Í hnotskurn
Rauð jól. Fjórði dagur jóla færði Liverpool níunda deildarsigurinn í röð. Jólagleðin jókst enn með sigri Liverpool á Goodison Park. Þetta er leikur Liverpool og Everton í hnotskurn.
- Þetta var 202. viðureign LIverpool og Everton.
- Ef deildarleikir eru bara taldir þá var þetta 173. leikur liðanna.
- Eftir þennan leik hefur Liverpool unnið 64 af deildarleikjunum 173. Everton hefur unnið 55. Í 54 skipti hafa liðin skilið jöfn.
- Liverpool stendur líka betur í öllum viðureignunum. Liverpool hefur unnið 78 leiki. Everton hefur unnið 63. Í 61 skipti hafa liðin gengið jöfn af hólmi.
- Þeir Jose Reina, Mohamed Sissoko, Peter Crouch og Djibril Cissé léku í fyrsta sinn í Merseybakkarimmu.
- Peter Crocu og Djibril Cissé afrekuðu það báðir að skora í sínum fyrsta grannaslag. Það gerist ekki oft að menn skori í sínum fyrsta grannaslag hvað þá að tveir skori sín fyrstu mörk í sama leiknum.
- James Beattie skoraði líka í sínum fyrsta grannaslag.
- Steven Gerrard skoraði sitt fjórtánda mark á leiktíðinni. Hann hefur aldrei skorað fleiri mörk á sömu leiktíðinni.
- Þar kom að því að Jose Reina fékk á sig mark eftir að vera búinn að leika átta deildarleiki í röð án þess að fá mark á sig. Það var jöfnun á félagsmeti frá árinu 1923.
- Jose fékk síðast á sig mark þegar Liverpool tapaði 2:0 fyrir Fulham á Craven Cottage þann 22. október. Luis Boa Morte skoraði þá seinna mark Fulham á 90. mínútu. James Beattie náði næst að skora framhjá Spánverjanum rúmum tveimur mánuðum og heilum 762 mínútum seinna.
- Everton hefur aðeins unnið einn leik gegn Liverpool á þessari öld!
- Tveir leikmenn Everton voru reknir af velli. Það sama gerðist í leik liðanna á Goodison Park leiktíðina 2003/2004. Liverpool vann þann leik 2:1.
- Nú hafa seytján leikmenn verið reknir af leikvelli í deildarrimmum liðanna. Ellefu leikmenn Everton hafa litið rauða spjaldið. Sex frá Liverpool hafa hlotið sömu örlög.
- Djibril Cissé fagnaði marki sínu innilega enda var hann í fysta sinn í byrjunarliðinu í nokkurn tíma.
- Djibril henti peysunni sinni upp í stúku til stuðningsmanna Evrópumeistaranna eftir leikinn. Einhverjir töldu það vera merki um að Djibril væri að kveðja stuðningsmennina áður en hann yfirgæfi félagið!
Everton: Martyn, Hibbert, Yobo, Weir, Nuno Valente, Arteta, Neville, Davies (McFadden 57. mín.), Kilbane, Cahill og Beattie.
Ónotaðir varamenn: Wright, Bent, Ferrari og Osman.
Gul spjöld: Tim Cahill, Phil Neville, James Beattie og Mikal Arteta.
Rauð spjöld: Phil Neville (68. mín.) og Mikel Arteta (90. mín.).
Mark Everton: James Beattie (42. mín.).
Liverpool: Reina, Finnan, Carragher, Hyypia, Warnock, Gerrard (Garcia 85. mín.), Sissoko, Alonso, Kewell (Riise 80. mín.), Crouch (Morientes 77. mín.) og Cissé. Ónotaðir varamenn: Dudek og Josemi.
Mörk Liverpool: Peter Crouch (11. mín.), Steven Gerrard (18. mín.) og Djibril Cissé (47. mín.).
Gul spjöld: Harry Kewell og Peter Crouch.
Áhorfendur á Goodison Park: 40.158.
Maður leiksins: Steven Gerrard var gríðarlega öflugur á upphafskafla leiksins. Hann lét finna vel fyrir sér í tæklingum og lagði upp fyrsta markið fyrir Peter. Hann skoraði svo sjálfur annað markið með fallegu langskoti. Steven var úti um allan völl til að byrja með. Hann hægði á sé eftir leikhlé en framganga hans réði miklu í uphafi leiksins.
Jákvætt :-) Liverpool vann Everton! Hvað er betra en að vinna Everton og það á sjálfum jólunum? Liverpool vann níunda deildarleik sinn í röð. Liverpool sýndi gríðarlegan styrk og yfirvegun í leiknum og allir leikmenn liðsins börðust eins og ljón. Eitt besta merkið um styrk Liverpool var hversu mikla stjórn liðið hafði á þessum erfiða leik. Djibril Cissé nýtti langþráð tækifæri í byrjunarliðinu með því að skora mark. Peter Crouch skoraði annan leikinn í röð. Einn öruggasti sigur Liverpool gegn Everton í seinni tíð.
Neikvætt :-( Liverpool fékk á sig mark.
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Eins og vænta mátti þá byrjaðu leikmenn beggja liða af miklum krafti. David Moyes stjóri Everton hafði hvatt sína menn til dáða í fjölmiðlum fyrir leikinn eftir stórtap í siðasta leik. Lærisveinar hans virtust ætla að taka hann á orðinu og Tony Hibbert átti gott langskot sem Jose Reina varði vel. En leikmenn Everton fengu kalda vatnsgusu framan í sig á 11. mínútu. Steven Gerrard og Djibril Cissé léku þríhyrningsspil sem endaði á því að Steven skallaði boltann inn fyrir vörnina á Peter Crouch. Enski landsliðsmaðurinn sýndi mikla yfirvegun með því að leika framhjá Nigel Martyn og senda boltann af öryggi í markið. Leikmenn og stuðningsmenn Liverpool fögnuðu innilega á meðan heimamenn fóru að óttast hið versta. Enn versnaði það fyrir Bláliða á 18. mínútu. Liverpool sótti þá að marki Everton. Tim Cahill skallaði fyrirfjöf frá. Steven Gerrard var fyrstur til að átta sig og náði boltanum. Hann lék framhjá varnarmanni og þrumaði boltanum neðst í markhornið án þess að Nigel hreyfði legg né lið. Boltinn hafði örlitla viðkomu í Joseph Yobo á leiðinni í markið. Liverpool réðu lögum og lofum næstu mínútur og Djibril Cissé skaut rétt yfir. En heimamenn náðu að rétta úr kútnum. Þeir sendu fjölmargar háar sendingar fyrir mark Liverpool og varnarmenn Liverpool áttu í nokkrum vandræðum með þær. James Beattie skoraði með skalla eftir fyrirgjöf frá Tim Cahill en línuvörðurinn dæmdi að boltinn hefði verið kominn aftur fyrir endalínu þegar Tim sendi fyrir. Þar mátti lítlu muna. En James skoraði löglegt mark þremur mínútum fyrir leikhlé. Hann skallaði þá í markið eftir að varnarmenn Liverpool náðu ekki að koma boltanum frá. Bláliðar voru því heldur brattari þegar flautað var til leikhlés. En Evrópumeistararnir slökktu allar vonir Everton strax á 47. mínútu. Harry Kewell sendi boltann yfir vörn Everton á Djibril Cissé sem var á auðum sjó á vinstri kantinum. Frakkinn tók strikið inn í teignn þar sem hann lék auðveldlega á David Weir áður en hann snedi boltann með hnitmiðuðu skoti í hornið fjær. Fylgismenn þeirra Rauðu fögnuðu mjög og ekki var fögnuður Frakkans minni. Eftir þetta var sigri Liverpool ekki ógnað. Fá færi sköpuðust það sem eftir lifði leiks. Liverpool hafði öll tök á leiknum þrátt fyrir baráttu Everton. Steven Gerrard átti besta færi Liverpool en þrumuskot hans fór rétt framhjá. Ekki vænkaðist hagur Everton þegar Phil Neville var rekinn af leikvelli á 68. mínútu með tvö gul spjöld eftir að hafa klippt Mohamed Sissoko niður. James Beattie fékk gott marktækifæri til að hleypa spennu í leikinn stuttu fyrir leikslok en hann skaut yfir af stuttu færi. Enn fækkaði í liði heimamanna á síðustu mínútu leiksins þegar Mikal Arteta fékk sitt annað gula spjald fyrir að sparka Luis Garcia niður. Nokkrum andartökum seinna var flautað til leiksloka og jólin í Liverpool urðu enn rauðari en þau voru fyrir.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!