Í hnotskurn
- Liverpool hefur unnið F.A. bikarinn sex sinnum 1965, 1974, 1986, 1989, 1992 og 2001.
- Luton Town náði sínum besta árangri í keppninni árið 1959. Þá tapaði liðið 2:1 í úrslitum fyrir Nottingham Forest.
- Þetta var 385. leikur Liverpool í F.A. bikarkeppninni.
- Þetta var í fjórða sinn sem Liverpool og Luton hafa dregist saman í F.A. bikarnum.
- Liverpool hefur nú haft betur í þremur rimmum.
- Liverpool vann 2:0 á útivelli árið 1920 og svo 3:0 árið 1939. Luton hafði betur leiktíðina 1986/87 eftir þriggja leikja rimmu. Fyrst var markalaust á Kenilworth Road. Aftur skildu liðin markalaus á Anfield Road. Luton vann svo annan aukaleikinn 3:0 á heimavelli.
- Mike Newell framkvæmdastjóri Luton er mikill stuðningsmaður Liverpool. Hann er borinn og barnfæddur í borginni og var til reynslu hjá Liverpool en var ekki boðinn samningur.
- Mike lék á hinn bóginn með Leicester City, Luton Town, Everton og Blackburn Rovers.
- Það merkilega var að Mike skoraði fyrir þrjú lið gegn Liverpool. Hann skoraði fyrir Luton, Everton og Blackburn. Eitt sinn skoraði hann meira að segja þrennu gegn Liverpool gegn Luton.
- En Mike fer enn þegar hann getur til að horfa á Liverpool og hann lét sig ekki vanta í Istanbúl!
- Þetta var meistaraslagur ef svo má segja. Liverpool vann Evrópubikarinn og Stórbikar Evrópu á síðustu leiktíð en Luton vann aðra deildina!
- Einn leikmanna Luton Carlos Edwards gæti tekið þátt í Heimsmeistarakeppninni í Þýskalandi í sumar. Hann er landsliðsmaður Trinidad og Tóbako.
- Liverpool tapaði fyrir fyrstu deildarliði Burnley í 3. umferð F.A. bikarsins á síðustu leiktíð. Á þessari leiktíð tapði liðið svo fyrir öðru liði úr fyrstu deild Crystal Palace í Deildarbikarnum. Það var nóg komið af slíku!
- Þeir Scott Carson, Xabi Alonso, Mohamed Sissoko, Peter Crouch, Djibril Cissé og Jan Kromkamp léku í fyrsta sinn í F.A. bikarkeppninni með Liverpool. Jan lék auðvitað sinn fyrsta leik fyrir hönd Liverpool gegn Luton.
- Liverpool og Luton mættust síðast leiktíðina 1991/92. Liðin gerðu markalust jafntefli á Kenilworth Road en Liverpool vann 2:1 á Anfield Road. Luton féll um vorið 1992 og hefur ekki leikið síðan í efstu deild.
- Fyrir þennan leik höfðu bara Steven Gerrard og Dietmar Hamann skoraði í F.A. bikarnum af núverandi leikmönnum Liverpool. Báðir höfðu skorað eitt mark. Það bættist vel á þennan lista í leiknum!
- Florent Sinama Pongolle skoraði tvö mörk eftir að hafa komið inn sem varamaður. Hann átti þar með þátt í að félagsmet féll. Nú hafa varamenn skorað fjórtán mörk á þessari leiktíð.
- Fyrra mark Xabi Alonso var af löngu færi en það seinna er hugsnlega metmark. Markið var skorað af fimmtíu metra færi. Mér er ekki kunnugt um að leikmaður Liverpool hafi áður skorað af lengra færi.
- Seinna mark Xabi gaf einum stuðningsmanni Liverpool 2,7 milljónir íslenskra króna í aðra hönd. Um leið og boltinn rúllaði í markið varð Adrian Hayward milljónamæringur en hann hafði veðjað um að Xabi næði að skora frá eigin vallarhelmingi á þessari leiktíð. Ætli hann sendi ekki Xabi jólakort!
- Steven Gerrard brá á leik með einum boltastráknum í fyrri hálfleik. Strákurinn rétti Steven boltann svo hann gæti tekið innkast. Um leið rétti hann fyrirliða Liverpool höndina. Steven tók brosandi í hana. Strákurinn gleymir því sennilega ekki í bráð að hafa heilsað Steven Gerrard og það í miðjum leik.
- Stuðningsmenn Liverpool voru fyrir aftan markið sem lið þeirra sótti að í seinni hálfleik. Ekki sá ég betur en einn stuðningsmaður Liverpool væri með all stóra eftirlíkingu af Evrópubikarnum með sér. Eða var þetta kannski sjálfur Evrópubikarinn? Varla!
Luton Town: Beresford, Foley, Coyne, Heikkinen (Barnett 74. mín.), Underwood, Edwards (Feeney 81. mín.), Nicholls, Robinson, Brkovic (Showunmi 81. mín.), Howard og Vine. Ónotaðir varamenn: Morgan og Brill.
Mörk Luton Town: Steve Howard (31. mín.), Steve Robinson (43. mín.) og Kevin Nicholls, víti (53. mín.)
Gult spjald: Coyne.
Liverpool: Carson, Finnan, Hyypia, Carragher, Riise, Kewell, Gerrard, Sissoko (Pongolle 57. mín.), Alonso, Crouch (Kromkamp 79. min.) og Cissé (Warnock 89. mín.). Ónotaðir varamenn: Reina og Hamann.
Gul spjöld: Mohamed Sissoko og Scott Carson.
Mörk Liverpool: Steven Gerrard (16. mín.), Florent Sinama Pongolle (62. og 74. mín.) og Xabi Alonso (69, og 90. mín.)
Áhorfendur á Kenilworth Road: 10.170.
Maður leiksins: Florent Sinama Pongolle breytti gangi leiksins. Hann skoraði tvö mörk á tólf mínútum eftir að hann kom til leiks sem varamaður. Þessi franski strákur hefur átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool en þarna fékk hann loksins að spreyta sig í sókninni. Oft hefur hann leikið úti á kanti. En hann afgreiddi mörkin sín vel og vonandi gefa þau honum sjálfstraust því hann er búinn að leggja hart að sér, frá því hann kom til Liverpool, en ekki uppskorið mikið.
Jákvætt :-) Liverpool komst áfram í F.A. bikarnum. Þessi leikur var sú besta auglýsing sem hægt var að hugsa sér fyrir F.A. bikarinn og þetta var besti leikur í keppninni á seinni árum. Endurkoma Liverpool var ótrúlega mögnuð. Leikmenn liðsins gengu einfaldlega berserksgang í sókninni eftir að Luton komst í 3:1. Sóknarleikur Liverpool var frábær í síðari hálfleik. Steven Gerrard fór hamförum á miðjunni eftir leikhlé. Úthald og yfirferð þessa manns eru með ólíkindum. Loksins náði Florent Sinama Pongolle að láta að sér kveða. Mörkin sem Xabi Alonso skoraði fara beinustu leið í þjóðsagnasafn Liverpool og þá sérstaklega það síðara.
Neikvætt :-( Hvað var í gangi í vörn Liverpool? Líklega hafa þeir Sami Hyypia og Jamie Carragher aldrei verið mistækari saman í hjarta varnarinnar frá því þeir léku þar fyrst saman. Það er vonandi að þeir láti ekki sjá svona til sín aftur!
Umsögn Liverpool.is um leikinn: Liverpool byrjaði betur og það var greinilegt að leikmenn liðsins ætlaðu ekki að falla úr keppninni eins og á síðustu leiktíð. Allt gekk samkvæmt áætlun þegar Steven Gerrard skoraði með frábæru skoti utan vítateigs. Hann tók boltann viðstöðulaust, eftir að Djibril Cissé lagði boltann til hans, í fjærhornið. En leikmenn Liverpool virtust telja að þetta mark væri nóg og smá saman sofnuðu þeir á verðinum. Steve Howard fékk dauðafæri sem hann náði ekki að notfæra sér en hann bætti úr stuttu seinna, á 31. mínútu þegar hann slapp einn í gegnum vörn Liverpool. Hann lék á Scott Carson og skoraði af öryggi í autt markið. Heimamenn gengu á lagið. Steve Finnan bjargaði á línu með skalla og Scott varði vel fast skot frá Rowan Vine. Það kom því ekki á óvart að Luton komst yfir á 43. mínútu. Steve Robinson fékk þá góða sendingu inn í teiginn þar sem hann sneri Jamie Carragher laglega af sér og skoraði með nákvæmu skoti neðst í hornið. Leikmönnum Luton var því skiljanlega vel fagnað þegar flautað var til hálfleiks. Liverpool byrjaði síðari hálfleikinn af miklum krafti. Marlon Beresford, markvörður Luton, varði vel gott skot frá Harry Kewell. Þremur mínútum eftir leikhlé braust Harry í gegn um vörn Luton og sendi boltann fyrir markið á Steven Gerrard sem var í dauðafæri fyrir opnu marki. En Paul Underwood braut á Steven og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Djibril Cissé tók vítaspyrnuna en Marlon varði spyrnuna af öryggi. Fimm mínútum seinna slapp Rowan Vine skyndilega einn í gegnum vörn Liverpool. Scott Carson kom út á móti honum. Rowan féll við vítateigslínuna og dómarinn dæmdi vítaspyrnu. Dómurinn var vafasamur. Leikmaður Luton virtist vera fyrir utan vítateginn þegar hið meinta brot átti sér stað. Það mátti líka færa rök fyrir því að Scott hefði ekki fellt Rowan. En Scott slapp með skrekkinn því dómarinn bókaði hann bara. Nicholls skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni. Allt gekk af göflunum af fögnuði á Kenilworth Road og stuðningsmenn Hattarana sáu fram á frækin sigur. Þá loksins rönkuðu leikmenn Liverpool við sér og tóku leikinn algerlega í sínar hendur. Rafael setti Florent Sinama Pongolle inn á eftir 57 mínútur. Fimm mínútum síðar var Frakkinn búinn að skora. Hann slapp einn í gegnum vörnina eftir sendingu frá Steven Gerrard og skoraði af öryggi rétt innan vítateigs. Við tóku ótrúlegar mínútur. Liverpool sundurspiluðu heimamenn og það mátti búast við marki í hverri sókn. En jöfnunarmarkið var samt óvænt. Það kom á 69. mínútu þegar Xabi Alonso skaut bylmingsskoti af milli þrjátíu og fjörutíu metra færi. Boltinn þeyttist yfir Marlon í marki Luton án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Stórkostlegt skot og nú var komið að stuðningsmönnum Liverpool að fagna. Fimm mínútum síðar sendi Steve Finnan góða sendingu inn á vítateig Luton. Þar stökk Florent manna hæst og skallaði boltann upp undir þverslána með föstum skalla. Evrópumeistararnir voru búnir að snúa leiknum sér í hag og ekki minnkaði gleðin hjá stuðningsmönnum Liverpool. Heimamenn áttu engin svör við þessu. Liverpool sótti enn og það var greinilegt að það átti að gera endanlega út um leikinn. Það gekk ekki þrátt fyrir góðar sóknir. Hollendingurinn Jan Kromkamp lék sinn fyrsta leik með Liverpool þegar hann kom inn fyrir Peter Crouch ellefu mínútum fyrir leikslok. Undir lok leiksins bjargaði Steve Finnan í horn. Markvörður Luton Marlon Beresford brá sér í sóknina með alvarlegum afleiðingum. Leikmenn Liverpool komu boltanum frá eftir hornið. Xabi Alonso fékk boltann og sendi hann í autt mark heimamanna af eigin vallarhelmingi með hnitmiðuðu skoti. Ótrúlegt mark hjá Spánverjanum. Ég hef aldrei áður séð leikmann Liverpool skora af svo löngu færi. Þetta var síðasta snerting leikmanns Liverpool í leiknum. Ótrúleg endurkoma var fullkomnuð! Leikmenn Luton tóku miðju og þar með var leik sem bauð upp á allt lokið. Þvílíkur leikur!
-
| Heimir Eyvindarson
Ofurhetja í uppbótartíma -
| Heimir Eyvindarson
Nunez tryggði mikilvægan sigur á Brentford -
| Heimir Eyvindarson
Brentford-Liverpool -
| Sf. Gutt
Áfram með smjörið! -
| Sf. Gutt
Jafnglími! -
| Heimir Eyvindarson
Af hverju er okkur illa við Nottingham Forest? -
| Sf. Gutt
Fyrsta tapið! -
| Sf. Gutt
Darwin í banni -
| Sf. Gutt
Dregið í FA bikarnum -
| Sf. Gutt
Auðvelt áframhald!