Vel heppnuð endurkoma til Belgíu
Stuðningsmenn Liverpool hvöttu Evrópumeistarana vel og dyggilega til dáða í gærkvöldi. Liverpool vann leikinn við Anderlecht og ferðalagið var því vel heppnað í alla staði. Fólk sem fylgdist með leiknum sagði að vel hefði farið á með stuðningsmönnum Anderlecht og Liverpool á Constant Vanden Stock leikvanginum í gærkvöldi.
Síðasta heimsókn stuðningsmanna Liverpool til Brussel, þann 29. maí fyrir tuttugu árum, endaði á hinn bóginn með martröð. Þá létust 39 manns í uppþoti sem varð fyrir úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða milli Liverpool og Juventus. Troðningur varð á áhorfendastæðunum og hann olli því að lélegur veggur hrundi með þessum skelfilegum afleiðingum. Flestir þeirra sem létust voru stuðningsmenn Juventus.
Skuldinni var til að byrja með aðallega skellt á stuðningsmenn Liverpool. Án þess að nokkurn tíma skuli dregið úr ábyrgð áhorfenda á eigin hegðun þá verður að segjast að framkvæmdaaðilar leiksins báru mesta ábyrgð. Uppröðun á áhorfendastæðin og löggæsla var langt frá því eins og vera bar á stórleik sem þessum. Heysel leikvangurinn var rifinn nokkrum árum eftir slysið. Nýr leikvangur var reistur á grunni hans. Reyndar fannst mörgum sem nýr leikvangur hefði ekki átt að rísa á sama stað.
Harmleikurinn á Heysel leikvanginum fyrir tuttugu árum mun aldrei gleymast. En það var kannski táknrænt að nú á tuttugu ára ártíð þess harmleiks skyldi Liverpool ná að vinna Evrópubikarinn í fimmta sinn. Liðið fór til Belgíu á sínum tíma til þess. En það tókst ekki þá. Forlögin höguðu því líka þannig að Liverpool, á leið sinni að fimmta Evrópubikarsigrinum, lék gegn Juventus í Evrópuleik í fyrsta skipti í tuttugu ár. Liðin höfðu ekki leitt saman hesta sína frá því í úrslitaleiknum í Brussel. Að auki skipuðust mál þannig að Liverpool þurfti að fara til Belgíu og leika Evrópuleik þar. Þangað hefur leið Liverpool ekki legið í tuttugu ár. Þetta eru allt merkilegar tilviljanir. En það var fyrir öllu að allt gekk vel fyrir sig, utan vallar jafnt sem innan, í Belgíu í gærkvöldi.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!