| Haraldur Dean Nelson

Benítez ánægður með Kewell

Rafael Benítez hældi Harry Kewell á hvert reipi eftir glæsilegt sigurmark hans gegn Tottenham á Anfield í dag. Rafa sagði Harry sannarlega vera búinn að vinna fyrir þessu en þetta er fyrsta mark Ástralans síðan í byrjun desember 2004 en hann hefur verið að spila afar vel undanfarið eftir að hafa átt í langvarandi meiðslum.

Markið hjá Kewell í dag var stórglæsilegt en hann tók fyrirgjöf Steve Finnan á lofti og hamraði viðstöðulausan þrumufleyg í netið beint fyrir framan The Kop. Allt tryllist á Anfield og Rafa sagði eftir leikinn að ætli maður að vinna leik 1:0 þá ætti maður svo sannarlega að gera það með svona marki. 

„Það er Harry mjög mikils virði að skora fyrir framan The Kop eftir allt sem á undan er gengið og hann kláraði þetta glæsilega,“ segir Rafa. „Hann á þetta svo sannarlega skilið og það var frábært að sjá hann setj'ann svona fyrir framan The Kop. Harry æfir af miklum krafti á hverjum degi og það skilar sér í leikjunum. Meiðslin eru ekki að hrjá hann lengur og hann er nú farinn að spila eins og hann gerði áður en þau dundu yfir.“

Rafa hældi leikmönnum sínum fyrir staðfestu og samheldni sem hefði skilað sigri gegn erfiðu liði sem hafi átt góðan leik.

„Þetta var mjög góður sigur gegn erfiðum andstæðingum sem léku vel. Þeir voru mikið með boltann og fengu hreint og klárt dauðafæri í upphafi síðari hálfleiks eftir mistök af okkar hálfu. En við héldum haus og áttu góð færi. Við lékum engan glæsibolta í dag en liðið hefur þroskast mikið og er í betra standi til að sigra leiki eins og þennan, vinnur vel og spilar sem ein liðsheild,“ segir Rafa sem greinilega er ánægður með framfarir leikmanna Liverpool í vetur.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan