Evrópumeistararnir eru komnir í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar
Vörn Evrópubikarsins gengur vel. Evrópumeistararnir eru komnir áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar. Sæti þar var tyggt, í kvöld, með markalausu jafntefli gegn Real Betis á Anfield Road. Liverpool var sterkari aðilinn í leiknum og hefði átt að vinna sigur miðað við marktækifærin sem gáfust.
Liverpool byrjaði leikinn vel og það varð snemma ljóst að gestirnir ætluðu að verjast og freista þess að ná skyndisóknum. Í fyrri hálfleik átti Peter Crouch tvær góðar marktilraunir. Fyrst átti hann skot utan teigs eftir að hafa lagt boltann vel fyrir sig. Skotið var þó of nærri markverðinum. Litlu síðar átti hann skalla rétt framhjá. Markvörðurinn varði svo bylmingsskot frá Steven Gerrard. Eina færi gestanna var skalli af góðu færi sem fór beint á Jose Reina.
Evrópumeistararnir reyndu að gera út um leikinn í upphafi síðari hálfleiks með kröftugum sóknum. Fernando Morientes komst í opið færi en einn varnarmanna Real Betis bjargaði á síðustu stundu. Ekki svo löngu síðar fékk Spánverjinn aftur gott færi, eftir frábæran undirbúning Peter Crouch, en hann skaut framhjá. Djibril Cissé var settur inn fyrir hann í kjölfarið. Steven Gerrard átti svo tvö góð færi en Antonio Doblas varði í bæði skiptin. Seinna færið, sem kom seint í leiknum, var algert dauðafæri. Steven komst þá einn í gegn eftir frábæra stungusendingu frá Harry Kewell. Gestirnir ógnuðu ekki mikið en undir lokin mátti ekkert út af bera fyrst staðan var markalaus. En leikmenn Liverpool stóðust spennuna og náðu tilskildu stigi í hús. Vörn Evrópubikarsins heldur því áfram á nýju ári.
Liverpool lék vel í kvöld og leikmenn liðsins sýndu einbeitingu og yfirvegun. Það var ekki auðvelt að leika lokakafla leiksins því þá mátti ekkert út af bera. En Evrópumeistaranir eru enn með í keppninni og titilvörnin, sem hófst í byrjun sláttar, heldur áfram. Síðasta umferð riðilsins sker út um hvort Liverpool eða Chelsea endar í efsta sæti riðilsins. Sem stendur er Liverpool í efsta sætinu.
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Riise, Gerrard (Potter 90. mín.), Hamann, Sissoko, Zenden, Crouch (Kewell 83. mín.) og Morientes (Cissé 66. mín.). Ónotaðir varamenn:Dudek, Josemi, Traore og Warnock.
Gult spjald: Dietmar Hamann.
Real Betis: Doblas, Melli, Juanito, Rivas, Lopez, Joaquin, Assuncao (Capi 69. mín.), Rivera, Arzu, Xisco og Fernando (Israel 78. mín.). Ónotaðir varamenn: Contreras, Canas, Castellini, Edu og Juanlu.
Gult spjald: Oscar Lopez.
Áhorfendur á Anfield Road: 42.077.
Rafael var að sjálfsögðu ánægður með liðið sitt eftir leikinn. "Sem framkvæmdastjóri þá er er hæstánægður með að við erum komnir í hóp sextán síðustu liðanna í Meistaradeildinni. Við skiluðum mjög góðu verki. Það er virkilega gott að hafa náð þessum áfanga því nú getum við einbeitt okkur að Úrvalsdeildinni. Ég var ánægður með framgöngu liðsins því við vorum að spila gegn mjög góðu liði. Við sköpuðum nokkur mjög góð færi en náðum ekki að nýta þau. Eftir því sem leið á leikinn þá varð staðan varhugaverðari. En við erum hæstánægðir með að vera komnir áfram."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!