| Sf. Gutt

Í hnotskurn

Allt er þegar þrennt er. Sigur í þriðju tilraun á nýja leikvanginum í Manchester. Tímamót hjá Rafael Benítez. Þetta er leikur Liverpool og Manchester City í hnotskurn. 

- Liverpool vann sinn fjórða deildarsigur í röð.

- Í þessum fjórum deildarleikjum hefur Jose Reina ekki fengið á sig mark.

- Jose er svo sem búinn að gera gott betur en það því hann hefur ekki fengið á sig mark í síðustu sex leikjum.

- Hann er nú búinn að halda markinu hreinu í níu deildarleikjum af tólf deildarleikjum.

- John Arne Riise skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni.

- Það var all langt liðið frá síðasta marki hans. Það kom í úrslitaleik Deildarbikarsins gegn Chelsea. Eins og allir muna þá skoraði John Arne fyrsta mark leiksins eftir aðeins 45 sekúndur.

- Það mark kom Norðmanninum á spjöld sögunnar því aldrei hefur leikmaður skorað svo snemma í Deildarbikarúrslitaleik. 

- Viðureign Liverpool og Manchester City var sú 150. milli liðanna í öllum keppnum.

- Þetta var fyrsti sigur Liverpool á hinum nýja heimavelli Manchester City. Eftir jafntefli og tap í fyrstu tveimur leikjunum náðist loks sigur. Sannaðist þar hið fornkveðna. Allt er þegar þrennt er.

- Joey Barton leikmaður Manchester City er frá Liverpool. Eins og svo margir dyggir stuðningsmenn Liverpool þá lagði hann leið sína til Istanbúl í vor til að sjá úrslitaleikinn um Evrópubikarinn.

- Þessi leikur var 50. deildarleikurinn sem Rafael Benítez stýrir Liverpool.

- Leikmenn liðanna báru sorgarbönd til minningar um George Best sem lést á föstudaginn.

Man City: James, Mills (Wright-Phillips 83. mín.), Dunne, Distin, Jordan (Jihai 75. mín.), Croft, Barton, Ireland, Musampa (Sinclair 68. mín.), Cole og Vassell. Ónotaðir varamenn: Onuoha og Sibierski.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock, Gerrard, Hamann, Sissoko, Riise (Garcia 77. mín.), Cisse (Kewell 51) og Crouch (Morientes 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Potter.

Gul spjöld: Djibril Cissé og Peter Crouch.

Markið: John Arne Riise (61. mín). 

Áhorfendur á Borgarleikleikvanginum í Manchester: 47.105.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Líkt og í síðustu leikjum þá var Steven mjög duglegur. Yfirferð hans í leiknum var mikil og hann bæði sótti og varðist eftir þörfum. Hann var nærri því að skora í fyrri hálfleik þegar skot hans fór rétt framhjá. Fyrirliðinn átti svo stóran þátt í sigurmarkinu.

Jákvætt :-) Liverpool vann sinn fjórða deildarleik í röð. Enn einu sinni náði Jose Reina að halda markinu hreinu og vörnin var gríðarlega sterk. Það var gott að fá mark frá John Arne Riise eftir nokkurt hlé hans í markskorun. Liverpool lék af miklum aga og liðið gaf ekkert eftir þegar undirtökunum var náð í leiknum. Evrópumeistararnir þokast örugglega upp töfluna.

Neikvætt :-(  Því miður trufluðu nokkrir stuðningsmenn Liverpool minningarathöfnina um George Best. Þó svo mikill rígur sé á milli Liverpool og Manchester United þá voru viðbrögð þessara stuðningsmanna fullkomlega óviðeigandi.

Umsögn Liverpool.is um leikinn: Heimamenn byrjuðu heldur betur og Darius Vassell skallaði yfir snemma leiks úr góðu færi. Þegar leið á hálfleikinn náði Liverpool undirtökum. Djibril Cissé hitti boltann ekki vel í góðu færi eftir að Peter Crouch skallaði boltann til hans. Undir lok hálfleiksins átti svo Steven Gerrard frábæra rispu inn í vítateig Manchester City en skot hans fór hárfínt framhjá. Annars var hálfleikurinn tíðindalítill. Jose Reina varði skot frá Darius Vassell í upphafi síðari hálfleiks en það reyndist síðasta færi heimamanna í leiknum. Liverpool jók hraðann í upphafi síðari hálfleiks og sérstaklega kom kraftur í leik liðsins þegar Harry Kewell kom inn fyrir Djibril Cissé snemma í hálfleiknum. En sigurmark leiksins kom á 61. mínútu. Dietmar Hamann sendi góða sendingu á Steven Gerrard sem lék þríhyrning við John Arne Riise. Norðmaðurinn komst í gegn og þrumaði boltanum boltanum í markið óverjandi fyrir David James. Evrópumeistararnir höfðu völdin til leiksloka. Á lokamínútunni reyndi Joey Barton að jafna en Stephen Warnock henti sér fryrir skot hans af mikilli hugprýði. Öruggur og sanngjarn sigur var það með innsiglaður.

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan