Í hnotskurn
Þessi leikur endaði á sama hátt og þegar Liverpool vígði alrauða búninginn gegn Anderlecht árið 1964. Besti leikur leiktíðarinnar. Þetta er leikur Liverpool og Anderlecht í hnotskurn.
- Þetta var þriðja rimma Liverpool og Anderlecht í Evrópukeppni.
- Fyrra skiptið var í Evrópukeppni meistaraliða á leiktíðinni 1965/65. Liverpool vann þá 3:0 á Anfield Road. Þeir Ian St John, Roger Hunt og Ron Yeats skoruðu mörkin. Liverpool vann 1:0 í Brussel með marki Roger Hunt.
- Árið 1978 léku liðin um Stórbikar Evrópu. Liverpool tapaði útileiknum 3:1 en vann heimaleikinn 2:1. Anderlecht vann því Stórbikarinn samanlagt 4:3. Jimmy Case skoraði markið í útileiknum. Í heimaleiknum, sem var leikinn í mikilli þoku, skoruðu þeir Emlyn Hughes og David Fairclough.
- Í fyrri leiknum leiktíðina 1964/65 urðu þau tímamót í sögu Liverpool að í fyrsta sinn í sögu félagsins hlupu leikmenn félagsins til leiks í alrauðum búningum.
- Félagsbúningur Liverpool hafði lengst af verið rauðar treyjur, hvítar buxur og hvítir sokkar. En fyrir fyrrnefndan leik fékk Bill Shankly þá hugmynd að breyta búningi Liverpool þannig að hann yrði alrauður.
- Rafael Benítez gerði aðeins eina breytingu á liði Liverpool frá leiknum gegn West Ham United. Peter Crouch kom inn fyrir Djibril Cissé. Það er sjaldan sem Rafael gerir svo fáar breytingar milli leikja.
- Þetta var í fjórða skipti sem Liverpool leikur gegn belgísku liði á Anfield Road. Liverpool hefur unnið alla þá leiki.
- Fernando Morientes skoraði sitt þriðja mark á leiktíðinni. Öll mörkin hefur hann skorað í Evrópukeppni.
- Þetta var 27. Meistaradeildarmark Fernando á ferlinum. Hann hefur þrívegis, 1998, 2000 og 2001, unnið Meistaradeildina.
- Luis Garcia skoraði fjórða mark sitt á leiktíðinni.
- Þetta mark hans var sögulegt að því leyti þetta var sjöunda markið sem hann skorar fyrir Liverpool í Meistaradeildinni. Hann hefur nú skorað flest mörk leikmanna Liverpool í þeirri keppni. Hann var fyrir leikinn í gærkvöldi jafn Michael Owen með sex Meistaradeildarmörk.
- Michael Owen á þó enn Evrópumarkamet Liverpool. Það met er 22 mörk.
- Fyrir utan að vera metmark þá var markið stórglæsilegt og það er langt um liðið frá því leikmaður Liverpool hefur skorað með skalla af jafn löngu færi. Luis var rétt innan vítateigslínu þegar hann skallaði boltann!
- Djibril Cissé skoraði tíunda mark sitt á leiktíðinni.
- Eins jafnan á Evrópuleikjum þá voru stuðningsmenn Liverpool magnaðir. All oft minntu þeir á heiðursstöðu Liverpool með því að syngja "We are the champions, champions of Europe!!!!!"
- Undir lok leiksins sveimaði Evrópubikar um Anfield Road. Þetta var þó ekki Evrópubikarinn sjálfur enda þarf líklega hávaðarok til að koma honum á loft. En hér var um að ræða uppblána blöðru í líki Evrópubikarsins!
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Kewell 78. mín.), Alonso, Sissoko, Garcia, Morientes (Zenden 52. mín.) og Crouch (Cisse 72. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek, Hamann, Josemi og Warnock.
Goals: Fernando Morientes (34. mín.), Luis Garcia (61. mín.) og Djibril Cissé (89. mín).
Gult spjald: Mohamed Sissoko.
Anderlecht: Proto, Zewlakow, Juhasz, Tihinen, Wilhelmsson, Vanderhaeghe (Pujol 70. mín.), Deman, Goor, Akin (Jestrovic 70. mín.), Zetterberg og Mpenza (Baseggio 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Zitka, Deschacht, Hasi og Traore.
Rautt spjald: Nenad Jestrovic (75. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 42.607.
Maður leiksins: Luis Garcia átti algeran stórleik. Hann var úti um allan völl og var alltaf að hrella varnarmenn belgíska liðsins. Hann kórónaði svo stórleik vinn með því að skora stórglæsilegt mark. Viðlíka skallamark hefur ekki sést lengi á Anfield Road. Spánverjinn sýndi líklega besta leik einstaks leikmanns Liverpool á þessari leiktíð.
Jákvætt :-) Liverpool lék sinn besta leik á leiktíðinni. Liðið lék kraftmikinn sóknarleik og samleikur leikmanna var oft frábær. Hver einasti leikmaður liðsins lék vel. Mörg færi sköpuðust og loksins náði liðið að skora þrjú mörk í leik. Liverpool er í efsta sæti riðilsins og það vantar bara herslumuninn upp á að komast áfram úr riðlinum.
Neikvætt :-( Ekki neitt. Nema þá að Peter Crouch náði ekki að skora. Annars gekk allt eins og best var á kosið.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool tók strax öll völd á vellinum. Belgarnir þéttu vörnina og reyndu að verjast. Fáar skyndisóknir þeirra sköpuðu litla hættu. Peter Crouch var ágengur við mark Anderlecht á upphafskafla leiksins en sem fyrr náði hann ekki að skora. Kannski komst hann næst því þegar hann skaut framhjá eftir að hafa tekið frákastið þegar markvörður gestanna hafði varið skot af stuttu færi frá Fernando Morientes. En Fernando skoraði loksins á 34. mínútu. Steven Gerrard sendi þá frábæra sendingu á hann. Spánverjinn náði boltanum og lék inn á vítateiginn. Utarlega hægra megin í teignum sendi hann boltann í fjærhornið í stöng og inn. Fernando var sýnilega létt og fagnaði hann markinu innilega. Fátt meira títt gerðist fram að hálfleik. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af krafti og það var greinilegt að Evrópumeistararnir ætluðu sér að gera út um leikinn sem fyrst. Sókn Liverpool var linnulítil og Belgarnir komust varla fram fyrir miðju á köflum. Liverpool gerði út um leikinn á 61. mínútu. Luis Garcia skoraði þá stórglæsilegt mark með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Steve Finnan. Silvio Proto markvörður Anderlecht átti ekki möguleika á að verja. Luis stýrði boltanum í færhornið á frábæran hátt og sýndi enn einu sinni hversu snjall hann er. Anderlecht lék síðasta stundarfjórðunginn manni færri eftir að Serbinn Nenad Jestrovic var rekinn út af fyrir ósæmilegt orðbragð í garð Mohamed Sissoko. Yfirburðir Liverpool voru algerir og Silvio markvörður gestanna hélt þeim á floti. Hann varði til dæmis mjög vel fast skot Steven Gerrard. Svíinn Christian Wilhelmsson átti eina færi Anderlecht í síðari hálfleik. Hann braust af miklu harðfylgi upp endalínuna en Jose Reina varði skot hans. Djibril Cissé, sem lék síðustu átján mínúturnar, skoraði þriðja markið mínútu fyrir leikslok. Hann skoraði þá af öryggi eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina frá Harry Kewell sem líka kom inn sem varamaður. Öruggur sigur var gulltryggður.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!