Enn markalaust
Enn hrjáir markaþurrð Evrópumeistarana. Liverpool fékk nóg af færum en Fulham heiðraði minningu Johnny Haynes með sigri. Besti leikmaður í sögu Fulham, Johnny Haynes, lést í vikunni og hans var minnst fyrir leikinn með viðeigandi hætti. Leikmenn beggja liða báru sorgarbönd og fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minningar um Johnny sem var nefndur Meistarinn af stuðningsmönnum Fulham. Hann lést fyrr í vikunni eftir að hafa lent í bílslysi. Chris Coleman, framkvæmdastjóri Fulham hvatti leikmenn sína, fyrir leikinn, til að heiðra minngu Meistarans með sigri Fulham. Það gekk eftir.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Fyrir utan dauðafæri heimamanna strax á þriðju mínútu gerðist ekkert fyrr en fyrsta mark leiksins kom á 30. mínútu. Hollendingurinn Collins John skoraði þá eftir að hafa sloppið einn inn á teiginn. Varnarmenn Liverpool vildu fá rangstöðu og vissulega var einn leikmanna Fulham fyrir innan vörnina en Collins var réttstæður. Leikmenn Liverpool voru líflitlir þrátt fyrir að vera mikið með boltann og stjórna gangi leiksins. Ekkert marktækifæri skapaðist það sem eftir lifði hálfleiksins.
Liverpool átti síðari hálfleikinn með húð og hári. Lengi vel gekk illa að skapa færi en þau áttu eftir að koma. Sérstaklega færðist kraftur í lið Liverpool þegar Luis Garcia kom til leiks. Harry Kewell var nærri búinn að skora eftir misheppnað úthlaup Mark Crossley en hann lyfti boltanum rétt yfir markið af löngu færi. Mark meiddist eftir rúmlega klukkustundar leik og varð að fara af leikvelli. Tony Warner, uppeldissonur Liverpool, kom í markið og átti eftir að reynast gamla liðinu sínu erfiður ljár í þúfu. Hann varði eins og berserkur. Hann byrjaði á að verja meistaralega frábært skot frá Luis Garcia. Hann bjargaði svo frábærlega frá þeim Sami Hyypia og Djibril Cissé. Liverpool sótti linnulaust undir lokin en það voru heimamenn sem skoruðu á lokamínútu leiksins. Luis Boa Morte slapp þá inn fyrir vörn Liverpool og skoraði með hnitmiðuðu skoti upp í þaknetið. Allt brjálaðist af fögnuði hjá stuðningsmönnum Fulham og líklega hugsuðu margir þeirra til Johnny Haynes þegar þeir fögnuðu markinu. Leikmönnum Fulham tókst sannarlega að heiðra minningu Meistarans. Þeir gátu varla gert það betur en með því að vinna Evrópumeistarana.
Eins og svo oft áður á leiktíðinni brugðust leikmenn Liverpool uppi við mark andstæðinga sinna. Leikur liðsins minnti á marga andlausa útileiki liðsins á síðustu leiktíð. Liðið var mikið með boltann og sótti mikið en ekkert gekk. Hlutirnir þurfa að fara að ganga í deildinni því það gengur ekki að Liverpool sé í neðri hluta deildarinnar með óhagstæða markatölu nú þegar mótið er komið vel á veg. Þetta sjá allir!
Fulham: Crossley (Warner 63. mín.), Volz, Goma, Bocanegra, Niclas Jensen (Rosenior 69. mín.), Malbranque, Diop, Claus Jensen, Boa Morte, Elrich (McBride 76. mín.) og John. Ónotaðir varamenn: Helguson og Rehman.
Mörkin: Collins John (30. mín.) og Luis Boa Morte (90. mín.)
Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore (Garcia 59. mín.), Sissoko, Alonso, Riise, Kewell (Crouch 75. mín.), Cissé og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson, Hamann og Warnock.
Gul spjöld: Josemi og Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Craven Cottage: 22.480.
Rafael Benítez segir marrkaþurrð Liverpool hafa verið dýrkeypta í dag. "Við stjórnuðum gangi mála í fyrri hálfleiknum en vandinn var að við vorum 1:0 undir í leikhléi. Mér fannst við standa okkur mjög vel í síðari hálfleik og besti maður vallarins var varamarkvörður Fulham. Vandamál okkar um þessar mundir er að við skorum ekki nóg af mörkum og ef lið skora ekki mörk og ná ekki að halda hreinu tapa þau leikjum."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!