| Sf. Gutt

Rauð jól í Liverpool!

Það eru sannarlega rauð jól í Liverpool eftir að þeir Rauðu lögðu þá Bláu að velli á Goodison Park í gærkvöldi. Evrópumeistararnir voru einfaldlega betri en Everton og unnu öruggan 3:1 sigur. Heimamenn börðust vel en það dugði skammt. Það eina sem skyggði á gleðina var að Jose Reina fékk á sig deildarmark eftir að hafa haldið markinu hreinu í 762 mínútur. En sem betur fer hafði það mark ekki áhrif á úrslit leiksins og Liverpool vann sinn níunda deildarleik í röð í fjórða degi jóla.

Eins og vænta mátti þá byrjaðu leikmenn beggja liða af miklum krafti. Steven Gerrard gaf tóninn með kröftugri tæklingu á Phil Neville við endalínu á marki heimamanna. David Moyes stjóri Everton hafði hvatt sína menn til dáða í fjölmiðlum fyrir leikinn eftir stórtap í siðasta leik. Lærisveinar hans virtust ætla að taka hann á orðinu og Tony Hibbert átti gott langskot sem Jose Reina varði vel. En leikmenn Everton fengu kalda vatnsgusu framan í sig á 11. mínútu. Steven Gerrard og Djibril Cissé léku þríhyrningsspil sem endaði á því að Steven skallaði boltann inn fyrir vörnina á Peter Crouch. Enski landsliðsmaðurinn sýndi mikla yfirvegun með því að leika framhjá Nigel Martyn og senda boltann af öryggi í markið. Leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega á meðan heimamenn fóru að óttast hið versta. Enn versnaði það fyrir Bláliða á 18. mínútu. Liverpool sótti þá að marki Everton. Tim Cahill skallaði fyrirfjöf Steve Finnan frá. Steven Gerrard var fyrstur til að átta sig og náði boltanum. Hann lék framhjá varnarmanni og þrumaði boltanum neðst í markhornið án þess að Nigel hreyfði legg né lið. Boltinn hafði örlitla viðkomu í Joseph Yobo á leiðinni í markið. Liverpool réðu lögum og lofum næstu mínútur og Djibril Cissé skaut rétt yfir. En heimamenn náðu að rétta úr kútnum. Þeir sendu fjölmargar háar sendingar fyrir mark Liverpool og varnarmenn Liverpool áttu í nokkrum vandræðum með þær. James Beattie skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Tim Cahill en línuvörðurinn dæmdi að boltinn hefði verið kominn aftur fyrir endalínu þegar Tim sendi fyrir. Þar mátti lítlu muna. En James skoraði löglegt mark þremur mínútum fyrir leikhlé. Hann skallaði þá í markið eftir að varnarmenn Liverpool náðu ekki að koma boltanum frá. Bláliðar voru því heldur brattari þegar flautað var til leikhlés.

En Evrópumeistararnir slökktu allar vonir Everton strax á 47. mínútu. Harry Kewell sendi boltann yfir vörn Everton á Djibril Cissé sem var á auðum sjó á vinstri kantinum. Frakkinn tók strikið inn í teignn þar sem hann lék auðveldlega á David Weir áður en hann snedi boltann með hnitmiðuðu skoti í hornið fjær. Fylgismenn þeirra Rauðu fögnuðu mjög og ekki var fögnuður Frakkans minni. Eftir þetta var sigri Liverpool ekki ógnað. Fá færi sköpuðust það sem eftir lifði leiks. Liverpool hafði öll tök á leiknum þrátt fyrir baráttu Everton. Steven Gerrard átti besta færi Liverpool en þrumuskot hans fór rétt framhjá. Ekki vænkaðist hagur Everton þegar Phil Neville var rekinn af leikvelli á 68. mínútu með tvö gul spjöld eftir að hafa klippt Mohamed Sissoko niður. James Beattie fékk gott marktækifæri til að hleypa spennu í leikinn stuttu fyrir leikslok en hann skaut yfir af stuttu færi. Enn fækkaði í liði heimamanna á síðustu mínútu leiksins þegar Mikal Arteta fékk sitt annað gula spjald fyrir að sparka Luis Garcia niður. Nokkrum andartökum seinna var flautað til leiksloka og jólin í Liverpool urðu enn rauðari en þau voru fyrir.

Leikmenn Liverpool sýndu mikla einbeitingu í þessari 202. Merseybakkarimmu. Leikmenn vissu greinilega að mótherjarnir voru veikir á svellinu eftir erfitt gengi í síðustu leikjum og þeir voru ákveðnir í að refsa þeim þegar þeim yrði á. Þetta kom vel í ljós í öllum mörkunum. Það voru vonbrigði að Liverpool hélt ekki hreinu en það er vart við hæfi að kvarta eftir að hafa lagt nágranna sína að velli á útivelli á sannfærandi hátt og það á sjálfum jólunum! 

Everton: Martyn, Hibbert, Yobo, Weir, Nuno Valente, Arteta, Neville, Davies (McFadden 57. mín.), Kilbane, Cahill og Beattie.
Ónotaðir varamenn: Wright, Bent, Ferrari og Osman.

Gul spjöld: Tim Cahill, Phil Neville, James Beattie og Mikal Arteta.

Rauð spjöld: Phil Neville (68. mín.) og Mikel Arteta (90. mín.).

Mark Everton: James Beattie (42. mín.). 

Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock, Gerrard (Garcia 85. mín.), Sissoko, Alonso, Kewell (Riise 80. mín.), Crouch (Morientes 77. mín.) og Cissé. Ónotaðir varamenn: Dudek og Josemi.

Mörk Liverpool: Peter Crouch (11. mín.), Steven Gerrard (18. mín.) og Djibril Cissé (47. mín.).

Gul spjöld: Harry Kewell og Peter Crouch.

Áhorfendur á Goodison Park: 40.158.

Rafael Benítez var ánægður en hann telur að Liverpool geti leikið enn betur.  "Ég er mjög ánægður. En þeir ollu okkur vandræðum á köflum í fyrri hálfleik með því að senda háar sendingar fyrir markið og í kjölfarið náðu þeir oft fráköstunum. Við getum leikið miklu betur og við höfum leikið betur á þessari leiktíð. Liðið er að spila vel og menn eru að leika af sjálfstrausti. Við vissum fyrir leikinn að þeir myndu spila fast og við vissum hvernig átti að bregðast við því. Allir leikmenn liðsins lögðu hart að sér. Við lékum hratt frá upphafi. Við vissum að þeir myndu gera einhver mistök og við vildum færa okkur þau í nyt."

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan