Nýtt félagsmet! Eða hvað?
Félagsmetin féllu í bikarleik Liverpool og Luton Town. Það er búið að tíunda, hér á Liverpool.is, hvernig mörk Florent Sinama Pongolle mörkuðu tímamót í sögu Liverpool. En fimmta markið gæti líka hafa skapað nýtt félagsmet. það var sem sagt ekki nóg með að markið hafi skapað nýjan milljónamæring. Það er í íslenskum krónum. En hvað var svona sögulegt við fimmta markið?
Markinu er svo lýst í leikskýrslu hér á Liverpool.is. "Undir lok leiksins bjargaði Steve Finnan í horn. Markvörður Luton Marlon Beresford brá sér í sóknina með alvarlegum afleiðingum. Leikmenn Liverpool komu boltanum frá eftir hornið. Xabi Alonso fékk boltann og sendi hann í autt mark heimamanna af eigin vallarhelmingi með hnitmiðuðu skoti. Ótrúlegt mark hjá Spánverjanum. Ég hef aldrei áður séð leikmann Liverpool skora af svo löngu færi. Þetta var síðasta snerting leikmanns Liverpool í leiknum. Leikmenn Luton tóku miðju og þar með var leik sem bauð upp á allt lokið. Þvílíkur leikur!"
Nú hefur ferðalag boltans verið mælt frá því Xabi spyrnti honum þar til hann rúllaði yfir marklínuna fyrir framan stuðningsmenn Liverpool sem trylltust af fögnuði við að sjá þetta sögulega mark. Samkvæmt frétt á heimasíðu norska stuðningsmannaklúbbs Liverpool mun færið hafa verið hvorki meira né minna en 59,15 metrar! Ég hef aldrei séð leikmann Liverpool skora af jafn löngu færi og hef ég þó séð öll mörk Liverpool í opinberum leikjum frá því á leiktíðinni 1988/89. Í grúski mínu hef ég aldrei, svo ég muni, rekist á frásögn að því að leikmaður Liverpool hafi skorað frá eigin vallarhelmingi. Nokkrir hafa reynt og þá meðal annars Xabi sjálfur. En núna tókst það með eftirminnilegum hætti! Það er því trúlegt að Xabi hafi þarna sett nýtt félagsmet í langdrægni!
Fyrra mark Xabi var líka langskot eins og þau gerast hvað glæsilegust. Aftur er vitnað í leikskýrsluna. "En jöfnunarmarkið var samt óvænt. Það kom á 69. mínútu þegar Xabi Alonso skaut bylmingsskoti af milli þrjátíu og fjörutíu metra færi. Boltinn þeyttist yfir Marlon í marki Luton án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Stórkostlegt skot og nú var komið að stuðningsmönnum Liverpool að fagna."
Þessi tvö mörk Xabi Alonso voru sannarlega stórglæsileg. Fyrra markið myndi ég til dæmis telja að væri nú þegar eitt af fallegustu mörkum leiktíðarinnar. Síðara markið var auðvitað alger snilld. Það er ekkert auðvelt að skora af svona löngu færi og það þó enginn sé í markinu til að verja það. Svo er annar flötur á langdrægni Spánverjans. Mörkin sem Xabi skoraði gegn Luton hafa sem sagt verið skoruð af samtals um 95 metra færi! Ætli það sé ekki líka nýtt félagsmet!
Eitt enn! Enginn leikmaður Liverpool snerti boltann eftir að Xabi skoraði fimmta markið. Mark Xabi er því hugsanlega síðbúnasta mark í sögu Liverpool. Kannski féll þar enn eitt félagsmetið í þessum magnaða bikarleik!
-
| Sf. Gutt
Mikil jákvæðni hjá félaginu -
| Sf. Gutt
Alisson farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Harvey farinn að æfa -
| Sf. Gutt
Ungliðar lánaðir -
| Sf. Gutt
Virgil fékk frí -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Georginio Wijnaldum fer víða -
| Sf. Gutt
Tveir uppaldir í enska landsliðinu -
| Sf. Gutt
Trent meiddur