| Sf. Gutt

Evrópumeistaraárinu lauk með tíunda deildarsigrinum í röð!

Evrópumeistaraárinu lauk með tíunda deildarsigrinum í röð. Liverpool lagði West Bromwich Albion 1:0 að velli á Anfield Road á síðasta degi þessa sigursæla árs. Evrópumeistararnir höfðu gríðarlega yfirburði í leiknum þrátt fyrir að aðeins eitt mark skildi liðin að þegar upp var staðið. Peter Crouch skoraði þriðja leikinn í röð. Þetta hafa verið honum mjög gleðileg jól því hann er búinn að skora í öllum jólaleikjunum þremur.

Síðasti leikur þessa árs þróaðist líkt og flestir höfði spáð. Liverpool sótti án afláts frá upphafi leiksins en stókostleg markvarsla Pólverjans Tomasz Kuszczak. hélt gestunum á floti. Hann varði þrívegis frábærlega frá Harry Kewell í fyrri hálfleik og John Arne Riise átti bylmingsskot í innanverða stöngina. Tomas varði líka mjög vel þrumuskot frá Steven Gerrard.

Það sama var uppi á teningnum framan af síðari hálfleik. En eitthvað varð undan að láta og á 52. mínútu kom sigurmarkið. Harry Kewell sendi þá frábæra sendingu fyrir markið. Í vítateignum stökk Peter Crouch hæst og skallaði boltann örugglega neðst í markhornið fyrir framan The Kop. Þetta var sjöunda mark Peter á leiktíðinni og hann er nú búinn að skora í öllum jólaleikjunum. Pólverjinn kom í veg fyrir annað mark frá Peter með frábærri markvörslu ekki löngu eftir markið. Hann varði þá skalla frá Peter á ótrúlegan hátt. Steven Gerrard átti svo skot rétt framhjá eftir mikla rispu undir lokin. Sigur Liverpool var aldrei í hættu og Jose Reina þurfti ekki að verja eitt einasta skot. Liverpool landaði því tíunda deildarsigrinum í röð og endaði Evrópumeistaraárið sigri. Það var vel við hæfi og stuðningsmenn Liverpool, um allar jarðir, geta haldið gleðileg áramót!

Liverpool: Reina, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Garcia, Gerrard, Alonso, Kewell (Sinama Pongolle 67. mín.), Cissé (Traore 89. mín.) og Crouch (Sissoko 81. mín.). Ónotaðir varamenn: Carson og Hamann

Mark Liverpool: Peter Crouch (52. mín.) 

West Bromwich Albion: Kuszczak, Watson, Curtis Davies, Clement, Robinson, Chaplow (Greening 65. mín.), Wallwork (Kamara 76. mín.), Albrechtsen, Carter, Campbell (Ellington 80. mín.) og Horsfield. Ónotaðir varamenn: Hoult og Moore.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.192.

Rafael Benítez var ánægður með sigurinn en honum fannst að hann hefði átt að vera stærri. "Mér fannst markvörður West Brom vera maður leiksins. Líklega hefur þetta verið einn besti leikur sem hann hefur leikið á ævinni. Hann var ótrúlegur. Við gerðum allt til að vinna en það var stundum næstum ómögulegt að skora. Það er ekki nóg að skora eitt mark en við sköpuðum nógu mörg færi til að skora að minnsta kosti fimm mörk."

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan