Fínasta jólagjöf
Stuðningsmenn Liverpool fengu þessa fínu jólagjöf frá liðinu sínu á öðrum degi jóla þegar Newcastle lá í valnum á Anfield Road. Liverpool lék mjög vel og vann öruggan sigur 2:0 og hefði sigurinn getað verið enn stærri ef miðað er við algera yfirburði Evrópumeistaranna. Það var því ekki að sjá að vonbrigðin, sem liðið varð fyrir í Japan, sætu í mönnum. Michael Owen, sem var mikið í sviðsljósinu sökum endurkomu sinnar, fékk engar gjafir frá fyrrum félögum sínum og sást varla í leiknum.
Liverpool byrjaði leikinn af gríðarlegum krafti og Shy Given náði naumlega að verja frá Fernando Morientes strax í upphafi. Litlu síðar varði Írinn stórkostlega fast skot frá Harry Kewell sem var í góðu færi í teignum. Markið lá í loftinu og það kom á 14. mínútu. Luis Garcia sendi þá boltainn frá hægri kanti. Peter Crouch lagði boltann fyrir Steven Gerrard. Fyrirliðinn tók strikið í átt að markinu. Hann þóttist ætla að skjóta og það kom varnarmönnum Newcastle úr jafnvægi. Hann komst við þetta einn inn á teiginn þaðan sem hann þrumaði boltanum efst í markið úti við stöng. Leikmenn Liverpool og áhorfendur gengu af göflunum af fögnuði. Leikmenn Liverpool voru ekki hættir og hver sóknin rak aðra. Skjórarnir ógnuðu þó aðeins og John Arne Riise bjargaði uppi við eigið mark á síðustu stundu með því að skalla yfir. En það var miklu meira að gerast hinu megin á vellinum og Shy Given, sem var besti maður síns liðs, varði vel fasta aukaspyrnu frá Steven Gerrard. Liverpool skoraði svo aftur á 43. mínútu. Harry Kewell sendi góða sendingu fyrir frá vinstri. Peter Crouch skallaði boltann neðst í hornið fjær. Shy hafði hendur á boltanum en náði ekki að verja og snúningurinn á boltanum kom honum yfir marklínuna. Línuvörðurinn gaf merki um mark og hafði rétt fyrir sér! Einhverjir hafa skráð markið sem sjálfsmark Shy Given en ég skil ekki í öðru en Peter eigi þetta mark með húð og hári. Þetta mark gerði endanlega út um leikinn.
Snemma í síðari hálfleik átti Liverpool að fá vítaspyrnu þegar Nolberto Solano bjargaði skalla Fernando Morientes á línu með hendi. Þeir fjarlægu möguleikar sem Skjórarnir áttu á að ná einhverju út úr leiknum hurfu endanlega þegar Lee Bowyer var rekinn af velli á 66. mínútu eftir harkalegt brot á Xabi Alonso. Nokkrum leikmönnum lenti saman eftir brot Lee og Peter Crouch var bókaður fyrir að hrinda þeim brotlega. Lee kann ekki vel við sig á Anfield Road en hann var líka rekinn út af þar á síðustu leiktíð þegar Liverpool vann 3:1 á aðventu. Nú var hann rekinn út af á jólum. Kannski var full strangt að gefa Lee beint rautt á þetta brot og þó. Eftir þetta slökuðu leikmenn Liverpool á klónni. Djibril Cissé, sem leysti Peter af, komst næst því að skora en Shy varði fast skot hans vel undir lok leiksins. Áttundi deildarsigur Liverpool í röð var innbyrtur og stuðningsmenn héldu glaðir heim í jólaafgangana.
Sem fyrr segir var mikið rætt um endurkomu Michael Owen fyrir leikinn. Nokkrir stuðningsmenn Liverpool bauluðu þegar nafn hans var lesið upp fyrir leikinn og komu þau viðbrögð nokkuð á óvart. En flestir stuðningsmenn Liverpool munu þó hafa klappað fyrir honum. Michael fékk að kenna á stríðni The Kop. Þegar hann nálgaðist stúkuna frægu í fyrsta sinn í leiknum sungu áhorfendur þar "Hvar varst þú þegar við vorum í Istanbúl?!" Hvað framgöngu Heilags Mikjáls í leiknum þá er skemmst frá því að segja að Jamie Carragher, stórvinur hans og aðrir samverkamenn hans í vörn Liverpool, héldu markakóngnum í gjörgæslu. Michael komst ekki í færi og sást ekki í leiknum. Helsta afrek hans var að næla í eina hornspyrnu.
Liverpool: Reina, Finnan (Josemi 78. mín.), Hyypia, Carragher, Riise, Garcia, Gerrard, Alonso, Kewell (Pongolle 67. mín.), Crouch (Cissé 72. mín.) og Morientes. Ónotaðir varamenn: Carson og Warnock.
Mörkin: Steven Gerrard (14. mín.) og Peter Crouch (43. mín).
Gult spjald: Peter Crouch.
Newcastle United: Given, Ramage, Boumsong, Taylor (Bramble 28. mín.), Babayaro, Bowyer, Faye, N´Zogbia (Solano 45. mín.), Luque (Ameobi 86. mín), Shearer og Owen. Ónotaðir varamenn: Harper og Elliott.
Rautt spjald: Lee Bowyer (66. mín.).
Áhorfendur á Anfield Road: 44.197.
Ekki minnkaði jólaskapið hjá Rafael Benítez við sigurinn. "Liðið vinnur mjög vel varnarlega og við erum líka að skapa okkur marktækifæri. Núna er það jafnvægi í liðinu sem við höfum verið að leita eftir. Það væri mjög mikilvægt fyrir okkur að geta haldið þessu gengi áfram."
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!