Skiptast Liverpool og Villarreal á leikmönnum? - Uppfært
SKY Sports greinir frá því á vefsetri sínu í dag að samningaviðræður séu í gangi á milli Liverpool og Villarreal um leikmannaskipti á Josemi og hollenska varnarjaxlinum Jan Kromkamp.
Josemi hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Liverpool og átt misjöfnu gengi að fagna í þeim leikjum sem hann hefur spilað. Hann hefur þó verið að koma til og átt ágætar innkomur undanfarið en fréttir herma að hann vilji snúa aftur heim til Spánar þegar félagaskiptaglugginn opnar í janúarmánuði.
Sevilla mun hafa sýnt kappanum áhuga en Rafael Benítez hefur ekki vilja láta hann fara frá Liverpool enda þá fáir valkostir fyrir hægri bakvarðastöðuna ef Steve Finnan skyldi meiðast eða ekki njóta við af öðrum orsökum. En nú hefur hugsanlega opnast möguleiki á að slá tvær flugur í einu höggi og leyfa Josemi á fara til Spánar með því að skipta á honum og Jan Kromkamp.
Hollenski landsliðsmaðurinn gekk til liðs við Villarreal í byrjun ágúst í sumar en hann var áður í herbúðum AZ Alkmaar. Hann mun hins vegar ekki vera fyllilega sáttur hjá spænska liðinu og óskað hefur verið eftir því að hann fengi að fara frá liðinu í janúar, t.d. á lánssamningi, til að auka líkurnar á því að hann verði valinn í hollenska landsliðið sem leikur í heimsmeistarakeppninni.
Villarreal hefur hingað til ekki verið ýkja ginkeypt fyrir því að láta Kromkamp frá sér en hugsanleg skipti á honum og Josemi gætu fengið þá til að hugsa málið. Heimildir SKY segja því að hugsanlegt sé að Josemi fari frá Liverpool heim til Spánar í janúar og Kromkamp komi í hans stað á Anfield og veiti Steve Finnan samkeppni um hægri bakvarðastöðuna hjá Liverpool. Ekkert hefur þó fengist staðfest um þetta í herbúðum Liverpool og þar á bæ eru menn þöglir sem gröfin um málið.
Það verður fróðlegt að fylgjast með þessu á næstu dögum svo og auðvitað öðrum hugsanlegum kaupum Liverpool í janúar en bæði miðvörður og hægri kantmaður hafa verið helstu stöður sem menn hafa horft til að þyrfti að styrkja hjá félaginu.
Opinbert vefsetur Villarreal hefur nú staðfest að samkomulag hafi tekist milli félagsins og Liverpool um að Jan Kromkamp gangi til liðs við Liverpool í skiptum fyrir Josemi. Félögin eiga þó enn eftir að ganga frá samningum við leikmennina sjálfa. Staðfesting hefur enn ekki komið frá Liverpool en allt bendir þó til þess að af skiptunum verði og Kromkamp verði nýr leikmaður Liverpool í janúarmánuði en fréttin er nú komin á flesta netmiðla, þ.á.m. SKY og BBC.
Hollendingurinn er 25 ára og getur bæði leikið í vörn og sem miðjumaður. Hann hefur leikið nokkra leiki fyrir hollenska landsliðið en átt erfitt uppdráttar á Spáni og aðeins spilað 10 leiki fyrir Villarreal, þar af 4 í Meistaradeildinni en aðeins 6 í La Liga. Verði af skiptunum sem allt bendir til hittir Kromkamp fyrir landa sinn Boudewijn Zenden á Anfield og verður fjórði Hollendingurinn til að spila með Liverpool. Hinir tveir eru Erik Meijer og Sander Westerveld.
Josemi (Jose Miguel Gonzalez) var fyrsti leikmaðurinn sem Rafael Benítez keypti til Liverpool en það var í júlí 2004. Josemi var keyptur frá Malaga og kostaði tvær milljónir punda.
-
| Sf. Gutt
Úr leik! -
| Sf. Gutt
Hlýrra uppi í stúku! -
| Sf. Gutt
Dregið í Deildarbikarnum -
| Sf. Gutt
Áfram í Deildarbikarnum -
| Mummi
Miðasala á Liverpool – Ipswich og Liverpool – West Ham -
| Mummi
Seinkun á jólagjöf -
| Sf. Gutt
Af samningamálum Trent Alexander-Arnold -
| Sf. Gutt
Jafntefli manni færri! -
| Sf. Gutt
Enn nær Mohamed Salah merkum áfanga! -
| Sf. Gutt
Sögulegur sigur!