Fjórði sigurinn í röð
Evrópumeistararnir unnu fjórða sigur sinn í röð þegar þeir lögðu Portsmouth auðveldlega að velli 3:0. Sigurinn var öruggur í miera lagi og hefði átt að vera stærri ef eitthvað var. Liverpool lék á köflum mjög vel og leikmenn Portsmouth voru eins og börn í höndunum á Evrópumiesturunum. Rafael Benítez gerði nokkrar breytingar á liðinu frá síðasta og voru þeir landsliðsmenn sem mest höfðu að gera í landsleikjahrotunni hvíldir.
Liverpool tók strax öll völd á vellinum. Peter Crouch fékk fyrsta hættulega færi leiksins en Jamie Ashdown, markvörður gestanna sem var lang besti maður þeirra, varði vel. Liverpool fékk vítaspyrnu á 23. mínútu þegar Boudewijn Zenden var hindraður innan vítateigs. Báðar aðalvítaskyttur Liverpool, Steven Gerrard og Djibril Cissé, féllust á leyfa Peter Crouch að taka spyrnuna. Ástæðan var einföld. Allt átti að gera til að koma enska landsliðsmanninum á blað. Nokkur töf varð á því að vítaspyrnan var tekin vegna mótmæla leikmanna Portsmouth sem ekki voru sáttir við dóminn og eins skipti Liverpool um leikmann. Luis Garcia varð að fara af leikvelli vegna meiðsla og landi hans Fernando Morientes kom inn á. En loksins þegar Peter tók spyrnuna þá varði Jamie meistaralega fasta spyrnu hans. En Boudewijn Zenden var vel vakandi, hirti frákastið og skallaði boltann í markið af stuttu færi. Hollendingurinn sýndi þarna mikla árvekni og bjargaði málunum eftir að vítaspyrnan fór í súginn. Ekki löngu seinna varði Jamie vel skalla frá Fernando Morientes. En á 39. mínútu skoraði Djibril Cissé furðulegt mark. Hann fékk boltann út á hægri kant, lék framhjá Gregory Vignal og sendi fyrir markið. Flestum að óvörum sveif boltinn yfir markvörð gestanna og datt niður í fjærhornið. Snilldarleg tilþrif eða alger heppni. Líklega það síðarnefnda því Djibril var örugglega að reyna að gefa á einn félaga sinna. En markið var gott og gilt.
Liverpool hafði sem og fyrir leikhlé algera yfirburði í síðari hálfleik. Sem fyrr var það Jamie Ashdown sem bjaragði liði sínu hvað eftir annað. Snemma í hálfleiknum varði hann mjög vel frá Peter Crouch sem komst einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Fernando Morientes. Eina færi Portsmouth kom þegar Steven Finnan bjargaði á marklínu eftir að Daninn Brian Priske hafði komið skoti á markið. Annars var vörn Liverpool örugg og Jose Reina hafði lítið að gera. Þriðja markið kom á 80. mínútu. Steven Gerrard sendi fyrir. Peter Crouch skallaði til Sami Hyypia sem kom boltanum á Fernando Morientes. Spánverjinn skoraði með öruggu skoti úr teignum. Það með var auðveldur sigur gulltryggður.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock, Gerrard (Josemi 83. mín.), Hamann, Zenden, Garcia (Morientes 22. mín.), Crouch og Cissé (Alonso 69.mín). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.
Mörkin: Boudewijn Zenden (23. mín), Djibril Cissé (39. mín) og Fernando Morientes (80. mín).
Gult spjald: Dietmar Hamann.
Portsmouth: Ashdown, Griffin, O'Brien, Priske, Vignal, Viafara, Hughes (Skopelitis 74. mín.), Taylor, Robert (Vukic 64. mín.), O'Neil og LuaLua (Mbesuma 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Westerveld og Primus.
Gult spjald: John Viafara.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.394.
Rafael Benítez var auðvitað ánægður með öruggan sigur sinna manna. "Sem framkvæmdastjóri þá er ég mjög ánægður því við lékum mjög vel á köflum. Við héldum aftur og enn hreinu og skoruðum þrjú góð mörk. Liðinu er að fara fram og við sköpuðum okkur mörg færi í dag. Það mikilvægasta er að spila eins vel og kostur er og vinna hvern einasta leik."
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!