Fengsæl ferð til Belgíu
Evrópumeistararnir gerðu góða ferð til Belgíu og unnu þar góðan sigur á Anderlecht í kvöld. Þetta var fyrsti Evrópuleikur Liverpool í Brussel frá því liðið lék til úrslita um Evrópubikarinn vorið 1985. Fyrir tuttugu árum endaði ferðalag stuðningsmanna Liverpool til Brussel með skelfingu á Heysel leikvanginum. Nú gátu stuðningsmenn Liverpool yfirgefið borgina glaðir í bragði.
Liverpool réði ferðinni í fyrri hálfleik en það voru heimamenn sem fengu fyrsta færið strax í byrjun. Jose Reina varði þá frábærlega, með fætinum, skot frá Bart Goor sem komst einn í gegn. Luis Garcia fékk næsta færi en hann skaut yfir úr dauðafæri eftir sendingu frá John Arne Riise. Það var svo vel varið í horn frá Norðmanninum á 20. mínútu. Hornspyrnan sem fylgdi gaf af sér mark sem reyndist sigurmark leiksins. Dietmar Hamann tók hornspyrnuna beint á Djibril Cissé sem hamraði boltann viðstöðulaust í markið frá vítapunktinum. Þetta var frábærlega að verki staðið hjá Frakkanum sem þarna skoraði sitt níunda mark á leiktíðinni fyrir Liverpool. Silvio Proto markvörður Anderlecht átti frábæran leik og hann þurfti að taka á honum stóra sínum þegar hann varði af stuttu færi frá Djimi Traore fyrir hálfleik.
Sem fyrr segir þá var Liverpool miklu sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. En heimamenn komu sterkir til leiks eftir leikhlé. Reyndar átti Liverpool fyrsta færi hálfleiksins þegar John Arne Riise átti þrumuskot rétt framhjá. Litlu síðar varði Jose Reina mjög vel í horn frá Vanden Borre og heimamenn sýndu að þeir ætluðu ekki að gefast upp. Þeir vildu fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í hönd Jamie Carragher eftir skot frá Svíanum Christian Wilhelmsson. Vissulega höfðu heimamenn réttmæta kröfu á vítaspyrnu en dómarinn dæmdi þó ekki víti. Þrátt fyrir góða viðleiti Anderlecht þá fékk Liverpool góð færi. Djibril Cissé skaut rétt framhjá og það var vel varið frá Mohamed Sissoku sem kominn var í mjög gott færi. Það var spenna í leiknum til loka því eitt mark er ekki mikil forysta. En forystan dugði og Liverpool vann mikilvægan sigur.
Liverpool lék mjög vel í fyrri hálfleik en í þeim seinni gaf liðið eftir og treysti á sterka vörn. Slíkt getur verið varasamt en í kvöld gekk sú leikaðferð fullkomlega upp. Það mátti þó ekkert út af bera á lokakafla leiksins. Liverpool stendur nú mjög vel að vígi og ef næstu tveir leikir, sem eru á Anfield Road, vinnast er áframhald í 16 liða úrslit í höfn.
Það var gleðilegt að sjá Harry Kewell koma til leiks á nýjan leik eftir meiðsli. Hann lék síðasta stundarfjórðunginn í leiknum. Ástralinn hefur ekkert spilað frá því hann fór meiddur af leikvelli í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í vor. Vonandi nær hann sér á strik nú þegar meiðslin virðast að baki.
Anderlecht: Proto, Deschacht (Akin 75. mín.), Tihinen (Traore 50. mín.), Deman, Vanden Borre, Goor, Vanderhaeghe (Baseggio 61. mín.), Wilhelmsson, Zetterberg, Mpenza og Jestrovic. Ónotaðir varamenn: Zitka, Zewlakow, Pujol og Hasi.
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore, Sissoko (Zenden 82. mín.), Alonso, Hamann, Riise (Warnock 88. mín.), Garcia og Cissé (Kewell 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Finnan, Crouch og Morientes.
Gul spjöld: Xabi Alonso og Jose Reina.
Markið: Djibril Cissé (20. mín.).
Áhorfendur á Constant Vanden Stock leikvanginum: 21.824
Rafael Benítez var auðvitað ánægður með sigurinn. "Þetta var erfiður leikur. Við sköpuðum fullt af færum, ég held að við höfum átt samtals 18 markskot, en við náðum ekki að skora annað mark sem hefði gert út af við þá. Við stjórnuðum öllu í fyrri hálfleik en á köflum í síðari hálfleik áttum við undir högg að sækja í. Anderlecht átti þá vel útfærðar sóknir. Í heildina þá voru þetta mjög góð úrslit og nú dugar okkur kannski einn sigur í viðbót til að komast áfram."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!