann skallaði framhjá óvaldaður úr dauðafæri. Ekkert mark var skorað fyrir leikhlé. Mark Hughes framkvæmdastjóri Blackburn beið eftir dómaranum þegar leikhlé var að hefjast til að láta hann heyra það vegna brottrekstursins.
Sókn Liverpool var þung í síðari hálfleik en mark hvað þá mörk létu bíða eftir sér. Leikmenn gestanna börðust eins og ljón og ætluðu að selja sig dýrt. Liverpool átti fá vítaspyrnu þegar brotið var á Stephen Warnock en ekkert vær dæmt. Brad varði næst vel skalla frá Djibril sem var duglegur að koma sér í færi. Litlu síðar fékk hann dauðafæri við vítateigslínu eftir að Luis Garcia sendi á hann en Djibril skaut misheppnuðu skoti sem fór framhjá. En Djibril náði loksins að brjóta ísinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Liverpool fékk þá aukaspyrnu um 30 metra frá marki. Xabi Alonso sendi boltann stutt á Djibril sem þrumaði honum í markið. Markinu var vel fagnað á Anfield Road og Djibril var sýnilega mjög létt yfir því að hafa skoraði. Hann endaði langt fagnaðarhlaup sitt á að hlaupa til Rafael Benítez til að taka í hönd hans. Á lokakafla leiksins fékk Fernando Morientes, sem leysti Peter Crouch af, þrjú gullin færi til að gera sigurinn stærri. Síðasta færið var allra best en þá fékk hann boltann í dauðafæri eftir að Brad hafi ekki náð að halda bylmingsskoti John Arne Riise. En Fernando skaut framhjá á óskiljanlegan hátt. Það var alveg ótrúlegt að Fernando skyldi ekki ná að skora að minnsta kosti eitt mark. Spánverjanum til vorkunnar verður að segja að hann er ekki í neinni leikæfingu eftir meiðslin sem hann varð fyrir í byrjun september. En færin voru það góð að hann átti að skora. Gestirnir ógnuðu marki Evrópumeistaranna ekkert að ráði og dýrmætur sigur náðist.
Það gleðilegasta við leikinn var að Liverpool náði sigri. Liðið hafði algera yfirburði í leiknum og sigurinn átt að vera mun stærri. En sem fyrr gekk illa að binda endahnútinn á sóknirnar. Það verður þó að teljast jákvætt að sóknarmenn Liverpool fengu fleiri færi að moða úr en í síðustu leikjum. En eftir tapið gegn Englandsmeisturunum á dögunum skipti öllu að vinna sigur.
Liverpool: Reina, Josemi (Garcia 60. mín.), Carragher, Traore, Warnock (Riise 74. mín.), Finnan, Sissoko, Alonso, Zenden, Crouch (Morientes 66. mín.) og Cissé. Ónotaðir varamenn: Carson og Hamann.
Markið: Djibril Cissé (75. mín.)
Blackburn Rovers: Friedel, Neill, Khizanishvili, Nelsen, Gray, Bentley, Tugay (Mokoena 67. mín.), Savage, Pedersen (Emerton 67. mín.), Dickov (Todd 35. mín.) og Kuqi. Ónotaðir varamenn: Enckelman, Reid.
Rautt spjald: Zura Khizanishvili (33. mín.).
Gul spjöld: David Bentley, Lucas Neill og Robbie Savage.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.697.
Rafael Benítez var ánægður með að Djibil skyldi skora en fannst sigurinn skipta meira máli en allt annað. "Það er alltaf mikilvægt fyrir sóknarmenn að skora og Djibril stóð sig vel fyrir okkur. Hann lagði hart að sér, skoraði mark og lagði líka upp færi. Við vissum að við myndum eiga í höggi við erfitt lið og það yrði ekki auðvelt að brjóta það á bak aftur. Þeir voru með 10 menn í síðari hálfleiknum og gerðu okkur erfitt fyrir. En við reyndum að spila knattspyrnu og láta boltann ganga. Við hefðum getað unnið með meira en einu marki. Fernando hefði getað skorað tvö mörk en mestu máli skipti að vinna leikinn."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!