Í hnotskurn
Fyrri hindrunin að Heimsmeistaratitli félagsliða yfirstigin. Liverpool vann sinn fyrsta sigur í þessari keppni og setti félagsmet. Þetta er leikur Liverpool og Deportivo Saprissa í hnotskurn.
- Fyrst var keppt í þessari keppni árið 1960.
- Real Madrid vann fyrstu keppnina.
- Alla tíð hafa Evrópumeistarar og Suður Ameríkumeistarar gengið á hólm.
- Framan af var leikið heima og að heiman. Síðar var farið að leika einn leik sem fór fram í Japan.
- Hér eftir er hugmyndin sú að meistaralið hverrar heimsálfu keppi saman. Þó er ekki gert ráð fyrir liði frá Suðurskautslandinu.
- Þetta er í þriðja sinn sem Liverpool tekur þátt í Heimsmeistarakeppni félagsliða. Liðið hefur þó fimm sinnum unnið sér inn þátttökurétt.
- Liverpool afþakkaði boð um þátttöku árin 1977 og 1978. Liðið tapaði svo árin 1981 og 1984.
- Árið 1981 tapaði Liverpool 3:0 fyrir Flamengo frá Brasilíu. Þremur árum seinna mátti liðið þola 1:0 tap gegn argentínska liðinu Independiente.
- Liverpool hefur aldrei fyrr leikið gegn liði frá Kosta Ríka í opinberri keppni. Reyndar hefur liðið aldrei mætt liði frá Mið Ameríku.
- Deportivo Saprissa var stofnað árið 1935.
- Liðið hefur orðið 23. sinnum meistari í heimalandi sínu.
- Liverpool vann sinn fyrsta sigur í þessari keppni í þriðju tilraun.
- Peter Crouch varð fyrstur leikmanna Liverpool til að skora í þessari keppni. Liverpool hafði leikið 183 mínútur án þess að skora í keppninni.
- Peter tvöfaldaði markatölu sína á leiktíðinni í leiknum.
- Steven Gerrard skoraði tólfta mark sitt á leiktíðinni. Hann vantar nú aðeins eitt mark upp á að hafa skorað jafn mörg mörk og á síðustu sparktíð.
- Af þeim fjórtán leikmönnum Liverpool sem tóku þátt í leiknum þá léku níu þeirra í úrslitaleiknum um Evrópubikarinn gegn AC Milan í vor.
- Enginn í leikmannahópi Liverpool hefur áður leikið í þessari keppni.
- Liverpool setti nýtt félagsmet með því að leika ellefta leik sinn í röð án þess að fá mark á sig.
- Gamla metið var frá leiktíðinni 1988/87.
- Það var merkilegt að metið skyldi slegið af öllum stöðum í Asíu!
- Jose Reina hélt áfram að bæta sitt met.
- Enginn markvörður í sögu Liverpool hefur haldið markinu lengur hreinu. Hann er nú búinn að leika níuhundruð og níutíu mínútur án þess að fá mark á sig. Sannarlega magnað afrek!
- Það var kalt í Yokohama. Veturnir geta verið kaldir í Japan.
- Talið er að á annað þúsund stuðningsmenn Liverpool hafi verið á leiknum. Það er að segja enskra.
- Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir og sungu allan leikinn. Margir voru með jólasveinahúfur enda rauði liturinn sígildur. Gott ef jólalög voru ekki á söngskránni. Það er þó ekki víst að textarnir hafi verið jólalegir!
- Það er ekki að spyrja að stuðningsmönnum Liverpool. Þeir fylgja liði sínu hvert á land sem er. Meira að segja í fjarlægar heimsálfur!
Liverpool: Reina, Josemi, Hyypia (Garcia 72. mín.), Carragher, Traore, Gerrard (Pongolle 64. mín), Sissoko, Alonso (Hamann 79. mín.), Riise, Crouch og Cissé. Ónotaðir varamenn: Dudek, Carson, Finnan, Kewell, Morientes og Warnock.
Mörkin: Peter Crouch (3. og 58. mín.) og Steven Gerrard (32. mín.)
Deportivo Saprissa: Porras, Cordero, Ronald Gonzalez, Jervis Drummond, Badilla, Bennett, Bolanos, Centeno, Azofeifa, Gomez og Saborio. Varamenn: Parks, Aleman, Brenes, Solis, Esquivel, Nunez, Phillip, Lopez, Fausto Gonzalez og Gerald Drummond, Navas, Fonseca.
Áhorfendur í Yokohama: 43.902.
Maður leiksins: Peter Crouch. Risinn lék mjög vel í sókninni. Peter lagði grunninn að sigri Liverpool með því að skora snemma í leiknum. Hann tvöfaldaði svo markafjölda sinn á leiktíðinni. Peter var óheppinn að skora ekki þrennu.
Jákvætt :-) Liverpool er komið í úrslitaleikinn um Heimsmeistaratitil félagsliða. Liðið á því enn möguleika á að vinna þennan titil sem félagið hefur enn ekki unnið. Liverpool setti félagsmet með því að halda markinu hreinu ellefta leikinn í röð. Leikmenn liðsins sýndu mikla ákveðni undir lokin. Þeir ætluðu sannarlega að setja nýtt met. Jose Reina hélt áfram að bæta metið sitt. Peter Crouch tvöfaldaði markafjölda sinn á leiktíðinni. Hann lék mjög vel. Markið hjá Steven Gerrard var frábærlega afgreitt. Djibril Cissé lék sinn besta leik í langan tíma. Liverpool sýndi oft mikinn hraða í skyndisóknum sínum. Mikið öryggi var yfir leik Evrópumeistaranna. Stuðningsmenn Liverpool voru frábærir. Tólfti maðurinn lét sannarlega til sína taka í Japan!
Neikvætt :-( Það er ekki yfir neinu að kvarta. Allt gekk samkvæmt áætlun!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool fékk óskabyrjun. Strax á 3. mínútu vann Djibril Cissé boltann rétt utan vítateigs. Hann sendi boltann á John Arne Riise. Norðmaðurinn sendi inn á teiginn. Þangað var Djibril kominn og hann lagði boltann fyrir Peter Crouch sem skoraði af öryggi með viðstöðulausu skoti. Fyrsta mark Liverpool í Heimsmeistarakeppni félagsliða hafði litið dagsins ljós í þriðju atrennu. Liverpool tók öll völd í framhaldi af þessu og markvörður Deportivo varði vel skalla frá John Arne Riise. Margar sóknir Liverpool voru hraðar og vel útfærðar. En upp úr þurru fengu Fjólubláu skrímslin upplagt færi á að jafna leikinn. Alvaro Saborio slapp þá í gegnum vörn Liverpool en skaut framhjá. Liverpool refsaði Mið Ameríkumeisturunum grimmilega fyrir þetta því á 32. mínútu skoruðu Evrópumeistararnir sitt annað mark. John Arne Riise sendi þá frábæra sendingu fyrir markið. Steven Gerrard æddi upp að vítateig Deportivo og tók boltann þar viðstöðu laust á lofti og hamraði hann í stöng og inn í markið. Frábært mark hjá fyrirliðanum. Yfirburðir Liverpool voru algerir fram að hálfleik og útlitið var sannarlega gott þegar flautað var til hálfleiks. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn vel og Djibril Cissé skallaði rétt framhjá úr góðu færi. Á 58. mínútu gerðu Evrópumeistararnir endanlega út um leikinn. Peter Crouch vann þá boltann af varnarmanni Deportivo. Hann lék svo inn í vítateiginn og skoraði af miklu öryggi framhjá markverðinum. Liverpool réði lögum og lofum lengst af en á síðasta stundarfjórðungi leiksins slökuðu liðsmenn á og leikmenn Deportivo Saprissa færðu sig upp á skaftið. Til leiksloka fólst mesta spennan í því hvort Liverpool næði að slá félagsmetið. Jose Reina varði tvívegis vel og varnarmenn Liverpool björguðu nokkrum sinnum á síðustu stundu. Josemi bjargaði til dæmis tvívegis í sömu sókninni. Liverpool átti góðar skyndisóknir og það var vel varið frá Florent Sinama Pongolle. En félagsmetið féll og sigur Liverpool var öruggur.
-
| Sf. Gutt
Gleðileg jól! -
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga!