| Sf. Gutt

Upp í Meistaradeildarsæti

Evrópumeistarar Liverpool lyftu sér enn upp á við í Úrvalsdeildinni. Fimmti deildarsigur liðsins í röð var unninn af öryggi í Sunderland. Liverpool vann öruggan 2:0 sigur á Svörtu köttunum sem reyndust máttlitlir. Enn heldur Jose Reina marki sínu hreinu. Sjöunda leikinn í röð gekk Spánverjinn af leikvelli án þess að fá á sig mark.

Leikurinn byrjaði svipað og leikurinn við Manchester City á laugardaginn. Það var fátt um fína drætti á upphafskafla hans. Heimenn börðust vel enda var Mick McCarthy framkvæmdastjóri liðsins búinn að skamma leikmenn sína eftir slælega framgöngu í síðasta leik. Fyrsta hættulega færi leiksins kom þegar Peter Crouch slapp einn í gegn, eftir sendingu frá Steven Gerrard, en markvörður Sunderland mætti honum utan teigs og varði með góðu úthlaupi. Evrópumeistararnir komust yfir eftir hálftíma upp úr þurru. Xabi Alonso sneri sér þá snöggð við á sínum vallarhelmingi og sendi frábæra sendingu fram á landa sinn Luis Garcia. Hann stakk vörn Sunderland af og renndi boltanum hárnákvæmt í fjærhornið frá vítateigshorninu. Frábært mark. Liverpool tók nú völdin á vellinum. Steven Gerrard átti skot í stöng frá vítateignum eftir góðan undirbúning Luis Garcia. Liverpool jók svo forystuna á síðustu mínútu hálfleiksins. Aftur var það Xabi sem var hugmyndafræðingurinn að baki markinu. Hann sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Steven Gerrard sem stakk sér í gegn og lék inn í vítateiginn. Ben Alnwick markvörður varði en Steven tók frákastið og sendi boltann af öryggi í autt markið. Þetta mark gerði í raun út um leikinn.

Liverpool átti að fá vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks þegar brotið var á Peter Crouch í dauðafæri. Heimamenn reyndu að komast á blað en gekk lítið. Engu breytti þó þeir yrði manni fleiri á 65. mínútu þegar Mohamed Sissoko var vikið af leikvelli. Hann var áður búinn að fá gult spjald. Liverpool þétti vörnina en náði samt góðum skyndisóknum. Sú besta skilaði næstum marki þegar John Arne Riise fékk boltann rétt utan eigin vítateigs frá Jose Reina. Þaðan lék hann upp að vítateig Sunderland en bylmingsskot hans fór í varnarmann og þaðan í þverslá. Jonathan Sead fékk besta færi heimamanna undir lokin en skot hans, úr góðu færi, fór beint á Jose Reina. Öruggur sigur Liverpool var aldrei í hættu.

Liverpool vann þarna sinn fimmta deildarleik í röð og nú er liðið komið í Meistaradeildarsæti. Sem stendur er Liverpool í fjórða sæti í deildinni. Nú þarf bara að halda áfram á sömu braut og ná fleiri stigum í hús áður en haldið verður til Japans. Enn og aftur var vörn Liverpool mjög sterk og fyrir aftan hana var Jose Reina öruggur. Hann hefur nú ekki fengið á sig mark í 630 mínútur!

Nokkra athygli vakti að Djibril Cissé var ekki í leikmannahóp Liverpool. Talið var að hann hefði verið skilinn eftir heima vegna viðbragða þeirra sem hann sýndi þegar honum var skipt af leikvelli á laugardaginn. Rafael Benítez sagði hins vegar eftir leikinn að Djibril hefði verið hvíldur og fjarvera hans væri ekki tilkomin vegna agamála.

Sunderland: Alnwick, Hoyte (Nosworthy 77. mín.), Breen, Caldwell, Collins, Whitehead, Lawrence (Gray 86. mín.), Bassila, Miller (Welsh 57. mín.), Stead og Brown. Ónotaðir varamenn: Davis og Leadbitter.

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise (Warnock 90. mín.), Gerrard, Sissoko, Alonso, Garcia, Crouch (Traore 79. mín.) og Morientes (Kewell 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Sinama Pongolle.

Mörkin: Luis Garcia (30. mín.) og Steven Gerrard (45. mín.). 

Rautt spjald: Mohamed Sissoko (65. mín.).

Gul spjöld: Steve Finnan og Mohamed Sissoko.

Áhorfendur á Leikvangi ljósanna: 32.697.

Rafel Benítez var ánægður með framgöngu sinna manna eftir leikinn. "Liðið er að spila vel. Við erum að stjórna leikjum, sýna stöðugleika, skora mörk og halda markinu hreinu. Við þurfum að halda þessu gengi áfram. Það gerðum við með því að halda áfram að gera sömu hlutina."

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan