Í hnotskurn
Annar deildarsigurinn í höfn. Mörkin létu á sér standa en sigurinn var fyrir öllu. Þetta er leikur Liverpool og Blackburn Rovers í hnotskurn.
- Annar deildarsigur leiktíðarinnar leit dagsins ljós.
- Liverpool vann síðast deildarleik þann 20 ágúst þegar liðið lagði Sunderland að velli 1:0 á Anfield Road.
- Báðir leikir þessara liða á síðasta tímabili enduðu með jafntefli. Fyrri leikurinn, sem fram fór á Ewood Park, endaði 2:2. Seinni leiknum á Anfield Road lauk með markalausu jafntefli.
- Liverpool hefur vegnað vel gegn Blackburn undanfarin ár. Blackburn hefur ekki lagt Liverpool að velli frá því haustið 1996. Það gera nú fjórtán leiki án taps!
- Jose Reina hélt marki sínu enn einu sinni hreinu. Það þurfti ef til vill ekki að koma á óvart í þessum leik. Liverpool hefur sjö sinnum haldið hreinu í síðustu níu deildarleikjum gegn Blackburn á Anfield Road.
- Í þeim sjö deildarleikjum sem búnir eru á þessari leiktíð þá hafa andstæðingar Liverpool fjórum sinnum endað leikinn manni færri.
- Georgíumaðurinn Zura Khizanishvili varð fjórði leikmaðurinn sem er rekinn út af í deildarleik gegn Liverpool á leiktíðinni.
- Þetta var sextándi leikur Liverpool á leiktíðinni. Aðeins einn leikmaður hefur leikið í þeim öllum. Það er Djibril Cissé.
- Jamie Carragher leiddi Liverpool til leiks sem fyrirliði í fjarveru Steven Gerrard sem er meiddur.
- Fernando Morientes kom inn sem varamaður. Þetta var fyrsti leikur hans frá því hann vann sinn fyrsta verðlaunapening á ferli sínum með Liverpool í Stórbikarsigrinum á CSKA Moskva. Hann er búinn að vera meiddur frá því í byrjun september.
- Peter Crouch tókst ekki að skora. Hann hefur enn ekki skorað í þeim níu leikjum sem hann er búinn að spila með Liverpool. Það er langt um liðið frá því sóknarmanni Liverpool hefur ekki tekist að skora í níu leikjum í röð.
- Djibril Cissé skoraði sitt áttunda mark á leiktíðinni.
- Hann fagnaði markinu innilega fyrir framan stuðningsmenn Blackburn Rovers. Þeir höfðu gert honum gramt í geði með því að minna Frakkann á fótbrotið sem hann varð fyrir á Ewood Park á síðustu leiktíð.
- Djibril endaði svo fagnaðarhlaup sitt með því að hlaupa til framkvæmdastjóra síns og taka í hönd hans. Það mæltist vel fyrir hjá stuðningsmönnum Liverpool.
Liverpool: Reina, Josemi (Garcia 60. mín.), Carragher, Traore, Warnock (Riise 74. mín.), Finnan, Sissoko, Alonso, Zenden, Crouch (Morientes 66. mín.) og Cissé. Ónotaðir varamenn: Carson og Hamann.
Markið: Djibril Cissé (75. mín.)
Blackburn Rovers: Friedel, Neill, Khizanishvili, Nelsen, Gray, Bentley, Tugay (Mokoena 67. mín.), Savage, Pedersen (Emerton 67. mín.), Dickov (Todd 35. mín.) og Kuqi. Ónotaðir varamenn: Enckelman og Reid.
Rautt spjald: Zura Khizanishvili (33. mín.).
Gul spjöld: David Bentley, Lucas Neill og Robbie Savage.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.697.
Maður leiksins samkvæmt Liverpool.is: Djibril Cissé. Frakkinn misnotaði nokkur upplögð marktækifæri sem hann hefði getað átt að nýta betur. En hann gafst ekki upp og hélt áfram að reyna. Hann uppskar svo með því að skora fallegt mark sem reyndist sigurmark leiksins.
Jákvætt :-) Loksins náðist að vinna deildarleik og það var mál til komið. Djibril Cissé skoraði fallegt mark. Leikmönnum Liverpool tókst að skapa sér fleiri marktækifæri en í síðustu leikjum. Jose Reina hélt enn einu sinni hreinu. Xabi Alonso lék mjög vel á miðjunni og það sama má segja um Mohamed Sissoko. Stephen Warnock sýnir enn hversu stöðugur leikmaður hann er orðinn. Það var gott að sjá Fernando Morientes koma til leiks á nýjan leik. Djibril þaggaði niður í stuðningsmönnum Blackburn Rovers með marki sínu!
Neikvætt :-( Of mörg dauðafæri fóru forgörðum. Það hefði getað reynst dýrkeypt að fara svona illa með færin. Fernadno Morientes fór illa með þrjú dauðafæri. Það verður þó að virða honum það til vorkunnar að hann er ekki í neinni leikæfingu eftir að hafa verið frá leik síðustu vikurnar. Peter Crouch tókst ekki að skora. Innræti stuðningsmanna Blackburn er illskiljanlegt. Þeir stríddu Djibril Cissé á hinu hroðalega fótbroti sem hann varð fyrir gegn Blackburn á Ewood Park á síðustu leiktíð.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Gestirnir voru grimmari í byrjun leiksins og leikmenn Liverpool virtust óöruggir. Liverpool náði þó smá saman betri tökum á leiknum. Yfirburðir Evrópumeistaranna urðu svo algerir þegar Georgíumaðurinn Zura Khizanishvili var rekinn af leikvelli á 33. mínútu fyrir að fella Djibril Cissé sem var við að sleppa einn í gegn. Aukaspyrnan sem fylgdi brotinu var tekin af Boudewijn Zenden og hann skaut í þverslá úr henni. Liverpool hóf nú linnulitla sókn að marki Blackburn en sem fyrr gekk illa að binda endahnút á þær. Besta færið fékk Djibril Cissé en hann skallaði framhjá óvaldaður úr dauðafæri. Ekkert mark var skorað fyrir leikhlé. Sókn Liverpool var þung í síðari hálfleik en mark hvað þá mörk létu bíða eftir sér. Leikmenn gestanna börðust eins og ljón. Liverpool átti fá vítaspyrnu þegar brotið var á Stephen Warnock en ekkert vær dæmt. Brad varði næst vel skalla frá Djibril. Litlu síðar fékk Frakkinn dauðafæri við vítateigslínu eftir að Luis Garcia sendi á hann en hann skaut misheppnuðu skoti sem fór framhjá. En Djibril náði loksins að brjóta ísinn þegar stundarfjórðungur var til leiksloka. Liverpool fékk þá aukaspyrnu um 30 metra frá marki. Xabi Alonso sendi boltann stutt á Djibril sem þrumaði honum í markið. Markinu var vel fagnað á Anfield Road og Djibril var sýnilega mjög létt yfir því að hafa skoraði. Hann endaði langt fagnaðarhlaup sitt á að hlaupa til Rafael Benítez til að taka í hönd hans. Á lokakafla leiksins fékk Fernando Morientes þrjú gullin færi til að gera sigurinn stærri. Síðasta færið var allra best en þá fékk hann boltann í dauðafæri eftir að Brad hafi ekki náð að halda bylmingsskoti John Arne Riise. En Fernando skaut framhjá á óskiljanlegan hátt. Gestirnir ógnuðu marki Evrópumeistaranna ekkert að ráði og dýrmætur jafn sem kærkominn sigur náðist.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!