| Sf. Gutt

Allt á réttri leið

Liverpool hélt sínu striki í Meistaradeildinni í gærkvöldi með 3:0 sigri á Anderlecht. Eftir sigurinn er Liverpool í efsta sæti riðilsins en áframhald úr riðlinum er enn ekki öruggt. Liðið lék sinn besta leik í langan tíma og þrátt fyrir að andstæðingurinn hafi ekki verið mjög sterkur þá lofar sigurinn góðu.

Liverpool tók strax öll völd á vellinum. Belgarnir þéttu vörnina og reyndu að verjast. Fáar skyndisóknir þeirra sköpuðu litla hættu. Peter Crouch, sem kom í byrjunarliðið í stað Djibril Cissé, var ágengur við mark Anderlecht á upphafskafla leiksins en sem fyrr náði hann ekki að skora. Kannski komst hann næst því þegar hann skaut framhjá eftir að hafa tekið frákastið þegar markvörður gestanna hafði varið skot af stuttu færi frá Fernando Morientes. En Fernando skoraði loksins á 34. mínútu. Steven Gerrard sendi þá frábæra sendingu á hann. Spánverjinn náði boltanum og lék inn á vítateiginn. Utarlega hægra megin í teignum sendi hann boltann í fjærhornið í stöng og inn. Fernando var sýnilega létt og fagnaði hann markinu innilega. Fátt meira títt gerðist fram að hálfleik.

Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og það var greinilegt að Evrópumeistararnir ætluðu sér að gera út um leikinn sem fyrst. Sókn Liverpool var linnulítil og Belgarnir komust varla fram fyrir miðju á köflum. Fernando Morientes varð að yfirgefa völlinn snemma í síðari hálfleik vegna meiðsla og Boudewijn Zenden leysti hann af. Liverpool gerði svo út um leikinn á 61. mínútu. Luis Garcia skoraði þá stórglæsilegt mark með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Steve Finnan. Silvio Proto markvörður Anderlecht átti ekki möguleika á að verja. Luis stýrði boltanum í færhornið á frábæran hátt og sýndi enn einu sinni hversu snjall hann er. Anderlecht lék síðasta stundarfjórðunginn manni færri eftir að Serbinn Nenad Jestrovic var rekinn út af fyrir ósæmilegt orðbragð í garð Mohamed Sissoko. Nanad hafði aðeins verið inni á vellinum í fimm mínútur eftir að hafa komið inn sem varamaður. Yfirburðir Liverpool voru algerir og Silvio markvörður gestanna hélt þeim á floti. Hann varði til dæmis mjög vel fast skot Steven Gerrard. Svíinn Christian Wilhelmsson átti eina færi Anderlecht í síðari hálfleik. Hann braust af miklu harðfylgi upp endalínuna en Jose Reina varði skot hans. Djibril Cissé, sem lék síðustu átján mínúturnar, skoraði þriðja markið mínútu fyrir leikslok. Hann skoraði þá af öryggi eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina frá Harry Kewell sem líka kom inn sem varamaður. Öruggur sigur var gulltryggður.

Liverpool lék mjög vel í leiknum. Vissulega segir það sína sögu um mótherjana að þeir voru þarna að tapa sínum ellefta Meistaradeildarleik í röð. En það skal ekki dregið úr því að Evrópumeistararnir léku sinn besta leik í langan tíma. Sérstaklega gekk samspil leikmanna  vel á köflum og það er greinilegt að sjálfstraus manna er að lagast. Liverpool er nú efst í riðlinum en Real Betis er komið inn í myndina eftir að hafa lagt Chelsea að velli. Liverpool tekur á móti spánska liðinu í næsta leik. Sigur í þeim leik tryggir Liverpool áfram í sextán liða úrslit.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Kewell 78. mín.), Alonso, Sissoko, Garcia, Morientes (Zenden 52. mín.) og Crouch (Cisse 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hamann, Josemi og Warnock.

Goals: Fernando Morientes (34. mín.), Luis Garcia (61. mín.) og Djibril Cissé (89. mín). 

Gult spjald: Mohamed Sissoko.

Anderlecht: Proto, Zewlakow, Juhasz, Tihinen, Wilhelmsson, Vanderhaeghe (Pujol 70. mín.), Deman, Goor, Akin (Jestrovic 70. mín.), Zetterberg og Mpenza (Baseggio 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Zitka, Deschacht, Hasi og Traore.

Rautt spjald: Nenad Jestrovic (75. mín.).

Áhorfendur á Anfield Road: 42.607.

Rafael Benítez var auðvitað ánægður með leikmenn sína. "Ég er hæstánægður. Við lékum vel og skoruðum þrjú mörk. Þrjú stig bættust í safnið og núna erum við með miklu meira sjálfstraust. Við erum ekki enn komnir áfram og ég veit að Betis verða hættulegir mótherjar. En við munum reyna að leggja þá að velli."


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan