Í hnotskurn
Gott nesti fyrir Japansferðina. Sjöundi deildarsigurinn í röð lyfti Evrópumeisturunum upp í annað sætið. Jose Reina setti nýtt félagsmet. Þetta er leikur Liverpool og Middlesbrough í hnotskurn.
- Liverpool jafnaði félagsmet, frá leiktíðinni 1987/88, með því að halda markinu hreinu tíunda leikinn í röð.
- Jose Reina setti nýtt félagsmet með því að fá ekki á sig mark tíu leiki í röð. Þegar metið frá leiktíðinni 1987/88 var sett skiptust leikirnir milli þeirra Bruce Grobbelaar og Mike Hooper.
- Jose Reina hefur því haldið markinu hreinu í níuhundruð mínútur samfleitt. Frábær árangur svo ekki sé fastar kveðið að!
- Liverpool vann sinn sjöunda deildarsigur í röð.
- Þrir ástralskir landsliðsmenn voru í byrjunarliðum sínum. Harry Kewell var fulltrúi Ástrala hjá Liverpool en þeir Mark Schwarzer og nafni hans Vikuka voru í liði gestanna.
- Miðvörðurinn reyndi Gareth Southgate lék sinn 150. leik með Boro.
- Liverpool skoraði fyrra mark sitt manni færri því Sami Hyypia var utan vallar þar sem gert var að höfuðmeiðslum sem hann varð fyrir eftir árekstur við einn leikmanna Middlesbrough. Sami kom fljótlega inn á og það fyrsta sem hann gerði var að skalla boltann frá marki Liverpool! Áhorfendur fögnuðu Finnanum mjög fyrir þetta og sungu nafn hans!
- Leikmenn Liverpool voru mjög kraftmiklir í leik sínum. Sem dæmi um það þá skildi Steven Gerrard eftir takkaför á einu auglýsingaskilti. Hann rann á fullum krafti á skiltið þegar hann var að reyna að ná boltanum uppi við endamörk!
- Fernado Morientes er nú búinn að skora sex mörk á leiktíðinni.
- Þeir Fernando Morientes og Sami Hyypia voru valdir í liði vikunnar á vefsíðu BBC.
- Chris Rigott var rekinn af leikvelli undir lok leiksins. Í fyrri leik liðanna var líka einn leikmaður Middlesbrough rekinn út af. Þá var það Ugo Ehiogu sem mátti líta rauða spjaldið.
- Liverpool hefur nú leikið átján deildarleiki í röð gegn Middlesbrough á Anfield Road án þess að bíða ósigur.
Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Gerrard, Alonso, Sissoko, Kewell (Cisse 82. mín.), Morientes (Josemi 87. mín.) og Crouch (Garcia 67. mín.). Ónotaðir varamenn: Dudek og Warnock.
Mörkin: Fernando Morientes (72. og 77. mín).
Gult spjald: Mohamed Sissoko.
Middlesbrough: Schwarzer, Bates, Southgate, Riggott, Queudrue, Morrison (Hasselbaink 75. mín.), Doriva, Boateng, Rochemback, Viduka og Yakubu (Ehiogu 86. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Pogatetz og Johnson.
Rautt spjald: Chris Riggott (84. mín.).
Gul spjöld: Matthew Bates og Chris Riggott.
Áhorfendur á Anfield Road: 43.510.
Maður leiksins: Fernando Morientes lék mjög vel í leiknum. Fyrir utan að tryggja Liverpool sigur með tveimur mörkum þá var hann mjög duglegur í sókninni. Þetta var einn ef ekki besti leikur Spánverjans frá því hann kom til Liverpool.
Jákvætt :-) Liverpool jafnaði félagsmet , sem búið er að standa frá leiktíðinni 1987/88, með því að halda markinu hreinu tíu leiki í röð. Jose Reina setti svo sjálfur félagsmet. Liverpool lék af krafti og það var greinilegt frá fyrstu mínútu að liðið ætlaði sér ekkert nema sigur. Jose var frábær í markinu og varði tvívegis mjög vel. Vörnin var sem fyrr frábær og liðið lék allt vel.
Neikvætt :-( Það er ekki yfir neinu að kvarta eftir þennan góða sigur.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði leikinn vel og Steven Gerrard ógnaði marki gestanna tvívegis á á fyrstu fimm mínútunum. Leikmenn Liverpool voru mjög kraftmiklir en Middlesbrough varðist vel og leikmenn liðsins voru mjög duglegir. Besta færi Liverpool í fyrri hálfleik kom undir lok hans. Það fékk Mohmed Sissoko. En hann skallaði beint á Mark Schwarzer markvörð Middlesbrough úr dauðafæri. Gestirnir voru næstum búnir að ná forystu strax í upphafi síðari hálfleiks. Mark Viduka fékk þá boltann í upplögðu færi en Jose Reina varði frábærlega með fæti. Eftir þetta herti Liverpool tökin. John Arne Riise skaut þrumuskoti yfir og ekki löngu síðar varði Mark mjög vel skot frá Fernando Morientes. Mark varði svo naumlega frá landa sínum Harry Kewell. Látlaus sókn Liverpool fór í hönd en leikmenn Middlesbrough vörðust af krafti og Mark Schwarzer, sem lék mjög vel í markinu, var öruggur fyrir aftan vörnina. Rafael Benítez skipti Peter Crouch af leikvelli á 67. mínútu. Luis Garcia kom í hans stað og fimm mínútum síðar var Spánverjinn búinn að leggja upp mark fyrir Fernando Morientes. Luis sendi þá boltann inn á teiginn. Fernando fékk boltann í dauðafæri og skoraði af öryggi neðst í markhornið. Leikmenn Liverpool og áhorfendur fögnuðu markinu innilega enda var alla farið að lengja eftir markinu sem myndi brjóta ísinn. Það sem meira var Liverpool skoraði þetta mark manni færri því Sami Hyypia var utan vallar þar sem gert var að höfuðmeiðslum sem hann varð fyrir eftir árekstur við einn leikmanna Middlesbrough. Sami kom fljótlega inn á aftur. James Morrison fékk gott færi á að jafna en Jose varði vel. Fimm mínútum eftir að Fernando skoraði fyrsta mark leiksins skoraði hann aftur. Jamie Carragher sendi langa sendingu fram. Einn leikmanna Boro náði aðeins að stýra boltanum að eigin marki beint á Fernando. Spánverjinn fékk boltann einn fyrir innan vörnina og lyfti honum snyrtilega yfir Mark Schwarzer. Með þessu marki var leikurinn unninn og eina spurningin var sú hvort Liverpool næði að halda hreinu. Ekki minnkuðu líkurnar á því þegar Chris Rigott var rekinn af leikvelli þegar sex mínútur voru eftir. Jose Reina hélt hreinu og sjöundi deildarsigur Liverpool í röð var í höfn. Liverpool er nú í öðru sæti deildarinnar og sigurinn var sannarlega gott nesti fyrir ferðina til Japans þar sem Evrópumeistararnir munu reyna að verða heimsmeistarar.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!