Áfall í höfuðstaðnum
Liverpool mátti enn þola tap á útivelli í kvöld. Nú var það fyrstudeildarlið Crystal Palace sem viðhélt útivallardraugnum. Ekki bætti úr skák að tapið þýðir að Deildarbikarinn mun ekki verða hýstur á Anfield Road á þessari leiktíð. Liverpool sótti Crystal Palace heim og þrátt fyrir að fá töluvert af mjög góðum marktækifærum þá tapaðist leikurinn og liðið féll úr leik í Deildarbikarnum. Ólánið elti Liverpool og það segir sína sögu að markvörður Crystal Palace var besti maður heimamanna. Liverpool stillti upp sterku liði og fyrir því fór Steven Gerrard sem kom aftur í liðið eftir meiðsli. Tapið verður að teljast töluvert áfall því Rafael Benítez var búinn að brýna menn sína mikið fyrir þennan leik.
Leikmenn Liverpool komu ákveðnir til leiks og það var greinilegt á öllu að leikmenn liðsins ætluðu að bæta fyrir tapið gegn Fulham á laugardaginn. Liðið fékk mjög góð færi og markvörður Arnanna hafði í mörg horn að líta. Eftir rétt rúmlega tuttugu mínútna leik var hann búinn að bjarga glæsilega í þrígang. Fyrst frá Harry Kewell, þá Fernando Morientes og loks Steven Gerrard. Dougie Freedman átti fyrsta færi Crystal Palace en Scott Carson var vel staðsettur. En eins og svo oft áður í útileikjum náðu heimamenn forystu upp úr þurru. Dougie skallaði þá langa fyrirgjöf frá vinstri kanti í markið á 37. mínútu. Zak Whitbread var ekki vel á verði þegar fyrirgjöfin kom. En leikmenn Liverpool voru fljótir að jafna metin. Þremur mínútum seinna náðu varnarmenn Crystal Palace ekki að koma boltanum í burtu eftir langa sendingu fram. Steven Gerrard var fljótur að átta sig og náði boltanum rétt utan vítateigs. Hann lék upp að teignum og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Þetta var fimmtugasta mark fyrirliðans fyrir Liverpool. Staðan var jöfn í hálfleik en Liverpool hefði átt að vera yfir miðað við gang leiksins.
Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og þeir Fernando Morientes og Darren Potter voru nærri því að skora. Julian Speroni hinn argentínski markvörður Crystal Palace varði svo meistaralega fast skot frá Harry Kewell. Skotið stefndi neðst í hornið en markvörðurinn varði á síðustu stundu. Eftir þetta fóru heimamenn að sækja í sig veðrið. Rafael Benítez hugðist fríska upp á sóknarleikinn með því að taka þá Fernando og Harry af velli en þeir eru í lítilli leikæfingu. Í stað þeirra komu þeir Florent Sinama Pongolle og Luis Garcia inn á. En rétt á eftir, á 66. mínútu, komust heimamenn yfir. Sending yfir á fjærstöng hafnaði hjá Marco Reich sem skoraði óvaldaður. Nú var það Stephen Warnock sem var illa á verði í vörninni. Litlu seinna misnotaði Marco svipað færi og Liverpool átti enn von. En á lokakaflanum gekk hvorki né rak. Leikmennn Crystal Palace vörðust með kjafi og klóm og leikmönnum Liverpool varð ekkert ágengt og draumurinn um áttunda Deildarbikarsigurinn, sem nærri rættist á síðustu leiktíð, varð að engu.
Í raun má segja, þrátt fyrir tapið, að Liverpool hafi leikið vel á köflum og liðið var kannski óheppið að tapa leiknum. Hvað eftir annað fengu leikmenn liðsins færi á að skora. En sem fyrr á þessari leiktíð þá gekk ekki að nýta þau færi sem gáfust. Það versta var að eftir að heimamenn komust yfir í seinna skiptið þá náði Liverpool ekki að ógna marki þeirra og þá örlaði á uppgjöf. Leikmenn Crystal Palace börðust einfaldlega betur á lokakafla leiksins. Vissulega börðust leikmenn Liverpool betur í kvöld en gegn Fulham á laugardaginn. En liðið tapaði fyrir liði úr fyrstu deild og það er óásættanlegt. Fundurinn á Melwood um helgina náði því greinilega ekki að kveða útivallardrauginn niður. Hann leikur enn lausum hala. Hann verður að kveða niður og það sem fyrst. Hvernig það verður gjört svo dugi er enn óljóst.
Crystal Palace: Speroni, Borrowdale, Hudson, Fitz Hall, Boyce, Watson, Soares, Hughes, Reich (Togwell 84. mín.), Freedman (Black 77. mín.) og Morrison (Andrews 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Kiraly og Ward.
Mörkin: Dougie Freedman (37. mín.) og Marco Reich (66. mín).
Gul spjöld: Reich og Hudson.
Liverpool: Carson, Raven, Hyypia, Whitbread, Warnock (Traore 76. mín.), Potter, Gerrard, Hamann, Kewell (Garcia 65. mín.), Morientes (Pongolle 62. mín.) og Crouch. Ónotaðir varamenn: Reina og Josemi.
Goals: Steven Gerrard 40.
Gult spjald: David Raven.
Áhorfendur á Selhurst Park: 19.673.
Það merkilega var að Rafael Benítez var bara nokkuð ánægður með sína menn eftir leikinn. "Enn var markvörðurinn besti maður leiksins og hann bjargaði Palace. Við sköpuðum okkur góð færi og leikmennirnir lögðu hart að sér. Sem framkvæmdastjóri þá er ég vonsvikinn með tapið. En ég get ekki gagnrýnt leikmenn mína því lögðu hart að sér allan leikinn og reyndu allt hvað þeir gátu."
Persónulega þá verð ég að segja að mér finnst að framkvæmdastjóri Liverpool geti aldrei leyft sér að hæla leikmönnum sínum eftir tap gegn neðrideildarliði. Mér er alveg nákvæmlega sama þótt menn hafi barist vel. Leikmenn Liverpool eiga að gera það og þeir eru á nógu háum launum til að eiga að berjast í leikjum. Liverpool tapaði gegn liði úr neðri deild og slíkt á ekki að kalla á hrós til handa leikmönnum liðsins. Það er að minnsta kosti mín skoðun!
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!