| Sf. Gutt

Jerzy Dudek gerir hreint fyrir sínum dyrum!

Jerzy Dudek gerði síðdegis í gær tandurhreint fyrir sínum dyrum! Hreingerning hans kom í kjölfar þess að hörð orð voru höfð eftir honum í mörgum enskum dagblöðum í gær. Þar var meðal annars haft eftir Jerzy að hann væri búinn að fá nóg af dvöl sinni hjá Liverpool og hann vildi komast þaðan sem fyrst. Eins brigslaði hann Rafael Benítez um að hafa komið illa fram við sig og það væri tímaeyðsla að ræða málin við hann. Þessi orð voru sem betur fer alröng og alger uppspuni frá rótum enda reyndist rót þeirra ekki geðsleg þegar vel var að gáð.

Hetjan frá Konstantínópel setti þessa yfirlýsingu fram á hinni opinberu vefsíðu Liverpool í gær.

"Ég var mjög óánægður með að lesa þær sögusagnir sem voru um mig í dagblöðunum í dag. Það sem haft er eftir mér hef ég aldrei sagt og ég er búinn að setjast niður með framkvæmdastjóranum og segja honum það. Ég ber mikla virðingu fyrir Rafa Benítez og ég hef lært meira af honum síðustu 18 mánuðina en af nokkrum öðrum framkvæmdastjóra á ferli mínum. Maður móðgar ekki þá sem maður ber virðingu fyrir.

Það er alveg út í hött þegar menn halda því fram að ég vilji ekki spila framar fyrir hönd Liverpool. Þetta er stórkostlegt félag með frábæra stuðningsmenn. Hvers vegna ætti ég ekki að vilja vera hjá félaginu? Það sama gildir um mig og alla aðra knattspyrnumenn að ég vil spila reglulega. Núverandi staða mín hjá félaginu hefur gramist mér. En ég er atvinnumaður og ég mun halda áfram að leggja mig fram eins og ég mögulega get á æfingum og halda áfram að gera mitt besta fyrir Liverpool Football Club."

Svo mörg voru þau orð og í þetta skiptið eru þau rétt höfð eftir Jerzy Dudek sjálfum! 

 

 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan