Í hnotskurn
Þriðji sigur Liverpool í röð vannst á Villa Park. Það er mjög hagstætt fyrir Liverpool að spila á Villa Park þessi árin. Þetta er leikur Liverpool og Aston Villa í hnotskurn.
- Það er hagstætt fyrir Liverpool að leika á Villa Park þessi árin.
- Allt frá því Liverpool vann þar 4:2 sigur á Villa Park leiktíðina 1998/99 þá hefur liðið ekki tapað þar. Nefndur leikur var annar leikurinn sem Gerard Houllier stjórnaði Liverpool einn eftir að Roy Evans sagði af sér störfum.
- Evrópumeistaranir trekktu vel að og mesti áhorfendafjöldi leiktíðarinnar safnaðist saman á Villa Park til að berja þá augum.
- Evrópumeistarinn Milan Baros kom aftur til leiks eftir meiðsli. Hann hafði misst af síðustu leikjum Aston Villa en var greinilega áfjáður í að leika gegn liðinu sem hann varð Evrópumeistari með í vor.
- Honum gekk þó lítt gegn fyrrum félögum sínum. Hann sótti þó einu sinni hart að Jose Reina. Spánverjinn datt aftur fyrir endamörk. En Tékkinn fór vel að honum og hjálpaði honum á fætur.
- Peter Crouch var vel tekið þegar hann kom til leiks. Bæði stuðningsmenn Liverpool og Aston Villa klöppuðu fyrir honum.
- Peter lék á sínum tíma með Aston VIlla þannig að það þurfti ekki að koma á óvart að honum væri vel tekið á Villa Park. Peter lék 42 leiki með Villa og skoraði sex mörk.
- Það er svo spurning hvort stuðningsmenn Aston Villa voru eins ánægðir með Peter í leikslok því hann átti stóran þátt í báðum mörkum Liverpool!
- Peter lék sinn fjórtánda leik með Liverpool. Því miður lætur enn fyrsta mark hans fyrir félagið standa á sér.
- Steven Gerrard lék sinn þrjúhundraðasta leik með Liverpool. Í þessum tímamótaleik skoraði hann fimmtugasta og fyrsta mark sitt.
- Steven hefur nú skorað tíu mörk á leiktíðinni. Hann og Djibril Cissé hafa báðir skorað tíu mörk.
- Xabi Alonso skoraði þriðja mark sitt á leiktíðinni.
- Spánverjinn er nú markahæsti leikmaður Liverpool í deildinni!
- Liverpool vann fyrsta útileik sinn í deildinni á þessari leiktíð. Reyndar var þetta fyrsti sigur Liverpool á útivelli í deildarleik frá því liðið vann Portsmouth 2:1 í apríl.
- Liverpool er enn í tólfta sæti en liðið er búið að vera nokkuð lengi í því sæti. En markatalan er loksins orðin hagstæð!
Aston Villa: Sorensen, Delaney, Mellberg, Ridgewell, Barry, Davis, McCann, Bakke (Hendrie 82. mín.), Milner, Baros, Phillips (Angel 61. mín.).
Ónotaðir varamenn: Taylor, Samuel og Moore.
Gul spjöld: Gareth Barry og Neil McCann.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko, Luis Garcia (Zenden 57. mín.), Morientes (Crouch 68. mín.), Cisse (Kewell 76. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Warnock.
Gul spjöld: Mohamed Sissoko og Xabi Alonso.
Mörkin: Steven Gerrard (85. víti) og Xabi Alonso (89. mín.)
Áhorfendur á Villa Park: 42.551.
Maður leiksins: Steven Gerrard lék mjög vel í þrjúhundrasta leik sínum með Liverpool. Hann fór víða um völlinn og var alltaf að reyna að klekkja á vörn heimamanna. Hann átti stórkostlega sendingu, sem hefði átt að gefa marka af sér, á Djibril Cissé í fyrri hálfleik. Fyrirliðinn sýndi svo mikla yfirvegun þegar hann skoraði úr vítaspyrnunni undir lokin.
Jákvætt :-) Liverpool lék lengst af vel í leiknum og landaði fyrsta útisigri sínum í deildinni. Vörnin var sterk, eins og svo oft á leiktíðinni, og Jose Reina hélt enn hreinu. Peter Crouch kom sterkur til leiks og þó hann næði ekki að skora þá átti hann stóran þátt í báðum mörkunum. Þeir Steven Gerrard og Xabi Alonso voru mjög góðir á miðjunni. Liverpool vann þriðja sigur sinn í röð.
Neikvætt :-( Sóknarmennirnir náðu ekki að skora. Fernando Morientes náði sér ekki á strik eftir tvo góða leiki í röð. Peter Crouch náði ekki að skora. Annars á ekki að vera að kvarta eftir svona góðan sigur.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool var sterkari aðilinn lengst af en eins og svo oft áður á leiktíðinni gekk heldur illa að skora. Bæði voru leikmönnum liðsins mislagðar fætur og svo varði markvörður Aston Villa nokkrum sinnum vel. Heimamenn fengu ekki mörg færi og Milan Baros, fyrrum leikmaður Evrópumeistaranna, var í strangri gæslu fyrrum félaga sinna. Djibril Cissé fékk besta færið í fyrri hálfleik en það var varið frá honum þegar hann komst einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Steven Gerrard. Peter Crouch kom sterkur til leiks og skapaði usla í vörn Villa. En honum mistókst að skora úr dauðafæri, stuttu eftir að hann kom inná, þegar hann skallaði beint á markvörð heimamanna. Fimm mínútum fyrir leikslok fékk hann þó dæmda vítaspyrnu þegar Liam Ridgewell braut á honum. Steven Gerrard brást ekki bogalistin í þrjúhundraðasta leik sínum og sendi Thomas Sörensen í vitlaust horn. Einni mínútu fyrir leikslok skoraði svo Xabi Alonso með skoti frá vítateig eftir að boltinn hafði borist út til hans eftir harða sókn Liverpool. Stuðningsmenn Liverpool á Villa Park gátu því fagnað fyrsta útisigri Liverpool í deildinni á þessari leiktíð.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!