Í rétta átt
Eftir erfiða viku þá sneri Liverpool í rétta átt í dag með 2:0 sigri á West Ham United á Anfield Road í dag. Það sem meira var liðið skoraði meira en eitt mark. Evrópumeistararnir voru búnir að liggja undir ámæli eftir tvo slæma tapleiki í höfuðstaðnum. En nú kom lið úr höfuðstaðnum í heimsókn til Liverpool og það mátti snúa tómhent heim. Það var eins gott að svo fór!
Að venju gerði Rafael Benítez miklar breytingar á liðinu. Leikurinn byrjaði mjög rólega. Það kom kannski á óvart að svo var því líklega áttu stuðningsmenn Liverpool von á því að liðið byrjaði af meiri krafti. Á 18. mínútu náði Liverpool þó forystu. Luis Garica tók hornspyrnu. Vörn West Ham kom boltanum ekki frá að gagni og hann barst til Xabi Alonso sem var rétt utan við vítateignn. Hann skaut nákvæmu skoti að marki sem hafnaði neðst í horninu fjær. Boltinn hafði örlitla viðkomu í varnarmanni Hamranna en óvíst er hvort það skipti máli um endastöð boltans. Xabi skoraði þarna annað mark sitt á leiktíðinni. Bæði komu þau af svipuðum slóðum. Það má segja að þetta hafi verið það eina sem markvert átti sér stað í fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur byrjaði rólega. Liverpool hafði yfirhöndina en Hamrarnir reyndu hvað þeir gátu en vörnin gaf fá færi á sér. Eftir ellefu mínútna leik í síðari hálfleik bjargaði Paul Konchesky tvívegis á línu eftir hornspyrnu. Fyrst frá Sami Hyypia og svo frá Fernando Morientes. Á 68. mínútu varði Shaka Hislop mjög vel skalla frá Fernardo Morientes. Reyndar átti Fernando að skora því hann fékk boltann í mjög góðu færi. Stuttu síðar var Luis Garcia, sem átti líflegan leik, tvívegis ágengur við mark gestanna. Fyrst var frábærlega varið frá honum og svo skallaði hann rétt framhjá. Þetta þróaðist því eins og svo oft áður á þessari leiktíð. Liverpool var einu marki yfir en gekk illa að klára leikinn. Leikmenn West Ham voru ekki svo mjög ágengir en það örlaði af og til á óöryggi í vörn Liverpool. En sigurinn komst endanlega í höfn á 82. mínútu. Boudewijn Zenden, kom kom inn sem varamaður fyrir Djibril Cissé, slapp þá inn í vítateig Hamranna og skoraði með þrumuskoti í stöng og inn fyrir framan The Kop. Þetta var fyrsta mark Hollendingsins fyrir Liverpool. Um leið var það fyrsta deildarmarkið sem Liverpool skorar fyrir framan The Kop á leiktíðinni. Nú gátu leikmenn og stuðningsmenn Liverpool andað léttar og þrjú stig bættust í safnið.
Sigurinn var fyrir öllu. Liverpool sýndi vissulega ekki neinn stórleik en samt hafði liðið yfirburði í leiknum og Hamrarnir fengu ekkert mjög hættulegt marktækifæri. Það var jákvætt að leikmenn Liverpool náðu loksins að skora meira en eitt mark í deildarleik. Það hefur aðeins einu sinni gerst áður á þessari leiktíð. Vonandi verður þessi sigur upphafið að því að liðið komist almennilega í gang.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Garcia, Gerrard, Alonso, Sissoko, Cisse (Zenden 73. mín.) og Morientes (Crouch 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson, Hamann og Warnock.
Goals: Xabi Alonso (18. mín.) og Boudewijn Zenden (82. mín)
Gul spjöld: Fernando Morientes og Steve Finnan.
West Ham United: Hislop, Repka (Collins 81. mín.), Ferdinand, Gabbidon, Konchesky, Benayoun, Reo-Coker, Mullins, Etherington (Sheringham 67. mín.), Bellion (Aliadiere 60. mín.) og Harewood. Ónotaðir varamenn: Bywater og Dailly.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.537.
Rafael var ánægður með strákana sína eftir sigurinn. "Liðið lék vel. Menn voru skipulagðir og við héldum markinu hreinu sem var gott. Við erum búnir að gera það sem fólk fór fram á. Við spiluðum góða knattspyrnu og skoruðum tvö góð mörk. Við þurftum að skora annað mark. Bolo kom ferskur af bekknum og skoraði markið sem við þurftum fyrir framan The Kop."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!