| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Það náðist að landa fjórða sigrinum í röð. Auðveldur sigur og sá stærsti í deildinni á leiktíðinni. Þetta er leikur Liverpool og Portsmouth í hnotskurn.

- Það var kalt í Liverpool eins og sjá mátti á klæðnaði áhorfenda. Luis Garcia spilaði meira að segja í peysu með löngum ermum.

- Steve Finnan lék sinn eitthundraðasta leik fyrir Liverpool.

- Peter Crouch mætti þarna fyrrum félögum sínum. Hann skoraði 19 mörk í 39 leikjum á ferli sínum hjá Portsmouth.

- Salif Diao er á mála hjá Portsmouth. En hann var ekki gjaldgengur í þennan leik þar sem hann er í láni og lánsmönnum er ekki heimilt að leika gegn þeim félögum sem eiga þá.

- Gregory Vignal lék í fyrsta sinn gegn Liverpool eftir að hann yfirgaf félagið. Sander Westerveld fékk á hinn bóginn ekki tækifæri til að spila á sínum gamla heimavelli. Hann mátti gera sér það að góðu að sitja á bekknum.

- Sander lék 103 leiki með Liverpool. Gregory lék 20 sinnum fyrir hönd félagsins.

- Sander vann fimm titla á ferli sínum með Liverpool. Hann var alltaf í sigurliði Liverpool þegar titlarnir fimm unnust árið 2001.

- Þetta var fjórði sigur Liverpool í röð. Í þeim leikjum hefur liðið skorað tíu mörk og ekkert fengið á sig.

- Jose Reina hefur ekki fengið á sig mark í síðustu fimm deildarleikjum á Anfield Road.

- Reyndar hafa aðeins leikmenn Chelsea skorað framhjá honum á heimavelli á leiktíðinni.

- Þeir Stephen Warnock og Dietmar Hamann léku í fyrsta sinn frá tapleiknum gegn Crystal Palace í Deildarbikarnum.

- Liverpool átti níu markskot í fyrri hálfleik. Leikmenn Liverpool voru beinskeyttir því öll skotin fóru á markrammann.

- Boudjewijn Zenden skoraði sitt annað mark fyrir Liverpool.

- Reyndar var það Gregory Vignal, fyrrum leikmaður Liverpool, sem fylgdi boltanum yfir marklínuna þegar Hollendingurinn skallaði í markið!

- Djibril Cissé virtist steinhissa þegar boltinn hafnaði í markinu efitr fyrirgjöf hans. Eða var það skot? Það voru fleiri hissa en hann!

- Þeir Jose Reina og Boudewijn Zenden voru í liði vikunnar á vefsíðu BBC.

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock, Gerrard (Josemi 83. mín.), Hamann, Zenden, Garcia (Morientes 22. mín.), Crouch og Cissé (Alonso 69.mín). Ónotaðir varamenn: Dudek og Traore.

Mörkin: Boudewijn Zenden (23. mín), Djibril Cissé (39. mín) og Fernando Morientes (80. mín).

Gult spjald: Dietmar Hamann.

Portsmouth: Ashdown, Griffin, O'Brien, Priske, Vignal, Viafara, Hughes (Skopelitis 74. mín.), Taylor, Robert (Vukic 64. mín.), O'Neil og LuaLua (Mbesuma 70. mín.). Ónotaðir varamenn: Westerveld og Primus.

Gult spjald: John Viafara.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.394.

Maður leiksins: Boudewijn Zenden. Hollendingurinn átti sinn besta leik með Liverpool. Hann fékk dæmda vítaspyrnu og sýndi svo mikla árvekni þegar hann náði frákastinu eftir að hún fór í súginn. Hann náði þar með að skora í öðrum deildarleiknum í röð á Anfield Road. Boudewijin átti marga mjög góða spretti og það er greinilegt að sjálfstraust hans er farið að aukast.  

Jákvætt :-) Liverpool vann fjórða leik sinn í röð. Liðið er komið upp fyrir miðja deild. Liðsmenn hafa skorað tíu mörk í síðustu fjórum leikjum og enn einu sinni hélt Jose Reina markinu hreinu. Liverpool spilaði mjög vel á köflum og margar sóknir liðsins voru vel útfærðar. Tveir sóknarmenn skoruðu. Allir leikmenn liðsins léku vel. Áhorfendur sýndu Peter Crouch mikinn stuðning og The Kop lá ekki á liði sínu þegar Peter bjó sig undir að taka vítaspyrnuna.

Neikvætt :-(  Peter Crouch náði ekki að skora. En hann lék samt vel. 

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool tók strax öll völd á vellinum. Peter Crouch fékk fyrsta hættulega færi leiksins en Jamie Ashdown, markvörður gestanna sem var lang besti maður þeirra, varði vel. Liverpool fékk vítaspyrnu á 23. mínútu þegar Boudewijn Zenden var hindraður innan vítateigs. Báðar aðalvítaskyttur Liverpool, Steven Gerrard og Djibril Cissé, féllust á leyfa Peter Crouch að taka spyrnuna. Ástæðan var einföld. Allt átti að gera til að koma enska landsliðsmanninum á blað. Nokkur töf varð á því að vítaspyrnan var tekin vegna mótmæla leikmanna Portsmouth sem ekki voru sáttir við dóminn og eins skipti Liverpool um leikmann. Luis Garcia varð að fara af leikvelli vegna meiðsla og landi hans Fernando Morientes kom inn á. Loksins þegar Peter tók spyrnuna þá varði Jamie meistaralega fasta spyrnu hans. En Boudewijn Zenden var vel vakandi, hirti frákastið og skallaði boltann í markið af stuttu færi. Ekki löngu seinna varði Jamie vel skalla frá Fernando Morientes. En á 39. mínútu skoraði Djibril Cissé furðulegt mark. Hann fékk boltann út á hægri kant, lék framhjá Gregory Vignal og sendi fyrir markið. Flestum að óvörum sveif boltinn yfir markvörð gestanna og datt niður í fjærhornið. Liverpool hafði sem og fyrir leikhlé algera yfirburði í síðari hálfleik. Sem fyrr var það Jamie Ashdown sem bjaragði liði sínu hvað eftir annað. Snemma í hálfleiknum varði hann mjög vel frá Peter Crouch sem komst einn í gegn eftir frábæra sendingu frá Fernando Morientes. Eina færi Portsmouth kom þegar Steven Finnan bjargaði á marklínu eftir að Daninn Brian Priske hafði komið skoti á markið. Annars var vörn Liverpool örugg og Jose Reina hafði lítið að gera. Þriðja markið kom á 80. mínútu. Steven Gerrard sendi fyrir. Peter Crouch skallaði til Sami Hyypia sem kom boltanum á Fernando Morientes. Spánverjinn skoraði með öruggu skoti úr teignum. Það með var auðveldur sigur gulltryggður.



TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan