Í hnotskurn
Fyrsti deildarleikur Liverpool og Wigan gat ekki endað mikið betur. Sjötti deildarsigur Liverpool í röð leit dagsins ljós og Peter Crouch braut ísinn. Þetta er leikur Liverpool og Wigan í hnotskurn.
- Þetta var í fyrsta sinn sem Liverpool og Wigan Athletic leiddu saman hesta sína í deildarleik.
- Wigan varð um leið 78. mótherji Liverpool í deildarkeppninni. Liverpool hefur lagt alla þessa mótherja sína að velli að minnsta kosti einu sinni.
- Liverpool og Wigan höfðu tvívegis leitt saman hesta sína áður. Það var í Deildarbikarnum haustið 1989. Liverpool vann fyrri leikinn 5:2 á Anfield Road. Glenn Hysen skoraði fyrsta mark Liverpool. Ian Rush bætti tveimur við. Þeir Peter Beardsley og John Barnes skoruðu svo undir lok leiksins.
- Seinni leikurinn fór líka fram þar því heimavöllur Wigan var ekki leikhæfur. Liverpool vann þann leik 3:0.
- Það gerðist sögulegur atburður í þeim leik. Steve Staunton kom inn sem varamaður og skoraði öll þrjú mörk Liverpool. Þetta er í eina skiptið sem varamður hefur skorað þrennu fyrir Liverpool.
- Wigan Athletic á sér ekki langa sögu í ensku deildarkeppninni. Liðið komst fyrst inn í hana árið 1978. Þá var Liverpool líka Evrópumeistari!
- Þó leikurinn færi fram um hádegisbilið gátu stuðningsmenn liðanna líklega sofið aðeins lengur fram eftir miðað við leiktímann. Það er nefnilega mjög stutt á milli Liverpool og Wigan. Það mætti næstum telja þetta grannaslag. En þó ekki alveg!
- Paul Jewell framkvæmdastjóri Wigan leiddi lið í annað sinn á Anfield Road. Hann kom með Bradford City þangað leiktíðina 1999/2000.
- Paul er uppalinn hjá Liverpool og lék með varaliðinu á níunda áratug síðustu aldar.
- Um leið og ellefta mínúta leiksins leið hafði Peter Crouch leikið heilan sólarhring fyrir Liverpool án þess að skora mark. En það var farið að styttast í biðinni.
- Fyrsta marki leiksins var fagnað gríðarlega á Anfield Road. Peter tók eitt það lengst fagnaðarhlaup í sögu Liverpool og stefni í átt að The Kop. Félagar hans náðu honum ekki fyrr en hann var kominn hálfa leið yfir völlinn!
- Nokkur umræða hefur orðið um hvort Peter Crouch eigi fyrsta mark leiksins. Eftir leik var tilkynnt að markið yrði skráð sem sjálfsmark. En forráðamenn Liverpool ætla sér að færa markið í sitt bókhald sem eign Peter Crouch.
- Peter fékk mikið klapp frá áhorfendum, sem stóðu á fætur og hylltu hann, þegar honum var skipt af leikvelli.
- Peter Crouch var valinn í lið vikunnar hjá vefsíðu BBC.
- Djibril Cissé kom inn fyrir Peter og lék þar með sinn fimmtugasta leik fyrir hönd Liverpool.
- Luis Garcia skoraði annan leikinn í röð. Þetta var sjötta mark hans á leiktíðinni.
- Mikill og dimmur rigningarskúr gekk yfir á meðan á leiknum stóð. Svo dimmt var á tímabili að engu var líkara en komið væri kvöld.
- Stephane Henchoz var vel tekið á gamla heimavelli sínum. Hann barðist eins og ljón í vörn Wigan. Hann gekk þó fullhart fram undir lokin og fékk að líta gula spjaldið.
- Þetta var sjötti deildarsigur Liverpool í röð.
- Í þessum sigurleikjum hefur Jose Reina ekki fengið á sig mark. Í öllum keppnum er hann búinn að halda markinu hreinu átta sinnum í röð.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Warnock, Garcia, Gerrard, Alonso (Hamann 67. mín.), Kewell (Riise 62. mín.), Crouch (Cisse 73. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson og Josemi.
Mörkins: Peter Crouch (19. og 42. mín.) og Luis Garcia (70. mín.).
Gult spjald: Sami Hyypia.
Wigan: Pollitt, Chimbonda, Henchoz, De Zeeuw (Jackson 35. mín.), Baines, Bullard, Kavanagh (Skoko 78. mín.), Francis (Connolly 66. mín.), McCulloch, Roberts og Camara. Ónotaðir varamenn: Walsh og Taylor.
Gul spjöld: Pascal Chimbonda og Stephane Henchoz.
Áhorfendur á Anfield Road: 44.098.
Maður leiksins: Peter Crouch. Kannski léku einhverjir betur en hann. En það er ekki annað hægt en að velja Peter loksins þegar hann braut af sér hlekki markaleysisins. Í raun lék hann kannski ekki neitt betur en í síðustu leikjum. Hann er búinn að standa sig mjög vel upp á síðkastið. Munurinn var einfaldlega sá að nú náði hann að skora. Gott betur en það. Mörkin voru tvö frekar en eitt og Peter verðskuldaði þau sannarlega.
Jákvætt :-) Liverpool vann sinn sjötta deildarleik í röð. Peter Crouch náði að brjóta ísinn og skora. Liðið byrjaði leikinn frábærlega með því að herja af krafti á andstæðinga sína. Sóknarleikur liðsins var frábær á köflum. Allir leikmenn Liverpool léku mjög vel. Steven Gerrard átti algeran stórleik á miðjunni. Enn einu sinni var vörn Liverpool mjög sterk og Jose Reina hélt markinu hreinu. Í heild leikur eins og best verður á kosið.
Neikvætt :-( Ekkert sem heitið getur. Nema þá að Liverpool hefði átt að geta unnið enn stærri sigur.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði leikinn af miklum krafti og það var greinilegt að Evrópumeistararnir ætluðu sér ekkert nema sigur. En á 19. mínútu kom langþráð mark. Peter Crouch fékk boltann við miðju og lék upp að marki Wigan. Rétt utan vítateigs skaut hann að marki. Boltinn fór í Leighton Baines og hátt í loft upp. Á marklínunni reyndi Mike Pollitt, markmaður Wigan, að koma boltanum frá markinu en allt kom fyrir ekki og boltinn fór í markið. Mikill fögnuður braust út þegar boltinn lá í markinu og Peter tók á rás og hljóp í átt að The Kop og félagar hans á eftir honum. Þeir náðu honum ekki fyrr en aftur við miðju. Þó svo að Mike hafi blakað boltanum í markið þá eignaði Peter sér markið og engan undraði að hann skyldi fagna markinu svo innilega. Litlu síðar bætti Mike fyrir mistökin þegar hann gerði vel í að verja aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Hann varði litlu síðar aftur frá Steven eftir að fyrirliðinn hafði tekið mikla rispu inn í vítateiginn. Harry Kewell skaut svo í hliðarnetið úr góðu færi. En hafi einhver vafi leiki á því hver átti fyrsta mark leiksins þá gat ekki nokkur velkst í vafa um næsta mark. Það kom á 42. mínutu. Steve Finnan sendi þá frábæra sendingu fram völlin yfir vörn Wigan. Peter Crouch stakk sér í gegn og náði boltanum. Hann lék upp að markinu og inn í teiginn þaðan sem hann lyfti boltanum yfir Mike Pollitt af miklu öryggi. Ekki fagnaði Peter þessu marki síður en hinu. Nú var risinn kominn á blað! Gestirnir, sem gáfust aldrei upp, reyndu að minnka muninn í upphafi síðari hálfleiks. Sami Hyypia bjargaði þá frábærlega með því að komast fyrir markskot úr góðu færi. Fernando Morientes var nærri því að auka forystuna þegar hann skallaði í þverslá. Jose Reina ætlaði sér að halda hreinu og þurfti að taka á þegar hann varði frá Jimmy Bullard. En Liverpool gerði endanlega út um leikinn á 70. mínútu. Fernando Morientes skallaði þá að marki eftir hornspyrnu. Luis Garcia var vel vakandi í markteignum og stýrði boltanum laglega í markið með brjóstkassanum. Mike Pollitt kom í veg fyrir enn stærri sigur undir lokin. Fyrst varði hann fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard og svo bjargaði hann í tvígang frá Fernando. Frábær sigur í höfn og sá sjötti í röð í deildinni.
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!