| Sf. Gutt

Mark Walters spáir í spilin með liverpool.is

Mark spáir í spilin fyrir leikinn á Villa Park á morgun. Þó ekki Mark Lawrenson, sem spáði fyrr í dag heldur Mark Walters sem lék fyrir hönd þessara beggja félaga. Hann er nú staddur hér á landi með liði eldri leikmanna Liverpool. Útsendarar Liverpool.is hittu hann að máli nú undir kvöld og spurðu hann út í leik þessara fyrrum félaga hans sem fer fram á Villa Park á morgun.  Þetta er það sem Mark hafði að segja um leikinn.

"Aston Villa lék ekki vel gegn Manchester City á mánudagskvöldið og Liverpool ætti því að geta unnið nokkuð öruggan sigur. En á móti kemur að Aston Villa leikur oft vel gegn Liverpool og í gegnum tíðina hefur liðið oft rifið sig upp fyrir viðureignir liðanna. Það gæti því orðið jafntefli og Aston Villa á hugsanlega möguleika á sigri ef liðið nær sér á flug. En Liverpool ætti að vinna eftir bókinni."

Þetta var álit Mark Walters á leiknum. Hann var líka spurður að því með hvoru liðinu hann héldi. Hann brosti og sagðist bara vonast eftir því að leikurinn yrði góður! Sem sagt nokkuð hlutlaust svar hjá þessum fyrrum leikmanni Aston Villa og Liverpool. Reyndar starfar Mark núna hjá Aston Villa við þjálfun yngri leikmanna.

Mark var mjög skæður útherji. Hann var eldfljótur og leikinn. Hann kom til Liverpool frá Glasgow Rangers sumarið 1991. Graeme Souness keypti hann þaðan en hann hafði keypt Mark til Rangers frá Aston Villa. Mark náði aldrei almennilega að láta að sér kveða hjá Liverpool. Meiðsli settu til dæmis strik í reikninginn hjá honum.  Hann yfirgaf Liverpool árið 1996 eftir að hafa leikið 124 leiki og skorað 19 mörk. Fyrir utan Aston Villa, Rangers og Liverpool lék Mark með Stoke, Wolves, Southampton, Swindon og Bristol Rovers. Hann lék einn landsleik rétt áður en hann kom til Liverpool. Mark var tvívegis varamaður í úrslitaleikjum með Liverpool.

Félagar í íslenska Liverpool klúbbnum geta hlakkað til að lesa viðtal við Mark Walters og fleiri leikmenn Liverpool í næstu tölublöðum Rauða hersins. En útsendarar liverpool.is náðu einkaviðtölum við 7 af 8 leikmönnum Liverpool sem eru nú hér á landi. Er er um að ræða frækinn hóp leikmanna svo ekki sé sterkar að orði kveðið.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan