| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Enn markaleysi. Uppeldissonurinn bar mesta ábyrgð á því. Veturinn byrjaði kuldalega. Þetta er leikur Liverpool og Fulham í hnotskurn.

- Fyrir leikinn var Johnny Haynes, besta leikmanns í sögu Fulham, minnst. Hann  lést lést fyrr í vikunni eftir að hafa lent í bílslysi.

- Leikmenn beggja liða báru sorgarbönd og fyrir leikinn var einnar mínútu þögn til minningar um Johnny sem var nefndur Meistarinn af stuðningsmönnum Fulham. Hann lék 658 leiki með Fulham og skoraði 158 mörk á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar. Að auki lék hann 56 landsleiki og var um tíma fyrirliði enska landsliðisins. Johnny var frábær miðjumaður sem lék allan sinn feril með Fulham. Átti hann þó kost á að leika með stærri félögum. Hann varð líka þekktur fyrir að verða fystur atvinnuknattspyrnumanna á Englandi til að fá 100 sterlingspund í vikulaun eftir að launaþaki á leikmenn var aflétt!

- Uppselt var á Craven Cottage og þetta var tilfinningaþrunginn dagur fyrir stuðningsmenn Fulham.

- Þetta mun hafa verið í fimmtugasta sinn sem Liverpool og Fulham hafa leitt saman hesta sína.

- Harry Kewell var í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn frá því í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn í vor. Hann fór þá meiddur af leikvelli í fyrri hálfleik.

- Uppeldissonur LIverpool Anthony Warner var í upphafi leiksins á varamannabekk Fulham. Tony er fæddur í Liverpool og var þar til ársins 1999. Þá gekk hann til liðs við Millwall. Hann er nú leikmaður Cardiff en er í láni hjá Fulham. Hann lék aldrei með aðalliði Liverpool en var oft varamarkvörður.

- Tony kom inn sem varamaður á 63. mínútu. Þetta var í fyrsta sinn sem hann leikur gegn Liverpool. Stuðningsmenn LIverpool tóku honum vel þegar hann kom inn á. Það er þó spurning hvort þeir voru eins ánægðir með hann eftir leikinn.

- Þetta var aðeins annar sigur Fulham í deildinni. HInn sigurinn vannst á Everton. Það hentar Fulham greinilega vel að leika gegn liðum frá LIverpool.

- Liverpool hefur ekki enn unnið útileik í deildinni á leiktíðinni. En reyndar var þetta fyrsta tap liðsins á útivelli í öllum keppnum á þessari leiktíð.

- Liverpool er nú í þrettánda sæti deildarinnar með aðeins tíu stig eftir átta leiki. Í þessum fimm leikjumhefur liðið einungis skorað fimm mörk.

- Eins það það sé ekki nógu slæmt þá er liðið með óhagstæða markatölu sem nemur þremur mörkum. Ekki veit ég hvenær Liverpool var síðast með óhagstæða markatölu á fyrsta degi vetrar!

Fulham: Crossley (Warner 63. mín.), Volz, Goma, Bocanegra, Niclas Jensen (Rosenior 69. mín.), Malbranque, Diop, Claus Jensen, Boa Morte, Elrich (McBride 76. mín.) og John. Ónotaðir varamenn: Helguson og Rehman.

Mörkin: Collins John (30. mín.) og Luis Boa Morte (90. mín.) 

Liverpool: Reina, Josemi, Carragher, Hyypia, Traore (Garcia 59. mín.), Sissoko, Alonso, Riise, Kewell (Crouch 75. mín.), Cissé og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson, Hamann og Warnock.

Gul spjöld: Josemi og Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Craven Cottage: 22.480.

Maður leiksins: Sami Hyypia var gríðarlega sterkur í leiknum og líklega var þetta besti leikur hans á leiktíðinni. Hann var eins og kóngur í ríki sínu í vörninni og ógnaði marki Fulham nokkrum sinnum. Aðeins frábær markvarsla Tony Warner kom í veg fyrir að hann jafnaði metin á lokakafla leiksins.

Jákvætt :-) Ekki margt. Liverpool spilaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og skapaði sér nokkur góð færi. Eins og svo oft áður stjórnaði Liverpool gangi leiksins lengst af. Sami Hyypia, Jamie Carragher og Xabi Alonso voru mjög góðir. Luis Garcia kom mjög sterkur til leiks.

Neikvætt :-(  Enn einu sinni tókst ekki að koma boltanum í mark andstæðingana. Liverpool átti ekki eitt einasta hættulegt marktækifæri í fyrri hálfleik. Fernando Morientes gengur enn illa að láta til sín taka uppi við mark andstæðinga sinna. Peter Crouch tókst ekki að skora í sínum tíunda leik. Vörnin svaf illa á verði í báðum mörkunum. Af hverju lék Harry Kewell lengst af á hægri kantinum? Af hverju er Djibril Cissé látinn spila úti á kanti? Leikur Liverpool minnti á marga andlausa útileiki liðsins, í kjölfar Evrópuleikja, á síðustu sparktíð.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Fyrir utan dauðafæri heimamanna strax á þriðju mínútu gerðist ekkert fyrr en fyrsta mark leiksins kom á 30. mínútu. Hollendingurinn Collins John skoraði þá eftir að hafa sloppið einn inn á teiginn. Leikmenn Liverpool voru líflitlir þrátt fyrir að vera mikið með boltann og stjórna gangi leiksins. Ekkert marktækifæri skapaðist það sem eftir lifði hálfleiksins. Liverpool átti síðari hálfleikinn með húð og hári. Lengi vel gekk illa að skapa færi en þau áttu eftir að koma. Sérstaklega færðist kraftur í leik Liverpool þegar Luis Garcia kom til leiks. Harry Kewell var nærri búinn að skora eftir misheppnað úthlaup Mark Crossley en hann lyfti boltanum rétt yfir markið af löngu færi. Mark meiddist eftir rúmlega klukkustundar leik og varð að fara af leikvelli. Tony Warner, uppeldissonur Liverpool, kom í markið og átti eftir að reynast gamla liðinu sínu erfiður ljár í þúfu. Hann varði eins og berserkur. Hann byrjaði á að verja meistaralega frábært skot frá Luis Garcia. Hann bjargaði svo frábærlega frá þeim Sami Hyypia og Djibril Cissé. Liverpool sótti linnulaust undir lokin en það voru heimamenn sem skoruðu á lokamínútu leiksins. Luis Boa Morte slapp þá inn fyrir vörn Liverpool og skoraði með hnitmiðuðu skoti upp í þaknetið. Allt brjálaðist af fögnuði hjá stuðningsmönnum Fulham og líklega var mörgum þeirra hugsað til Johnny Haynes þegar þeir fögnuðu markinu. Leikmönnum Fulham tókst sannarlega að heiðra minningu Meistarans. Þeir gátu varla gert það betur en með því að vinna Evrópumeistarana.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan