Í hnotskurn
Mun fengsælli heimsókn á Leikvang ljósanna en síðast. Nú var haldið heim með þrjú stig og enn þokast Evrópumiestararnir upp. Þetta er leikur Liverpool og Sunderland í hnotskurn.
- Gömlu gulu varabúningarnir, sem voru notaðir á síðustu leiktíð, voru dregnir fram í dagsljósið.
- Líklega hafa nýju hvítu varabúningarnir taldir skarast við búning Sunderland.
- Síðasta heimsókn Liverpool á Leikvang ljósanna endaði með sigri Sunderland 2:1. Sá leikur fór fram í desember 2002. Frá þeim sigri hefur Sunderland ekki unnið leik í efstu deild á heimavelli sínum.
- Sá sigur Svörtu kattanna er sá eini sem liðið hefur unnið á Liverpool á heimavelli sínum frá árinu 1959.
- Djibril Cissé var ekki með í för til Sunderland. Töldu einhverjir Frakkann hafa verið skilinn eftir heima vegna þess látbragðs sem hann sýndi þegar honum var skipt af leikvelli gegn Manchester City í síðasta leik. Svo var þó ekki því Djibril var hvíldur.
- Anthony Le Tallece mátti ekki leika gegn Liverpool. Reglur um lánsmenn komu í veg fyrir það.
- Stephen Wright fyrrum leikmaður Liverpool gat ekki leikið gegn sínu gamla liði. Hann gat heldur ekki tekið þátt í fyrri leiknum. Stephen er enn ekki orðin góður af meiðslum sem hann varð fyrir í byrjun leiktíðar.
- Það var langt frá því uppselt á leikinn. Alls voru 32.697 áhorfendur á leiknum. Hinn glæsilegi leikvangur Sunderland tekur rétt um fimmtíu þúsund áhorfendur. Eitthvað eru stuðningsmenn Sunderland farnir að missa móðinn. Stuðningsmenn Liverpool létu sig hins vegar ekki vanta.
- Þessum leik var flýtt. Hann átti að fara fram í jólamánuðinum en þá hefði þurft að fresta honum vegna Japansferðar Evrópumeistaranna.
- Þetta var sextugasti sigur Liverpool á Sunderland.
- Þetta var í sextánda sinn sem Liverpool vinnur sigur bæði á heima- og útivelli gegn Sunderland á sömu leiktíðinni.
- Sunderland hefur nú leikið 19 heimaleiki í röð í efstu deild án þess að vinna. Það er met í efstu deild.
- Steve Finnan lék sinn 350. deildarleik á ferli sínum.
- Luis Garcia skoraði fimmta mark sitt á leiktíðinni.
- Steven Gerrard fór upp að hlið Djibril Cissé með ellefta marki sínu á þessari sparktíð.
- Xabi Alonso er búinn að gera Sunderland mikla skráveifu á leiktíðinni. Hann skoraði sigurmarkið í fyrri leik liðanna og í þessum leik lagði hann upp bæði mörkin með frábærum sendingum.
- Xabi átti því manna mestan þátt í tvöföldum sigri Liverpool á Sunderland á þessari leiktíð.
- Sunderland er fyrsta liðið sem Liverpool leikur tvívegis gegn í deildinni á leiktíðinni.
- John Arne Riise var sérlega óheppinn að skora ekki eftir frábæra rispu upp völlinn. Bylmingsskot hans hafnaði í þverslá. Það sama henti hann í leik gegn Tottenham fyrr á leiktíðinni. Þá átti hann þrumuskot í þverslá og niður. Aðeins hársbreidd, eða svo, munaði að tvö glæsileg mörk litu dagsins ljós.
- Mohamed Sissoko varð fyrsti leikmaður Liverpool til að líta rauða spjaldið augum á þessari leiktíð.
- Áður en honum var vikið af leikvelli var hann kominn í bann fyrir fimm gul spjöld. Ekki bætti rauða spjaldið úr skák í því máli.
- Þetta var fimmti sigur Liverpool í röð í deildinni og hefur Jose Reina ekki fengið á sig mark í þeim leikjum.
- Jose Reina hefur haldið markinu hreinu í tíu deildarleikjum á leiktíðinni.
Sunderland: Alnwick, Hoyte (Nosworthy 77. mín.), Breen, Caldwell, Collins, Whitehead, Lawrence (Gray 86. mín.), Bassila, Miller (Welsh 57. mín.), Stead og Brown. Ónotaðir varamenn: Davis og Leadbitter.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise (Warnock 90. mín.), Gerrard, Sissoko, Alonso, Garcia, Crouch (Traore 79. mín.) og Morientes (Kewell 60. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Sinama Pongolle.
Mörkin: Luis Garcia (30. mín.) og Steven Gerrard (45. mín.).
Rautt spjald: Mohamed Sissoko (65. mín.).
Gul spjöld: Steve Finnan og Mohamed Sissoko.
Áhorfendur á Leikvangi ljósanna: 32.697.
Maður leiksins: Jose Reina hélt markinu hreinu í sextánda sinn á leiktíðinni. Hann var öryggið uppmálað og greip hverja fyrirgjöf Sunderland af miklu öryggi. Undir lok leiksins fór hann þó í óskiljanlegt úthlaup. Hann slapp með skrekkinn og ekkert varð úr. Kannski var honum farið að leiðast í markinu. En markmaður sem er ekki búinn að fá á sig mark í sjö leikjum í röð á hrós skilið.
Jákvætt :-) Liverpool vann sinn fimmta deildarleik í röð og er komið upp í Meistaradeildarsæti. Enn einu sinni náði Jose Reina að halda markinu hreinu og vörnin var gríðarlega sterk. Liverpool lék leikinn af mikilli yfirvegun og öryggi. Xabi Alonso kom sterkur til leiks eftir meiðsli og lagði upp bæði mörkin með frábærum sendingum. Steven Gerrard átti mjög góðan leik á miðjunni.
Neikvætt :-( Mohamed Sissoko var klaufskur að láta reka sig af velli. Hann vissi vel að dómarinn var búinn að gefa honum allra síðustu viðvörun. Kannski hefði Rafael átt að vera búinn að skipta honum út af. Peter Crouch er ekki búinn að skora í 1.429 mínútur. Enn náði Fernando Morientes sér ekki á strik í sókninni.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Það var fátt um fína drætti á upphafskafla leiksins. Heimenn börðust vel enda var Mick McCarthy framkvæmdastjóri liðsins búinn að skamma leikmenn sína eftir slælega framgöngu í síðasta leik. Fyrsta færið kom þegar Peter Crouch slapp einn í gegn, eftir sendingu frá Steven Gerrard, en markvörður Sunderland varði með góðu úthlaupi úti fyrir vítateignum. Evrópumeistararnir komust yfir eftir hálftíma upp úr þurru. Xabi Alonso sneri sér þá snöggt við á sínum vallarhelmingi og sendi frábæra sendingu fram á landa sinn Luis Garcia. Hann stakk vörn Sunderland af og renndi boltanum hárnákvæmt í fjærhornið frá vítateigshorninu. Frábært mark. Liverpool tók nú völdin á vellinum. Steven Gerrard átti skot í stöng frá vítateignum eftir góðan undirbúning Luis Garcia. Liverpool jók svo forystuna á síðustu mínútu hálfleiksins. Aftur var það Xabi sem var hugmyndafræðingurinn að baki markinu. Hann sendi frábæra sendingu inn fyrir vörn heimamanna á Steven Gerrard sem stakk sér í gegn og lék inn í vítateiginn. Ben Alnwick markvörður varði en Steven tók frákastið og sendi boltann af öryggi í autt markið. Þetta mark gerði í raun út um leikinn. Liverpool átti að fá vítaspyrnu í byrjun síðari hálfleiks þegar brotið var á Peter Crouch í dauðafæri. Heimamenn reyndu að komast á blað en gekk lítið. Engu breytti þó þeir yrði manni fleiri á 65. mínútu þegar Mohamed Sissoko var vikið af leikvelli. Hann var áður búinn að fá gult spjald. Liverpool þétti vörnina en náði samt góðum skyndisóknum. Sú besta skilaði næstum marki þegar John Arne Riise fékk boltann rétt utan eigin vítateigs frá Jose Reina. Þaðan lék hann upp að vítateig Sunderland en bylmingsskot hans fór í varnarmann og þaðan í þverslá. Jonathan Sead fékk besta færi heimamanna undir lokin en skot hans, úr góðu færi, fór beint á Jose Reina. Öruggur sigur Liverpool var aldrei í hættu.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!