Nýtt félagsmet!
Leikmenn Liverpool hafa verið nokkuð duglegir við að bæta gömul met félagsins á þessari leiktíð. Það er skemmst að minnast meta sem vörn Liverpool átti hvað mestan þátt í þegar liðið lék ellefu leiki án þess að fá á sig mark. Svo setti Jose Reina félagsmet með því að halda marki sínu lengur hreinu en nokkur markvörður í sögu Liverpool hefur áður gert. Reyndar setti Peter Crouch líka met en það er nú reyndar ekki met sem haldið er mikið á lofti! Svo varð Liverpool fyrsta enskra liða til að vinna Stórbikar Evrópu í þrígang og svo mætti lengur telja. Leikur Liverpool og Luton um helgina var ekki bara einn besti leikur í F.A. bikarnum um árabil. Félagsmet féll í leiknum.
Evrópumeistararnir voru 3:1 undir þegar Florent Sinama Pongolle kom inn Mohamed Sissoko á 57. mínútu. Leikurinn gerbreyttist þegar franski sóknarmaðurinn kom til leiks. Hann fór hamförum og skoraði tvö mörk á aðeins tólf mínútum. Fyrst með öruggu skoti eftir stungusendingu Steven Gerrard og svo með góðum skalla eftir fyrirgjöf Steve Finnan. Mörkin voru söguleg því þar með hafa varamenn skorað fjórtán mörk fyrir Liverpool á þessari leiktíð. Gamla metið mun hafa verið tólf mörk.
Mörkin hans Florent skiptu sköpum og nokkur önnur varamannamörk leiktíðarinnar hafa verið mjög mikilvæg. Til dæmis voru mörkin tvö sem Djibril Cissé skoraði gegn CSKA Moskva í úrslitaleiknum um Stórbikar Evrópu gulls ígildi í þeirra orða fyllstu merkingu! Þau tryggðu jú seinni Evrópubikar ársins 2005!
Þetta sýnir auðvitað hversu skiptingar varamanna geta haft mikið að segja þegar vel tekst til með þær. Eins sýnir þetta hversu miklu skiptir að hafa stóran og einbeittan hóp leikmanna. Rafael hefur sagt að hver leikmaður sinn hafi ákveðnu hlutverki að gegna. Það kom vel í ljós gegn Luton. Vonandi halda leikmenn Liverpool áfram að bæta þetta met það sem eftir lifir leiktíðar. Það var bara verst að metið skyldi ekki vera jafnað og helst slegið fyrir jólin í Japan. Það skoraði Florent jú gott og gilt mark eftir að hafa komið inn sem varamaður!
Á hinni ágætu vefsíðu lfchistory.net má finna lista yfir alla þá leikmenn sem hafa skorað mark fyrir Liverpool eftir að hafa komið til leiks sem varamenn.
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!