| Sf. Gutt

Steve Staunton skipaður í embætti

Steve Staunton fyrrum leikmaður Liverpool var í gær ráðinn sem landsliðsþjálfari Íra og er samningur hans til næstu fjögra ára. Þessi ráðning kemur all nokkuð á óvart þar sem Steve er lítt reyndur við þjálfun. Hann hefur undanfarið verið aðstoðarmaður Paul Merson framkvæmdastjóra Walsall. En Steve verður ekki einn á báti í vandasömu starfi og hann fær góða menn sér til aðstoðar. Sir Bobby Robson, fyrrum landsliðsþjálfari Englands, verður Steve til ráðgjafar næstu tvö árin. Skotinn Kevin MacDonald fyrrum leikmaður Liverpool verður líka einn af þjálfurum írska liðsins. Hann hefur síðustu ár verið þjálfari varaliðs Aston VIlla og hann hefur gert góða hluti í því starfi og meðal annars leitt liðið einu sinni til sigurs í varaliðsdeildinni. Alan Kelly fyrrum landsliðsmaður Íra verður svo þriðji aðstoðarmaður Steve.

Þótt ráðning Steve komi á óvart, ef miðað er við litla reynslu hans af þjálfun, þá er hún nokkuð í takt við ráðningu nokkurra landsliðsþjálfara í Evrópu á síðustu árum. Það hefur verið nokkuð tíðkað að ráða tiltölulega unga nýhætta leikmenn sem litla reynslu hafa af þjálfun. Sem dæmi má nefna þá Marco Van Basten hjá Hollandi, Jurgen Klinsmann hjá þýska landsliðinu og ekki má gleyma Eyjólfi Sverrissyni nýráðnum þjálfara íslenska landsliðsins.  

Steve á glæsilegan feril að baki með Írska landsliðinu. Hann lék 102 landsleiki og skoraði sjö landsliðsmörk. Hann er leikjahæsti leikmaður í sögu írska landsliðsins. Steve lauk landsleikaferli sínum í síðustu síðustu Heimsmeistarakeppni í Austurlöndum fjær sumarið 2002. Hann hefur, ásamt Kenny Dalglish, leikið flesta landsleiki af þeim leikmönnum sem hafa spilað með Liverpool. 

Steve er ekki löngu hættur knattspyrnuiðkun og líklega var hann enn að á síðustu leiktíð. Til gamans má geta þess að Steven var síðastur leikmanna Liverpool, sem urðu Englandsmeistarar árið 1990, til að leggja skóna á hilluna. Steve lék 148 leiki með Liverpool og skoraði sjö mörk. Hann varð sem fyrr segir Englandsmeistari með Liverpool 1990. Hann var F.A. bikarmeistrari árið 1989. Við vonum að Steve farnist vel í starfi sínu.

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan